RÍKISSTJÓRNIN ER VINSÆL HJÁ BRÖSKURUM

Tilvonandi ríkisstjórn þeirra síbrosandi Sigmundar og Bjarna hefur verið í deiglunni unandfarnar vikur. Svo virðist sem myndun ríkisstjórnarinnar sé mun flóknari að þessu sinni en áður hefur tíðkast. Í byrjun febrúar myndaði Jóhanna ríkisstjórn mjög fljótlega og tók þegar til óspilltra málanna enda verkefnin ærin. Nú horfir þannig við þrátt fyrir mikinn meirihluta 38 þingmenn vefst brosköllunum stjórnarmyndun. Sjálfsagt er Bjarni logandi hræddur við að ef honum mistakist verði honum kennt um að brött kosningaloforð Sigmundar hafi ekki verið unnt að efna. Þá er spurning hvernig á að taka á spillingunni? Á að leysa Sérstakan saksóknara af störfum og draga fjöður yfir alla fjármálaafglöpin sem flest ef ekki öll voru framin af einbeittum brotavilja til að auðga sjálfan sig á kostnað lífeyrissjóða og sparifjáreigenda. Þessi ríkisstjórn broskallanna verður sjálfsagt ekki vinsæl nema meðal hátekjufólks og braskara. Í mínum huga er hér verið að höndla um mikilvægustu málefni landsins. Nú stendur til að sundra Stjórnarráðinu með því að fjölga ráðuneytum og minnka þau, jú það þarf að koma stærri hjörð að kjötkötlunum þar sem má stjórna og drottna! Og svo ætla þeir að lækka skatta og skuldir sem hátekjumenn muni njóta fyrst og fremst. Stefán Ólafsson prófessor hefur bent á að skattálag þeirra sem minnst máttu sín jókst um 13% á árunum 1995-2007, sem sagt valdatíma Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Sigmundur og Bjarni hafa verið nokkuð borubrattir og broshýrir. Mín vegna má ríkisstjórn þessi vera nefnd BROSKALLARNIR enda virðist ekkert benda til annars en að við sem minna megum okkar munum vænta annars en magurra næstu 4 ára. Góðar stundir að öðru leyti!
Guðjón Jensson

Bréf Guðjón barst fyrir nokkru og bið ég hann forláts á drátti á birtingu.
ÖJ

Fréttabréf