Fara í efni

RÍKISSTUÐNINGUR VIÐ AUÐKENNI

Ég sótti um skuldaaðlögun fyrr á árinu eins og meirihluti þjóðarinnar. Mér þótti málflutningur þeirra Framsóknarmanna aldrei burðugur svo ég vissi svosem ekki hvers væri að vænta. Mér datt þó aldrei í hug að þeir gætu breytt þessu mesta framfaraprógrammi og stærsta réttlætismáli hagsögunnar (eða hvað þeir kölluðu það) yfir í það að ég fái nú um eina og hálfa milljón fyrir að hefja viðskipti við einkafyrirtæki út í bæ. Raunar gildir þetta um meirihluta landsmanna. Það er gert að skilyrði fyrir að njóta ábata af almennri efnahagsaðgerð að taka upp viðskipti við tiltekinn einkaaðila. Kvöðin er alger því það er enginn annar kostur gefinn - ekki einu sinni á að mæta á starfsstöð hjá ríkinu eða viðskiptabanka og skrifa undir. Ætli það séu til dæmi um meiri ríkisstuðning við einkarekstur? Er þetta í prinsippi nokkuð ósvipað því ef ákveðið væri að endurgreiðslan færi inn á bensínkortið? Þeir einir sem væru með N1-kort gætu notið ábatans? Ég átta mig á að þessi rafræna lausn hefur einhverja þýðingu upp á öryggi í pappírslausum viðskiptum, en það virðist þó ekki réttlætanlegt að nota svona tilefni til að styrkja viðskiptamódel einhverra manna út í bæ.
Kjartan

Sæll Kjartan,
Ég er þér sammála.
Kv., Ögmundur