Fara í efni

ÓVÖNDUÐ FRÉTTASTOFA SJÓNVARPS

Í kvöldfréttatíma Sjónvarps var leitað álits nokkurra vegfarenda á deilum um “sóttvarnahótelið” og á vinnubrögðum stjórnvalda að loka fólk þar inni jafnvel þótt það byggi í nágrenninu og vildi vera í sóttkví á heimili sínu.

Fram hefur komið að aðstæður fólks voru margvíslegar. Ein kona kom til landsins að selja íbúð sína og ætlaði að dveljast þar til að taka íbúðina í gegn. Annar farþegi var með nokkurra mánaða kornabarn og vildi komast með það heim til sín. Að vilja fara heim til sín í sóttkví var slegið upp á skjáinn sem forréttindafrekju! Þannig hafði viðmælandi fréttastofunnar komist að orði. Engar vangaveltur voru um málið og þá hvort ekki hefði verið rétt að leyfa fólkinu að fara til síns heima eins og við hin gerum ef við smitumst af veirunni! Er það þá líka forréttindafrekja?

Ferðamennirnir sem hingað komu vitandi um sóttkvíarskylduna færu síðan á hótel og greiddu þar að sjálfsögðu fyrir sig. Í fréttatíma Sjónvarps var ekki boðið upp á slíka málefnalega umfjöllun.  

Fréttastofa sem setur málin svona fram í viðkvæmu deilumáli veldur ekki hlutverki sínu um að vera upplýsandi og málefnalegur miðill heldur kemur fram eins og dómgreindarlaus áróðursvél fyrir sjónarmið valdhafa.
Í þessum viðkæmu málum er beinlínis óábyrgt að kynda undir fordómum eins og þarna er augljóslega verið að gera.
Fólkið sem sakað er um að vera haldið forréttindafrekju eins og slegið var upp á sjónvarpsskjánum er ekki að andæfa sóttkví heldur aðferðum sem eru óskynsamlegar og ranglátar. Það er mitt mat líka.
Sunna Sara