Fara í efni

Einar Ólafsson: Rangfærslur Samfylkingarinnar um aðdraganda loftárásanna á Júgóslavíu 1999

Gott er nú til þess að vita að Samfylkingin hefur tekið afstöðu gegn innrásinni í Írak. En spurt hefur verið: Er ekki eitthvert misræmi í því að Samfylkingin skuli taka þessa afstöðu nú þar sem sá vísir að þessum flokki sem til var í mars 1999 studdi loftárásirnar á Júgóslavíu? Einkum hafa Sjálfstæðismenn verið iðnir við að spyrja þessarar spurningar. Að undanförnu hefur hver Samfylkingarmaðurinn af öðrum stigið fram og útskýrt þetta misræmi, bæði í blöðum og ljósvakamiðlum. Hér skulu tilfærðar glefsur úr blöðum:

Bryndís Hlöðversdóttir þingmaður, grein í Morgunblaðinu 25. mars: Þessi víðtæki stuðningur við innrásina í Kosovo var skiljanlegur. Heimsbyggðin hafði horft upp á þjóðernishreinsanir þar sem varð að stöðva og þótt fæstir velji þann kost að ráðast inn í ríki á þann hátt sem gert var, voru ekki margir leikir í stöðunni. Friðsamlegar aðgerðir höfðu engan árangur borið. Tíminn var að renna út. Flóttamenn streymdu yfir landamærin. Menn voru drepnir þúsundum saman á degi hverjum. Konum var skipulega nauðgað. 

Eiríkur Bergmann Eiríksson stjórnmálafræðingur, grein í Fréttablaðinu 26. mars: …aðstæður í Kosovó voru allt aðrar en í Írak í dag. Serbar höfðu ráðist inn í Kosovo og Slobodan Milosevic fór þar um með þjóðernishreinsunum á hendur Kosovóalbönum: Þar var verið að murka lífið úr fólki og alþjóðasamfélaginu bar skylda til að koma því til hjálpar, enda nutu aðgerðirnar yfirgnæfandi stuðnings alþjóðasamfélagsins hvað svo sem leið afstöðu Rússa.

Össur Skarphéðinsson þingmaður og formaður Samfylkingarinnar, viðtal í DV 29. mars: Þetta eru gjörólíkir atburðir. Í Kosovo var verið að drepa menn þúsundum saman daglega, nauðga konum skipulega og flóttamenn streymdu yfir landamæri í tugþúsundatali. Það ríkti upplausn. Tíminn var að renna út. Það voru ótrúlegar hörmungar í gangi þegar Atlantshafsbandalagið greip til aðgerða til að stöðva þjóðernishreinsanir á albanska minnihlutanum.

Ágúst Ólafur Ágústsson formaður Ungra jafnaðarmanna, grein í Morgunblaðinu 31. mars: Sumir sjálfstæðismenn telja sig sjá einhverja samsvörun í stríðinu í Írak og í átökunum í Kosovo. Þessar aðgerðir eru hins vegar engan veginn sambærilegar. Í Kosovo var um að ræða fjöldamorð í beinni útsendingu, skipulagðar hópnauðganir og flóttamenn streymdu yfir landamærin. 

Væntanlega eru gagnrýnendur Samfylkingarinnar í Sjálfstæðisflokknum alveg sammála þessum fullyrðingum. Þeir vilja bara meina að þetta sé sambærilegt við Írak í dag. Meinið er að þessar fullyrðingar eru alrangar og með ólíkindum að hver forystumaður Samfylkingarinnar af öðrum skuli leyfa sér að bera þær á borð. Það var ekkert ógnarástand í Kosovo í mars 1999. 

Það var mjög alvarlegt ástand sumarið 1998 og fram á haust. Þá höfðu Kosovo-Albanar í stórum stíl flúið þorpin og höfðust við í skógum og fjöllum. En það tókst að semja um vopnahlé og ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, tók að sér að senda liðsveitir inn í héraðið. Þetta voru ekki hersveitir heldur lögreglumenn og fjöldi annarra starfsmanna af öðru tagi sem tóku að vinna að því að aðstoða íbúa svæðisins við að byggja samfélagið upp aftur. Og þessu verkefni miðaði ótrúlega vel. Það var vissulega spenna og við mikla erfiðleika að glíma, en þegar leið á veturinn var átakalítið í héraðinu. Serbnesk yfirvöld voru samvinnuþýð og liðsveitir ÖSE lentu ekki í teljandi vandræðum. Í janúar magnaðist spennan vegna meintra fjöldamorða í þorpinu Racak, en fljótlega var sýnt fram á að þar var ekki um fjöldamorð að ræða heldur mannfall sem varð þegar til átaka kom milli serbneskra lögreglusveita og KLA-skæruliða. Raunar hafði yfirmaður ÖSE-sveitanna, William Walker, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í El Salvador, vísvitandi rangtúlkað þessar upplýsingar, en hann gekk erinda Bandaríkjanna og þrátt fyrir að ÖSE-sveitirnar hafi að mestu unnið gott starf, þá hafði Bandaríkjastjórn plantað þar flugumönnum sínum sem unnu leynt og ljóst að því að undirbúa loftárásirnar. 

Í febrúar hófust friðarsamningar í Rambouillet í Frakklandi. Að þeim komu stjórnir Júgóslavíu og Serbíu, fulltrúar Kosovo-Albana og Bandaríkin og fleiri ríki. Að frumkvæði Bandaríkjastjórnar voru lögð fram samningsdrög sem gengu út á að Kosovo fengi sjálfstjórn innan Serbíu og stjórn Júgóslavíu var tilbúin að samþykkja það. En einnig skyldi Júgóslavía samþykkja hernám NATO ekki aðeins í Kosovo heldur um allt landið. Að sjálfsögðu var erfitt fyrir stjórn Júgólavíu að kyngja því. Bandaríkjastjórn  var ósveigjanleg. Á þessu strönduðu samningarnir og loftárásirnar hófust. 

Það  mætti skrifa miklu lengra mál um þetta. Færa má rök að því að tilgangur þessarar innrásar hafi fyrst og fremst verið að tryggja ítök heimsauðvaldsins undir forystu Bandaríkjanna á þessu svæði. Spyrja má um hagsmuni allra þeirra óbreyttu borgara sem þarna létu lífið eða örkumluðust. Hér skal ekki farið út í þá sálma en ekki er hægt að ljúka þessu án þess að geta einnar rangfærslu til. Eiríkur Bergmann segir í grein sinni að Serbar hafi ráðist inn í Kosovo. Hvað sem um framferði Serba þar gegnum tíðina má segja, þá er hitt þó staðreynd að Kosovo var hérað í Serbíu. 

Það  má vera að Samfylkingunni sé alvara í andstöðu sinni við innrásina í Írak en satt að segja væri afstaða hennar trúverðugri ef hún einfaldlega viðurkenndi að hafa gert mistök fyrir fjórum árum. 

Einar Ólafsson