Fara í efni

VILL ALLAN AFLA Á UPPBOÐSMARKAÐ

VILL ALLAN AFLA Á UPPBOÐSMARKAÐ

Hvernig er hægt að skrifa um fyrirkomulag fiskveiða við strendur landsins án þess að minnast á að setja allan afla á uppboðsmarkað? Að klippa milli veiða og vinnslu er forsenda breytinga. Kvótinn var settur til að vernda fiskinn í sjónum en ekki fiskvinnslur í landi.
Tryggvi L. Skjaldarson

Sæll Tryggvi og þakka þér fyrir bréfið. Í mínum huga er viðfangsefnið að tryggja eignarhald almennings á sameiginlegum auðlindum okkar. Hvernig við ráðstöfum þeim er í mínum huga tæknilegt úrlausnarefni þótt það skipti vissulega máli félagslega og efnahagslega hverning það er gert. Sumum finnst rétt að setja allar heimildir til veiða á opinn markað, aðrir tala um byggðakvóta sem vissulega gæti verið á markaði en bundinn sjávarbyggðum í veiðum og vinnslu. Þér finnst ekki annað koma til greina en að setja allan afla á uppboðsmarkað og rjúfa þar með öll tengsl á milli veiða og vinnslu. Þetta er vissulega sjónarmið. Önnur leið, sem VG lagði til á sínum tíma, væri að skipta úthlutun veiðiheimilda þannig að hluti þeirra færi á markað á landsvísu en hluti tengdur byggðarlögum til að styrkja þau og þar með samfélög og atvinnulíf við sjávarsíðuna. Það væri þá byggðarlögum í sjálfsvald sett á hvaða forsendum þau úthltuðu réttinum til veiða.
Mér finnst við eiga að vera opin fyrir öllum möguleikum, til dæmis að opna á frekari strandveiðar og hvað með að endurræsa bæjarútgerðir? Ég er fyrir mitt leyti tilbúinn að hlusta á rök frá öllum hliðum. Þar set ég þó mín mörk að eignarhaldið á auðlindinni hljóti að hvíla hjá samfélaginu ekki einkaaðilum.
En almennt finnst mér að menn eigi að leyfa sér að hugsa upp á nýtt – jafnvel um gamlar (og góðar) hugmyndir.
Kv.,
Ögmundur Jónasson