MÁLAVEXTIR OG MÆÐRAHYGGJA

Ég þakka þér fyrir að greina frá allri þessari uppákomu í Velferðarráði varðandi hæfni Braga. Er það ekki rétt skilið að afskipti Braga snéru aðeins að því að amman fengi að umgangast barnabörn sín áður en hún dæi? Og eins og þú segir, hefði verið ámælisvert og vanræksla ef Bragi hefði ekki haft afskipti af því. Það hefur nú komið fram að ástæða hefur verið til að Barnaverndarstofi skipti sér af/komi með athugasemdir á starfsháttum barnaverndarnefnda á t.d. höfuðborgarsvæðinu í gegnum tíðina, eins og hefur komið fram í fjölmiðlum. Ég leyfi mér að vitna í eftirfarandi: "Í umræðu sem spannst um þessa lagasetningu og aðkomu mína að henni var ég harðlega gagnrýndur fyrir að draga taum mæðra - væri mæðrahyggjumaður eins og stundum er sagt. Nokkur innistæða kann að hafa verið fyrir þeirri gagnrýni." Þetta eru athyglisverð orð sem ég get samsamað mig við, kaus örugglega kvennalistann oftar en einu sinni á sínum tíma og var áskrifandi að Veru, sem var hið besta mál. Minn uppvöxtur var þannig að ég tók ætíð afstöðu með móður minni sem litaði mjög svo viðhorf mitt. En svo þegar árin líða hefur maður orðið var við, bæði gegnum fjölmiðla, og vini og kunningja, ótrúlega heift og óbilgirni einstakra mæðra í foræðisdeilu við feður og þar sem óhjákvæmilega muni bitna á börnunum í einhverjum tilvikum. Já, ég verð að viðurkenna að ég er hissa á framgöngu Halldóru Mogensen. Ég er kannski ekki eins hissa á málflutningi Þórhildi Sunnu. Ef þetta er rétt sem þú lýsir og ég fæ ekki betur séð að svo er, er skuggalegt hvernig hægt er að móta almenningsálitið með þessum hætti. Mér sýnist í það minnsta að þessi uppákoma falli alveg þokkalega í kramið víða.
Ari Tryggvason

Sæll Ari,
Ég skil málið eins og þú lýsir. Aðkoma forstjóra Barnaverndarstofu þarna undir áraslok 2016 (sú sem deilt er um og má ekki blanda saman við aðra þætti málsins) snerist um nákvæmlega það sem þú lýsir, deyjandi kona sem vill samverustund með barnabörnum sínum á sínum síðustu jólum. Glæpur Braga á að hafa verið sá að hann svaraði símtali afa barnanna, kom erindinu áfram og kom með leiðbeiningar til afans. Þar við sat enda hafði hann ekkert boðvald. Þannig skil ég þetta af lestri greinargerðar afans í fjölmiðlum og öðru sem fram hefur komið.
Varðandi mæðrahyggjuna og svo tilfinningarnar sem geta orðið óbilgjarnar, heyrist mér við vera á nákvæmlega sömu nótum.
Kv.,
Ögmundur

Fréttabréf