Fara í efni

GAMALT FÓLK OG STÖÐUMÆLAR TIL SÖLU - HVAÐ SEGIR ÞÚ?

Ég var að fara yfir lista vinstri meirihlutans í Reykjavík um eignir borgarinnar sem á að selja til að stinga upp í skuldahít undanfarinna ára. Ekki þekki ég þá starfsemi sem fram fer í öllum þessum eignum. Þó sé ég að það á að selja höfuðstöðvar Strætó. Hver skyldi nú eiginlega verða sparnaðurinn af því að selja ofan af starfseminni og fara út á leigumarkaðinn? Er ekki reynsla fyrir því hvað svona nokkuð kostar eða hvar hafa vinstrimenn haldið sig undanfarna þrjá áratugi eða svo?

Þá á að selja bílastæðahús borgarinnar - meira að segja ætlar meirihlutinn að skera undan sér stæðin undir Ráðhúsinu. Er fyrirhuguð sala húsanna vegna þess að bílastæðahúsin eru rekin með tapi eða er þetta bara til þess gert að láta bókhaldið líta betur út til skamms tíma?

Þá stendur líka til að selja hjúkrunarheimilið Seljahlíð þar sem 80 eldri borgarar búa. Hvað á að gera við gamla fólkið? Ætla félagshyggjusmalarnir að reka íbúana á afréttir eða stendur einkavæðing fyrir dyrum?

Segðu mér álit þitt, Ögmundur, á áformum félagshyggjuaflanna í Reykjavík.

Ármann

Sæll Ármann og þakka þér fyrir bréfið. Ég ætla nú að leyfa mér að vísa þessu áhugaverða bréfi þínu til fjölmiðlamanna. Stendur þetta virkilega til?  Ég mun svara þér betur eftir að ég hef kannað málið. En í stuttu máli sagt þá þykir mér þetta vera galið!
Ögmundur