Fara í efni

Lýðræðið í Írak og Bandaríkjunum og myndbönd Osama

Það er svo mikið um að vera, hvort um er að ræða í Evrópu, Bandaríkjunum eða í
Mið-Austurlöndum að ég hef varla haft undan að fylgjast með. Og það er af nógu að taka! En ég ætla þó að leggja áherslu á þrennt sem hefur kannski ekki verið svo mikið rætt um og það er: 1) lýðræði í Írak, 2) myndbönd Bin Laden, 3) stríðsáætlanir Bandaríkjanna.

En fyrst langar mig að lýsa andrúmsloftinu hér í Bandaríkjunum. Eins og þið vitið voru mótmælagöngur út um allan heim, en BBC hefur áætlað að um 8 milljónir manns hafi tekið þátt í þeim. Hér í New York var mjög stór mótmælaganga, sennilega um 250-500 þúsund manns. Það sem var athyglisvert við þessa göngu var að bæjaryfirvöld voru búin að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að gera skipuleggjendum hennar lífið leitt. Skipuleggjendur fengu ekki að ganga þá leið sem þeir óskuðu. Ennfremur var búið að koma á nýju "terror alert"
.
Fyrr í vikunni var skrifstofa Tom Ridge, öryggismálaráðherra Bush (home land security), búin að tilkynna að sennilega ætti fólk að kaupa plast og límbönd til að setja á glugga efí ske kynni að efnavopnaárás ætti sér stað. Ég keyrði framhjá byggingavöruverslun í vikunni og þar var fullt út úr dyrum. Í stórmörkuðum var fólk að kaupa dósamat og vatn. Við vorum á "high alert" eða á appelsínugula stiginu á litakvarðanum. Það voru stjórnvöld sem ákváðu aukið hættuástandið til þess að reyna hræða fólk til að fara ekki í mótmælagöngurnar. Kannski er það tilviljun en í gær, daginn eftir göngurnar, var hættuástandið lækkað niður í "gult"  þannig að það er ekki lengur
"high alert". En þrátt fyrir þetta held ég að þátttakan í þessum göngum hafi verið miklu meiri en skipuleggjendur þess gerðu ráð fyrir. Sennilega hefur þessi mikla þátttaka ekki mikil áhrif á Hvíta Húsið en ég geri fyllilega ráð fyrir að þeir sem eru í fulltrúarráðinu eða öldungadeildinni hafi tekið eftir þessu.

1) Lýðræði í Írak

Eitt af megin markmiðum stríðsins gegn Írak er, eins og þið vitið, að koma á "regime change" í Írak. Væntanlega getum við öll verið sammála því að Saddam Hussein er óæskilegur leiðtogi. Mannréttindabrot hans hafa verið gífurleg og hann hefur haldið þjóð sinni í skefjum síðustu 20 árin. Ég hef hitt marga Íraka sem hafa orðið fyrir barðinu á stjórn hans, eða einhver úr fjölskyldu þeirra, og þær lýsingar sem þið hafið heyrt um hans stjórn eru ekki endilega stórlega ýktar. En spurningin er hvort að sú leið sem að Bandaríkjamenn ætla sér að fara til að steypa honum af stóli sé heppilegasta leiðin til að koma á "regime change" og tryggja að farsæl, lýðræðisleg stjórn ríki í framtíðinni.

Eitt af því sem hefur einmitt flækt umræðuna hér er að það eru margir írakskir
útlagar sem hafa stutt stríðsáætlanir og hafa til að mynda haldið því fram að þó svo að séu ekki nema 10% líkur á að koma á lýðræði í Írak er það kannski ekki þess virði? Ég hef setið margar málstofur og fundi þar sem þetta hefur verið rætt. Þessir Írakar hafa gagnrýnt okkur hin fyrir að vera með einhverjar idealista hugmyndir og með þeim erum við faktískt að styðja stjórn Hussein. Þessir útlagar hafa á undanförnu unnið mjög náið með ríkistjórn Bush (og unnu reyndar líka með Clinton á sínum tíma) og hafa haldið fjölmarga fundi. Þeir hafa ákveðna framtíðarsýn (en þessi sýn er meðal annars í skýrslunni "transition to democracy in Iraq" sem þeir sem voru þátttakendur í námskeiðinu mínu við Endurmenntun HÍ fengu afrit af) sem tilgreinir hvað þarf að gerast til að koma á lýðræðislegu þjóðfélagi í Írak. Þessi hópur, en í honum eru um 500 manns, hefur stutt ríkistjórn Bush í einu og öllu og verið helstu ráðgjafar bæði í varnarmálaráðuneytinu sem og hjá utanríkisráðuneytinu. En nú hefur borið á því að þessi hópur er farinn að gagnrýna áætlanir Bush í síauknum mæli. Nú virðist eins og þeir hafi áttað sig á því að þetta tal um að koma á lýðræði í Írak sé einungis málatilbúningur. Helsti forvígismaður þeirra, Kanan Makiya, sem kennir við Brandeis University hér í Bandaríkjunum (þessi skóli hefur átt góða samvinnu við MR undanfarna áratugi og margir íslendingar hafa sótt nám við þann skóla meðal annars Ólafur Jóhann Ólafsson og að mig minnir Geir Haarde) skrifaði mjög beitta grein í The Guardian nú um helgina.
http://www.observer.co.uk/comment/story/0,6903,896554,00.html.
Makiya, sem hefur unnið mjög náið með Condoleezu Rice, er að halda því fram að Írak verði ekki eins og Japan 1945 heldur eins og Chile 1973.

