GETUR EKKI ORÐA BUNDIST

Var að lesa það sem félagi Einar Ólafsson ritar. Eg get ekki orða bundist: Að jafna einni skelfilegustu harðstjórn sem mannkynið hefur nokkru sinni upplifað við Evrópusambandið botna eg ekkert í. Evrópusambandið hefur verið byggt á grundvallarmannréttindum og að útfæra lýðræði á kannski eitthvað öðruvísi hátt en íhaldinu á Íslandi hugnast. Í mínum augum er fáni Evrópusambandisin tákn um betra lýðræði og aukin mannréttindi. Og að ala á tortryggni gagnvart því sem vel hefur verið gert skil eg ekki. Vilja menn þessa endalausu vitleysu með þennan efnahagsleik með krónuna sem nýtist fyrst og fremst brasakaraliðinu? Þetta ástand viðheldur vaxtaokrinu, leiguokrinu, mismun þegnanna og þar fram eftir götunum. Krónudýrkunin er að fara út í blindgötu og endar sjálfsagt með nýju hruni. Hvernig skyldi vera unnt að reka fyrirtæki þar sem tekjurnar eru í evrum en gjöldin í krónum sem braskaralýðurinn vill hefja upp í hæstu hæðir? Nú er mjög óhagstæður verslunarhagnaður, meira flutt inn en út og nemur það sífellt hærri fjárhæðum. Þjónustujöfnuðurinn er okkur hagstæður og þökk sé ferðaþjónustunni sem er farin að kvarta undan þessum ósköpum. Ef menn eru á því að halda íhaldinu og bröskurunum uppi þá er besta leiðin að setja sig á móti Evrópusambandinu. Hafi menn sýnt einhverja raunsæja hugsun þá eigum við að bera saman kosti og galla á aðild og meta það út frá ísköldum augum hvað sé okkur hagstæðara en þá þarf að sleppa öllum tilfinningarökum og blessaðri þjóðrembunni. Eg leyfi mér að líta á mig sem mannesku sem vil líta á þessi mál í víðara samhengi. Og það er ótalmargt sem við eigum meira sameiginlegt með neytendum í Evrópusambandinu en braskaralýðnum á Íslandi sem vill óbreytt ástand og halda okkur sem lengst frá aðild. Mín vegna mætti hins vegar skilja skilið við Nató en það kostar okkur um eða yfir 2 milljarða að vera í þeim umdeilda hernaðarklúbbi en eg vil skoða betur aðild að Evrópusambandinu sem er okkur bæði hagstæðara og hollara.
Guðjón Jensson

Þakka þér þetta bréf Guðjón sem Einar Ólafsson mun eflaust taka til skoðunar. Sjálfur hallast ég á sveif með Einari og minni á að suður í Evrópu lifa braskarar líka góðu lífi og hefur meira að segja tekist að gera Evrópusambandið að meðfærilegu stjórntæki sínu til að markaðsvæða samfelögin.
Með góðri kveðju,
Ögmundur

Fréttabréf