Fara í efni

EDDA HEIÐRÚN BACKMAN OG ÞÓRARINN ELDJÁRN

Þakka þér fyrir umfjöllun þína um páskadagskrá Ríkisútvarpsins, gott að hrósa því sem gott er. Ég fór að hugsa við samantekt þína hve ágæt dagskráin stundum er og mikilvægt að þakka fyrir vel unnin störf. Nóg er af niðurrifinu!
En mig langaði að segja að ég saknaði í upptalningu þinni sérstaklega tveggja þátta. Annars vegar frábærs sjónvarpsþáttar um Eddu Heiðrúnu Backman og hins vegar sjónvarpsþáttar þar sem Þórarinn Eldjárn, rithöfundur,  rifjaði upp minningar af Þjóðminjasafninu þar sem hann var alinn upp en sem kunnugt er var Kristján faðir hans þjóðminjavörður áður en hann var kjörinn forseti Íslands.
Báðir þessir þættir voru sérlega góðir.
Vildi bara nefna þetta.
Lína


Sæl Lína
Þakka þér fyrir þessa ábendingu. Því miður fór margt framhjá mér í dagskránni einsog gefur að skilja, ekki aðeins þeir þættir sem þú nefnir.
En ég hef heyrt lofsamlega látið af báðum þessum þáttum. Edda Heiðrún er náttúrlega listmaður af guðs náð og afreksmannseskja í ofanálag og á Sjónvarpið þakkir skilið fyrir að hafa þennan þátt á dagskrá en því miður missti ég af honum.
Sama um þáttinn með Þórarni Eldjárn. Ég get trúað þér fyrir því að ég er mikill aðdáandi Þórarins og les bækur hans af áfergju. Eina var ég að lesa sem sloppið hafði framhjá mér þegar hún kom út fyrir nokkrum árum og það er bókin Hér liggur skáld, frábærlega skemmtileg lesning; varð til þess að ég teygði mig í Bandamannasögu sem ég er að lesa nú og síðan mun ég rifja upp Gerplu sem að sögn varð Halldóri Laxnes inspírasjón fyrir sína möguðu ritsmíð.
Slíkur er máttur Þórarins Eldjárns í mínu sálarlifi.
En aftur takk fyrir bréfið og hárrétta ábendingu.
Kv.,
Ögmundur