Þessi gagnrýni skiptir mjög miklu máli enda kemur hún innanfrá. Þessir aðilar hafa kynnst af eigin raun hvaða ráðstafanir eru til staðar. Eins og ég hef ávallt haldið fram verður það  mjög erfitt að koma á lýðræðislegri stjórn í Írak, sérstaklega í kjölfar stríðsins. Írakar hafa ávallt lifað í pólitísku umhverfi þar sem fámenn karlaklíka hefur verið við völd og pólitískt ofbeldi hefur verið sem rauður þráður í gegnum söguna. Það er ekki hægt að breyta slíkri hefð einn, tveir og þrír. Bandaríkjamenn hafa áttað sig á því og stríðsáætlanir þeirra gera einmitt ráð fyrir því að um leið og þeir steypa stjórn Hussein af stóli verði nauðsynlegt að hafa millibilsástand þar sem þeir halda uppi herstjórn til að koma á skikkanlegri stjórn í landinu. Við skulum ekki vanmeta þau höft sem Írakar hafa þurft að þola og þá reiði sem ýmsir hópar hafa gagnvart ríkisvaldinu. Stríðið mun væntanlega eyðileggja mikið af infrastrúktúr landsins. Það er frekar líklegt að það verði mikil eyðilegging og þar af leiðandi mikil óreiða. Óreiða er ekki æskileg forsenda lýðræðis. Það þarf stöðugleika til að koma á lýðræði.

Og hvenær verður stöðugleika náð í Írak? Til að koma á lýðræði þarf að byggja upp öfluga millistétt, hafa farsælt efnahagslíf, og traustar stofnanir sem eru ekki háðar hernum eða einstaka stjórnmálamönnum og svo framvegis.  Fyrir marga Íraka, og nú er Makiya að segja það einnig, er
það ekki svo ljóst að sú stjórn sem taki við af Hussein kemur til með að starfa á allt öðrum forsendum en Hussein hefur gert. Sennilega verður hin nýja stjórn álitin leppríki Bandaríkjanna og þar af leiðandi ekki fyllilega lögmæt í huga fólks. Þegar saga Hashemíta konungsveldisins er skoðuð í Írak á árunum 1921-1941, var það eimmitt höfuð vandamál þess að sannfæra Íraka að þeir ættu samleið með henni. Og þess vegna beittu þeir ofbeldi til að sannfæra folk að það voru þeir sem voru við völd. Írakar urðu að hlýða þeim vegna þess að þeir höfðu völdin. En það eru ekki bara aðstæður innanlands sem gerir lýðræðisþróunina erfiða.   Þá eru mörg ríki á þessum slóðum sem yrði ógnað af Írak verði það sterkt og fullvalda ríki. Það hefur einmitt verið Sádi Aröbum, Kuweit, Íran, Sýrlandi, Tyrklandi, og Ísrael mjög í hag að Írak hefur verið fimmta flokks ríki síðustu 12  árin. Þessi ríki verða ekki mjög áköf að sjá sterkt Írak rísa upp á ný og gætu einmitt reynt að grafa undan slíkum tilraunum og ekki er óhugsandi að þau reyni að koma í veg fyrir stöðugleika í Írak. Þar af leiðandi eru það bæði aðstæður innanlands sem utan sem verða þrándur í götu lýðræðisins.


