Pétur Gunnarsson skrifar : Orð út í bláinn

Til hamingju með heimasíðuna, Ögmundur. Að vísu fer ég  aldrei ótilneyddur inn á vefsíður, ég verð helst að hafa stafi á blaði, geta flett aftur á bak og áfram, flutt lesmálið á milli herbergja, lagst út af með það, stungið því í vasann, merkt við, strikað undir.  Satt að segja finnst mér lestur á skjá hálfgert neyðarbrauð, maður fleytir kellingar á yfirborði textans, rígnegldur við stólinn, teppir símann og gjaldmælir sem tifar.
 Að skrifa á vefsíðu finnst mér líkast því að senda flöskuskeyti. Maður hefur ekki hugmynd um hverjum það kemur fyrir sjónir, né hvort einhver les það. Þetta fyrirkomulag nefnist víst því hátíðlega nafni "upplýsingasamfélag". En þá er ekki átt við upplýsingu í merkingu 18. aldar, sbr. upplýsingaröldin, heldur mun vera átt við flæði boða og áreita, en af þeim er vissulega nóg. Við búum í áreitissamfélagi, þótt orðið sé kannski ekki nógu inntaksvænt til að ganga sem skrásett vörumerki.

Á dögunum gafst mér tilefni til að bera saman tvo fulltrúa upplýsingarinnar á átjándu öld, annarsvegar Frakkann Jean-Jacques Rousseau og hinsvegar landa okkar Jón Ólafsson úr Grunnavík. Rousseau þarf sennilega ekki að kynna, en öðru máli gegnir um Grunnavíkur-Jón. Þótt hann sé einhver afkastamesti rithöfundur Íslandssögunnar fyrr og síðar, eru verk hans enn að mestu óútgefin, tveimur öldum og aldarfjórðungi betur eftir hans dag. Þeir Jón og Rousseau komu í heiminn með sjö ára millibili, 1705 og 1712, og urðu nær samferða úr veröldinni aftur, 1779 og 1778. Um sumt er ævi þeirra sambærileg en að ýmsu leyti ólík eins og nærri má geta þegar hafður er í huga reginmunurinn á Frakklandi og Íslandi átjándu aldar. Þó er báðum sameiginlegt að hafa skrifað bók um uppeldismál, verk Rousseau nefnist "Emil eða um uppeldið" og hlaut fljótlega heimsfrægð á meðan "Hagþenkir" Jóns fékk að dúsa ofan í skúffu í 259 ár áður hann það leit dagsins ljós í Reykjavík árið 1996.
 Eitt af því sem vakti athygli mína við samanburð á þessum verkum var hve Rousseau er tíðrætt um frelsið, á meðan það ber varla á góma hjá Jóni, nema þá óbeint þar sem hann fjallar um leiki.
Frelsið fyrir Rousseau er svigrúmið til að lifa lífinu eftir sínu eigin höfði, að fljúga óvængstýfður af ytri nauðung.
Kannski kristallast hér munur á Íslendingum og Suðurlandabúum. Lífið kallar á þá síðarnefndu til lystisemda á meðan lífið á Íslandi hefur lengst af verið svo naumt, svo auðvelt að sleppa því. Og útskýrir kannski margt kyndugt í framferði okkar enn í dag, til dæmis að Íslendingar skuli aldrei gera uppreisn gegn kjörum sínum. Þeir geta endalaust gengið nærri sér af því að lífið er ekki inni í myndinni. Þeir eru að þessu leyti eins og jurt sem gæti lifað án súrefnis og sólarljóss.
Dögum oftar eru okkur birtar kannanir sem eiga að sýna hvar við stöndum borið saman við þá granna okkar sem við viljum helst taka mið af. Þá eru tiltekin viðurkennd lífsgæði: húsnæði, bílar, sjónvörp, tölvur, farsímar… og viss passi að Íslendingar eiga allt þetta ágætlega til jafns við þá sem best búa.
 Þó er eitt sem ævinlega vill gleymast og það er hvað það tók landann langan tíma að vinna fyrir herlegheitunum. Það virðist með öðrum orðum einu gilda þótt Íslendingar séu t.a.m. einum og hálfum mánuði lengur að vinna fyrir lífsgæðunum en samanburðarþjóðin, lífskjör þeirra eru engu að síður lögð að jöfnu.
 Er þetta ekki stórkostlega merkilegt? Getur verið að sjálft lífið sé aukaatriði í augum Íslendinga? Að lífsbaráttan hafi frá fornu fari fyllt svo gersamlega upp í veruleikann að það sé einfaldlega ekki hefð fyrir að lifa lífinu umfram brauðstritið?
 Það hlýtur að vera barnaleikur að stjórna svona þegnum, okurvöxtum á lánum taka þeir með þegjandi þögninni, hæsta matvælaverð í Evrópu standa þeir af sér eins og hverja aðra óveðursskunu. Allt og sumt er að sjá þeim fyrir nægilegri vinnu og "stöðugleika". Og birta þeim öðruhverju skoðanakannanir sem sýna hátt lánstraust landsins í útlöndum.
 Að sama skapi hlýtur að vera þrautin þyngri að breyta af leið. Að véfengja þennan lífsmáta jafngildir það ekki að setja spurningamerki við höfuðdyggðir á borð við dugnað og sjálfsbjargarviðleitni? Og hver þorir að stugga við neyslunni? Er ekki trúarsetning að mikið sé ævinlega af hinu góða?
 Og samt blasa skuggahliðar þessa lífsmáta við: Norðurlandamet í neyslu geðlyfja, ofbeldis- og glæpafaraldur, tilfinningalegir hörgulsjúkdómar ungviðisins (athyglisbrestur, ofvirkni…)
 Mikið sem væri óskandi að stjórnmálabaráttan sem er fram undan fengi að snúast um lífið í landinu. Að hin fríhjólandi umræða um Efnahagsbandalagið verði ekki sú fjarvistarsönnun sem herstöðvamálið var áratugum saman. Ekki að þessi mál séu ómerkileg, öðru nær, en maður horfir til þess með ónennu ef allt púðrið á að fara í þras um það hvort aðildin muni kosta Íslendinga milljarðinum meira eða minna. Í stað þess að nota tilefnið til að spyrja brennandi spurninga um líf okkar og kjör í hversdeginum.

Fréttabréf