Magnús Þorkell Bernharðsson skrifar: Hvað tekur við í Írak?

Er hægt að koma á lýðræði í Írak? Og hverskonar leiðtoga kæmu Írakar til með að treysta og velja til forystu? Það hefur borið á því að róttækir sjíítar séu að ná yfirhöndinni í suðurhluta landsins. Auk þess hefur kommúnistaflokkur Íraks hafið aftur starfsemi sína (á fimmta og sjötta áratugnum var hann mjög áhrifamikill) en eitt fyrsta dagblað sem var gefið út í Baghdad eftir fall Saddam Husayn var málgagn kommúnistaflokksins. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig viðbrögðin í Washington hafa verið við þessu. Þetta hefur komið þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir töldu að fólk í Írak væri frjálslynt og sekulariserað. En hvað er hægt að gera við því ef fólk vill starfrækja pólítíska flokka utan um kenningar Kóransins eða Karl Marx? Næstu mánuðir verða mjög athyglisverðir. En það sem verra er, gætu verið mjög óstöðugir og blóðugir. 

Þetta er vissulega smáatriði: Það er nýbúið að skipa Noah Feldman sem ráðgjafa Jay Garner til að koma á nýrri stjórnarskrá í Írak. Feldman kennir við New York University og skrifaði nýlega athyglisverða bók um lýðræði og Islam. Hún heitir "After Jihad" (http://www.afterjihad.com). Athugið forsíðu bókarinnar. Þar sjáið þið bandaríska þingið og mosku. Það er semsé verið að gefa í skyn að það sé hægt að nýta islam til að byggja upp lýðræðislegt þingræði. En það vakti athygli mína að moskan er Sheikh Luftollah moskan í Isfahan í Íran. Er Íran semsé fyrirmyndin hér? Þetta er athyglisvert því að nýlega hafa verið mjög skýr fyrirmæli (frá Rumsfeld allavega, Powell var ekki eins afdráttarlaus) að þeir ætli sér ekki að leyfa það að komið verði á svipuðu stjórnkerfi í Írak og í Íran. Feldman er mjög fær en það er spurning hvort að hugmyndir hans fái að njóta sín eða hvort að önnur pólítísk sjónarmið verða ráðandi. Þegar hafa Bandaríkjamenn sakað þau öfl sem vilja koma á svipuðu stjórnkerfi í Írak og er í Íran um að þeir séu útsendarar Íran. Þetta er kannski leið til þess að útiloka slíka flokka úr "lýðræðisþróuninni" sökum þess að þeir séu í raun erlendir flokkar og því ekki raunveruleg birtingamynd hins almenna vilja í Írak. Að mínu mati er verið, allavega eins og kemur úr herbúðum Rumsfeld, að taka alvarleg feilspor ef ætlunin er virkilega sú að byggja upp lýðræðisanda í Írak. 

Hér fyrir neðan er grein sem ég skrifaði um sjííta í Írak sem birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (það er nákvæmara að skrifa "sjíítar" frekar en "sjítar" eins og Mbl gerir. Hér fyrir neðan er texti Morgunblaðsins.) Fyrirsögn greinarinnar var "Lýðræði eða klerkaveldi?".

Fram að innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak, átti sér stað mikil umræða um heim allan um málefni Íraka. Í allri umræðunni um hvort heyja ætti stríð, með eða án fulltingis Sameinuðu þjóðanna, var menning og saga Íraks aukaatriði. Á meðan fólk deildi um Saddam Hussein og George W. Bush gleymdist algjörlega að ræða um þær rúmlega 23 milljónir manna sem búa í Írak og hvaða hugmyndir íbúar landsins hafa um stjórnarfar og réttlæti. En nú er svo komið að ekki er hægt að horfa fram hjá pólítískum viðhorfum Íraka. Andstætt sjálfu stríðinu þegar bandaríski herinn gat háð baráttuna á sínum forsendum með sín tæki og tól verður miklu erfiðara að stjórna þróun mála nú þegar Írakar eru byrjaðir að taka ákveðin skref í að endurskipuleggja pólítískt starf í landinu.