2) Myndbönd Bin Ladens

Það kom alls ekki á óvart að Bin Laden hafi komið aftur fram á sjónarsviðið. Mér fannst fólk hér á Vesturlöndum ekki taka þetta myndband nægjanlega alvarlega. Það drukknaði næstum því í allri umræðunni um Nato og Sameinuðu Þjóðirnar. Fyrir nokkrum mánuðum reyndu Bandríkjamenn að gera lítið úr yfirlýsingum hans og töldu ólíklegt að þetta væri hann. En nú, allt í einu hömpuðu þeir myndböndunum til að "sanna" að tengsl séu á milli al-qaeda og Hussein. Ég ætla ekki fara út í þá sálma hér en það sýnir kannski á hvaða plani málflutningur Powell hefur verið að hann telur að þetta sanni tengsl milli Bin Laden og Hussein. Það er þó umhugsunarefni og mjög, mjög alvarlegt mál hvernig Bin Laden er að nýta sér þetta stríð. Þetta er alls engin tilviljun að hann er koma fram nú. Þegar ræðan hans er metin kemur margt forvitnilegt og óhugnanlegt í ljós. Fyrir það fyrsta var hann með ranga túlkun á sögunni. Hann segir að Muslimar hafi barist á sínum tíma gegn hinu kristna Byzans veldi fyrir hönd Sasani veldi Persa. Það er fráleitt vegna þess að Muslimar réðust á Persa á svipuðum tíma og þeir réðust í umdæmi Byzans veldis. Muslimar voru alls ekki að verja Persaveldi * þvert á móti. En hvað um það. Ræðan hans er umhugsunarefni því hún virkar mjög sannfærandi fyrir íbúa Mið-Austurlanda. Hann er að segja að Bandaríkin ætli sér að ráðast inn í Írak til að taka yfir öll ríki Mið-Austurlanda og stækka enn landamæri Ísrael. Hann segir að þetta sé stríð gegn muslimum eins og kannski við mátti búast. Hann hvatti líka fylgismenn sína að halda áfram baráttu sinni og tilgreindi Jórdaníu, Marókko, Nígeriu (sem ég held reyndar að verði næsta hreiður "Talibana" stjórnar), Pakistan, Sádí Arabíu, og Yemen.
Það sem er athyglisvert við þennan lista er að ríkisstjórnir þeirra, fyrir utan kannski Marokkó reyndar fengu róttækir Muslimar þar töluvert fylgi í síðustu kosningum), standa höllum fæti gagnvart almenningi í landinu.
Til að mynda hefur Qazi Hussein Ahmad sem er forystumaður Jama′at-i Islam í Pakistan, sem hefur um 20% fylgi í þinginu og stjórnar eiginlega norðvesturhluta landsins, lýst því yfir að Bandaríkjamenn ætli sér að ráðast næst inn í Pakistan (sem ég hef reyndar ekki heyrt neitt um). Flokkur Ahmad er með álíka hugmyndafræði um islamvæðingu samfélagsins og al-qaeda. Hann hefur hvatt fylgismenn sína til að gera Bandaríkjamönnum í Pakistian lífið leitt og reyna að koma í veg fyrir þetta stríð. Ólíkt Musharraf er Ahmad að nota andstöðu almennings við stríðið sér í hag sem að mínu mati er ekki jákvæð þróun.  Það er athyglisvert við listann hjá Bin Laden að hann nefndi ekki Alsír eða Egyptaland. Hafa þeir gefist upp á þeim löndum eða telja þeir að baráttan sé svo langt komin þar að þeir þurfi ekki að hvetja fylgismenn sína áfram? Svarið er ekki svo ljóst. En því miður virðist vera sem að þetta stríð og umræðan um væntanlegt stríð sé vatn á myllu al-qaeda.


3) Stríðsáætlanir

Á síðustu vikum hefur verið mikið rætt um framkvæmd stríðsins. Þær áætlanir sem ég hef séð gera ráð fyrir stórfenglegum loftárásum þar sem mörg hundruð eldflaugum verður varpað á Írak. Þó svo að Írakar hafi nú orðið einhverja reynslu í þessu verður útilokað fyrir þá að halda uppi vörnum í þessum hluta stríðsins. Þess vegna eru Írakar að einbeita sér að næsta hluta stríðsins þegar lofthernaðinum lýkur og Bandaríkjamenn og aðrir reyna að koma inn til Baghdad til að ná yfirráðum á stjórnkerfi landsins. Þetta stig er sá hluti sem Bandaríkjamenn hafa mestar áhyggjur af. Eins og gefur að skilja munu Írakar reyna að verja sig. Það er ekki ljóst hvort að allir Irakskir
hermenn komi til með að halda uppi vörnum fyrir Saddam Hussein en það er ómögulegt að segja til um það. Það er rætt um að Hussein ætli sér að kveikja í olíulindum landsins, eyðileggja stíflur landsins svo að Efrat og Tigris komi til að að flæða út um allt. Umhverfisspjöll verða gífurleg. Þetta gætu verið frekar flóknir bardagar enda ekki svo ljóst fyrir innrásarherinn hverjir eru "vondir" Írakar og hverjir eru "góðir". Í Afganistan var það Norður-Bandalagið sem skilgreindi óvininn en nú er ekki ljóst hverjir óvinirnir eru. Bara þeir sem tilheyra  Baath flokknum? Bara æðstu embættismenn og fjölskyldur þeirra? Þá er hlutverk Tyrkja enn óljóst og hvernig Kúrdar bregðast við er einnig óljóst. Það eru margir þættir sem gera þetta mjög flókið. En Bandaríkjamenn gera ráð fyrir því að fyrsti þáttur stríðsins verði óumflýjanlegur. Þá verður ekki mikið um dauðsföll bandarískra hermanna og þá mun öll þjóðin sameinast stríðsrekstrinum. En spurningin er hvað gerist í öðru þætti. Ef við gerum ráð fyrir (sem er ekki svo augljóst) að Írakar líti á bandaríska herinn sem frelsandi engla hvað verður langt í það að þeir koma til með að líta á þetta sem hernám? Og hvernig bregðast Írakar þá við?