STJÓRNMÁLIN MEGA EKKI GLATA TILTRÚ

Ástæðan fyrir skyndifylgi Pirata, áður Bjartrar framtíðar og þar áður Besta flokksins er óánægja með stjórnmálin almennt. Allir stjórnmálaflokkar að undanskildum framangreindum flokkum hafa komist í aðstöðu til að svíkja kosningaloforð sín og allir hafa gert það hressilega. Nú er kjörtímabilið hálfnað og ættu allir stjórnmálaflokkar að lofta út hjá sér og horfast í augu við eigin gjörðir og viðurkenna það sem rangt hefur verið gert. Það er þörf á slíku uppgjöri. Nema menn vilji flokka í meirihluta sem eru svo loðnir í tali að erfitt mun verða að henda reiður á hvenær þeir svíkja! Það má náttúelega ekki gleyma að Besti flokkurinn komst til valda og þar með í aðstöðu til að svíkja loforð, en kom nokkurn tímann ísbjörn í Húsdýragarðinn einsog var lofað eða var gert "alls konar" fyrir öryrkja? Eða var þetta sagt bara til að hæðast að loforðum og þar með stjórnmálamönnum og þá einnig og síðast en ekki síst - þó það hafi kannski ekki verið meiningin -  að  kjósendum?
Loforð eiga að skipta máli og líka sviksemi.
Auðvitað er nákvæmlega sama tóbakið í boði hjá Bjartri framtíð og Pírötum og ykkur hinum. Vandinn liggur í svikseminni og þann vanda er að finna hjá stjórnmálaflokkunum almennt. Þeir eiga og þeir verða að taka á þessum vanda. Þegar stjórnmálamenn breyta um forrit eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu missa stjórnmálin tiltrú. Þetta er mergurinn málsins!
Jóhannes Gr. Jónsson  

Fréttabréf