Fara í efni

ERTU SAMMÁLA VG UM SAMKEPPNISSTOFNUN ÖGMUNDUR?

Í grein þinni um Tarzan og Jane segist þú ekki ætla “að mæta í útför Samkeppnisstofnunar – fari hún fram; þeirrar stofnunar sem sektaði Bændasamtökin fyrir að hafa stuðlað að ólöglegu samráði bænda með því að skapa þeim vettvang á þingi sínu að ræða verðlag landbúnaðarvara! Enda Samkeppnisstofnun alla tíð sérstaklega uppsigað við allt sem minnir á samvinnu og samvinnurekstur. Gott ef sektin nam ekki þrjátíu milljónum króna ...”

Þarna er ég þér sammála Ögmundur.

En nú gerist það – eins og við var að búast (því miður) - að VG snýst Samkeppnisstofnun til varnar.

Ertu þá ósammála VG í þessu máli?

Svar óskast.

Jóhannes Gr. Jónsson

Ég er ósammála þeim sem verja það háttalag Samkeppnisstofnunar sem ég nefni þarna – og hefur því miður verið einkennandi fyrir þessa stofnun. Fyrir það hef ég mjög oft gagnrýnt hana og finnst hún hafa verið til óþurftar að þessu leyti.
Það breytir því ekki að ég er jafnframt fullkomlega ósammála peningafrjálshyggjunni sem vill fjarlægja alla þröskulda og reglur sem settar hafa verið almenningi til varnar gegn yfirgangi og frekju fjármagnsaflanna. Út á það gengur af-regluvæðing þeirra Kristjáns og Þórdísar er ég hræddur um.

Kv.,
Ögmundur