Fara í efni

ÞJÓÐIN Á FISKINN Í SJÓNUM

Sæll Ögmundur.
Ég vil þakka þér fyrir ágætar athugasemndir um sjávarútvegsmál. 

Nokkrar lykilstaðreyndir:

  1. Árið 1983 var aflamarkskerfi sett á
  2. 1983-1990 voru takmarkanir á framsali aflaheimilda en það leyft með samþykki ráðherra
  3. Árið 1990/1 var framsal aflaheimilda gefið frjálst

 Ofangreint þýðir á mannamáli að:

  1. árið 1983 var sleginn girðing um sjávarútveginn sem takmarði frekari aðgang nýlíða í greinina
  2. frá 1983-1990 gat greinin hagrætt að nokkru leyti innan girðingar
  3. árið 1990/1 var greinininni sem var innan girðingar gefin ótakmarkaður réttur að hagræða innan girðingar gegn því að enginn færi uppfyrir kvótaþakið (12% per tegund).

 Samkvæmt tölum frá Sjávarútvegsdegi Deloitte þá var framlegð í íslenskum sjávarútvegi (sjá glæru 4):

  1. 1980-1983 = 7 %
  2. 1983-1990 = 15%
  3. 1991-2006 = 20 %
  4. 2007-2017 = 26%

 Þannig að í útgangspunktinn fyrir kvótasetningu var framlegðin 7%.  Trúlega var það of lág framlegð sem stafaði af offjárfestingu sem smám saman hefur verið að hverfa með framsali aflaheimilda sem hefur byggt undir aukna framlegð. 

En veltum fyrir okkur hvað er framlegð fyrirtækja sem eins og sjávarútvegur, þurfa að fjáfesta mikið en þurfa að sækja sín verkefni á markað eins og bæði verktakafyrirtæki og flugfélög.  Með einfaldri „gúggle“ leit má finna út að þessi starfsemi er með 8-15% framlegð.  Sjávarútvegur sem fær úthlutað sínum verkefnum (kvótanum) og þarf ekki að kaupa þau á markaði er með ca 26% framlegð en var 7% fyrir daga kvótasetningar.

Afkomubatinn í sjávarútvegi hefur verið síðan 1983 (26-7)% = 19% framlegðaraukning. Þessi aukning verður til vegna þess að löggjafinn hefur sett girðingu um greinina (kvótann) og gefið greininni heimild til að hagræða innan girðingar (framsal kvótans) og það hefur leitt til að framlegð er ekki lengur 7% heldur 26%.  Hvernig á þá að skipta þessum bata á milli þeirra sem eiga auðlindina (þjóðin) og þeirra sem eiga stálið og reksturinn (fyrirtækin).  Ég held að 50/50 skipting á þessum bata/framlegðar aukningu væri sanngjörn skipti.

Grunnur auðlindagjaldsins

Í dag reiknast auðlindagjald bara af afkomu skipa.  En sjávarútvegsfyrirtæki skammta hráefnisverð til skipa og reyna að hafa það sem lægst, enda launahlutfall á skipum hátt. Launahlutfall í landvinnslu er aftur á móti lágt og kannski eðlilegt að reyna að búa til hagnaðinn þar.  Ýmsar rannsóknir hafa sýnt að verð til skipa hér á landi er mun lægra en í t.d. í Noregi og Færeyjum, sérstaklega í uppsjávargeiranaum en á móti kemur að hvert skip hér hefur mun meiri kvóta en t.d. skip í Noregi og Skotlandi. Hér á landi er sama fyrirtækið sem gerir út og vinnur aflann en víðast í nágrannaríkjum er aflinn seldur á uppboði.  Þessi mismunanid aðferðarfræði hefur leitt til mikils verðmunar á því sem skip á Íslandi fá borgað fyrir aflann samborið við ofangreind lönd.  Það er ýmis hagræðing í því að sama fyrirtækið eigi bæði vinnsluna og flotann.  Þannig má stýra flotanum til að koma á réttum tíma með réttan afla að landi og hafa fjárfestingu í landi í samræmi við aflaheimilidir skipa.  Það að geta stýrt svona veiðum til hagræðingar fyrir vinnsluna eru rök sem styðja að hagnaður landvinnslu myndi andlag auðlindagjalds.

Hver á kvótann?  I Fréttablaðinu fyrir stuttu er ágæt grein eftir Guðmund i Brimi sjá hér.  Þar segir hann í niðurlagi, „Ég sem útgerðarmaður hef aldrei sagt að útgerðin eigi fiskinn í sjónum. Fiskurinn á sig sjálfur, útgerðin á veiðirétt samkvæmt lögum.”

Minn skilningur er að þjóðin eigi fiskinn í sjónum en þjóðin hafi úthlutað útgerðarmönnum réttinum til að sækja þennan fisk í umboði þjóðarinnar. En það sem vantar í þessa umræðu er að úthlutnin á að vera tímabundin en ekki ótímabundin eins og hún er í dag.  Eðlilegast væri að tímasetja úthlutunina við þann árafjölda sem afskriftartíminn væri og í lok hans gæti löggjafinn tekið ákvörðun um að úthluta á annan veg eða endurúthluta eða bjóða upp osfrv.

En nóg að sinni.

N.N.