LEIKBRÚÐUR FJÁRMÁLAAFLA
Sæll Ögmundur,
Ég vil þakka þér fyrir að vekja máls á TISA samningaviðræðunum á
Alþingi. Þetta er grafalvarlegt mál, sem virðist nú liggja í
þagnargildi. Ég furða mig á því að þjóðarleiðtogar skuli
leggjast svo lágt að setjast að samningaborði um það gerræðislega
valdaafsal sem fjölþjóða viðskiptarisarnir vilja fá fram. Þetta
sýnir væntanlega ljóslegar en ýmislegt annað, að stjórnmálamenn
hafa gerst leikbrúður fjármálaaflanna, hunsa kjósendur sína og fara
á bak við þá. Í skjóli leyndar eru þeir að véla um framtíð þjóða
sinna, og við leynilega undirskrift verður ekki aftur snúið. Ég
skora á þig að halda þessu máli vakandi. Tilhugsunin um málið vekur
hjá mér hroll, og ekki hvað síst það, að utanríkisráðherra vor sé
fulltrúi þjóðarinnar við þetta samningaborð. Ég treysti honum og
hans dómgreind ekki par. Þessi utanríkisráðherra er uppskafningur í
mínum augum, og virðist vera uppblásinn af mikilvægi við það að
hafa fengið tækifæri til að hitta og kynnast stóru körlunum í
Evrópu, telur sig trúlega einn af þeim, og að hann geti gert það
sem honum sýnist og þurfi ekki að spyrja kóng eða prest, telur sig
hafa umboð til að sniðgenga og vanvirða löggjafavaldið eftir
hentugleikum. Það væri forvitnilegt að vita hvort ráðherrann telur
sig hafa umboð til að undirrita TISA samning með óafturkæfum hætti
án aðkomu Alþingis.
Ég tel ,að það að afsala löggjafarvaldi til fjölþjóðlegu
fjármálaaflanna í ýmsum veigamiklum þjóðmálum ætti að fella
undir landráð. Nú er það svo að landráð í okkar lögum miðast við
svíkja þjóðina til erlendra ríkja, ekki yfirþjóðlegra fjármálaafla.
Þarf ekki að endurskoða lögin um landráð í tengslum við TISA og
fjármálastofnanir hér á landi. Það er hægt að missa fullveldið með
margvíslegum hætti eins og t.a.m. þegar fjárglæframenn svipta
þjóðina fjárhagslegu sjálfstæði, og lögin um landráð ná illa til
þeirra möguleika sem blasa við nú og hafa komið okkur í koll.
Kveðja,
Ingibjörg