HEFÐI KOSIÐ FROSTA

Forsvarsmaður Pírata, Helgi Hrafn Gunnarsson er eflaust vel að því kominn að fá einhvers konar viðurkenningu þótt ég geri mér ekki alveg ljóst fyrir hvað hann stendur í hitamálum okkar samtíðar, að öðru leyti en því að hvetja til þess að allt sé gagnsætt og farið sé að reglum.
Það er ágætt sjónarmið svo langt sem það nær. En í þjóðfélagi sem tekst á um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins,  nýskipan fjármálakerfisins og tilteknar stórvirkjanir og fleiri brennandi mál nægir mér það ekki til að kjósa einhvern sem stjórnmálamann ársins!  
En það er ekki valið á manni ársins sem ég staldra við heldur fyrirkomulagið á þessu vali. Einn aðal umræðuþáttur stjórnmálanna, Sprengisandur Bylgjunnar, stendur fyrir þessu vali og ákveður hverja við megum kjósa. Látum vera að kjósa eigi á milli formanna flokkanna. Þá ætti útkoman að heita formaður ársins en að sjálfsögðu ekki stjórnmálamaður ársins því þá ættu allir stjórnmálamenn að koma til greina við valið.
Nei, svo gott er það ekki. Að vísu megum við kjósa formennina sem stjórnmálamenn ársins en síðan örfáa tiltekna sérvalda einstaklinga að auki. Þannig mátti til dæmis kjósa Vigdísi Hauksdóttur en ekki Frosta Sigurjónsson, sem ég hefði gjarnan viljað kjósa vegna afstöðu hans í bankamálum og hvernig hann hefur haldið á "stöðugleika-málum" sem formaður viðskiptanefndar þingsins.   
Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta en langaði hins vegar til að koma þessari gagnrýni minni á framfæri.
Bjarni

Fréttabréf