Rétt eins og hjá íbúum ríkja annars staðar í heiminum markast framtíðarsýn Íraka að mörgu leyti af túlkun þeirra á eigin sögu. Írakar eru mjög ólíkir innbyrðis en hafa þó upplifað sameiginlega reynslu af þjóðríkinu Írak. Írakar hafa farið í gegnum margskonar stjórnarmynstur síðustu áttatíu árin og almennt séð hefur ofbeldi einkennt stjórnmálasögu þeirra. Allt frá árinu 1921, þegar Bretar stofnsettu konungsdæmi Hashemíta í Írak, hefur fámenn karlaklíka súnní araba ráðið yfir landinu. Upphaflega var þetta konungsfjölskyldan en á síðustu 25 árum hefur það verið stórfjölskylda Saddams Husseins frá Tikrit. Almennt séð hafa valdhafar ekki haft mikið lögmæti í augum þorra þjóðarinnar og hafa því þurft að beita allskonar ráðum, svo sem ofbeldi, til að byggja upp einingu í landinu og tryggja að pólítísk andstaða væri lítil sem engin. Þrátt fyrir pólítískt ofbeldi (eða kannski vegna þess) hefur náðst að byggja upp mjög sterka íraska þjóðernisvitund en þjóðin sjálf hefur verið hlutlaus samnefnari fyrir þjóðina alla, hvort sem um er að ræða íraska kúrda, turkómana, gyðinga, kristna, súnní araba eða sjía araba. Á mörgum tímapunktum svo sem í Íran-Írak stríðinu þegar margir töldu að íraskir sjítar myndu styðja trúbræður sína í Íran hefur samkenndin við hugmyndina um Írak orðið ofan á. Þess ber líka að geta að þrátt fyrir mjög sterkan og miðlægan draum um framtíðarríki Kúrda eru íraskir Kúrdar miklir íraskir þjóðernissinnar og líta frekar svo á að framtíð þeirra miðist að því að fá aukin völd í Bagdad og að vinna með suðurhluta landsins en að sækjast eftir pólítískri samvinnu við Kúrda í Sýrlandi, Íran, eða Tyrklandi.

Erlend íhlutun jafngild óréttlæti

Það einkennir íraska þjóðernishyggju að hún lítur mjög krítískum augum á þátt heimsvaldastefnunnar og Breta í upphafsárum eigin lands. Það er álitið að Bretar hafi skapað þannig aðstæður í Írak að þeir högnuðust fyrst og fremst en ekki Írakar. Erlend íhlutun jafngildir því óréttlæti í þeirra huga. Þessi hugmynd er sérstaklega sterk meðal sjíta enda hafa þeir aldrei verið í miðlægri stöðu í íröskum stjórnmálum þrátt fyrir að vera í meirihluta. Það er sérstaklega einn atburður sem sjítar vísa til og olli því að þeir urðu undirokaðir í stjórnmálum landsins. Það var uppreisn Íraka gegn hernámi Breta árið 1920, ári áður en Írak var formlega stofnað. Forsprakkar uppreisnarinnar, sem átti sér stað mestmegnis í suðurhluta landsins, voru klerkar sjía. Þeir birtu fatwa, eða lagalegt álit þar sem vopnuð mótspyrna gegn Bretum var réttlætt með trúarlegum hætti. Þessi uppreisn varði í nokkra mánuði og var blóðug. Um það bil 6.000 Írakar létu lífið og um 500 Bretar. Almennt séð hefur þessi atburður verið talinn upphaf íraskrar þjóðernishyggju þar sem Írakar komu saman til að berjast gegn erlendum yfirráðum. Fyrir sjíta er þessi uppreisn þó lævi blandin. Þeir eru stoltir af því að þeir voru í forystu í þessum miðlæga atburði. En á hinn bóginn telja þeir sig hafa goldið fyrir þetta forystuhlutverk því að þegar Bretar stofnsettu landið árið 1921 treystu þeir ekki sjítum til að fara með stjórn landsins og settu því súnní araba í hásætið. Fyrir það eitt að verja fósturjörðina, að mati sjíta, voru þeir settir í skammarkrókinn og í því felst mikið óréttlæti.

Hvaða hlutverk?

Á síðustu dögum hafa sjítar verið einna mest áberandi í stjórnmálaumræðu Íraka. Þeir hafa gripið tækifærið sem hefur skapast í tómarúminu eftir að ríkistjórn Saddams Husseins hvarf. Í viðtölum við vestræna og arabíska fréttamenn hafa sjítar margsinnis skírskotað til 1920 og telja að nú sé verið að endurtaka söguna að einhverju leyti þar sem þeir eru í forystu að mótmæla veru erlendrar hersveitar. Þeir eru þakklátir að ríkisstjórn Husseins sé ekki lengur við lýði en eru ekki tilbúnir að sætta sig við hernám Bandaríkjanna. Og að þessu sinni ætla þeir ekki að endurtaka mistökin frá 1920 heldur ætla þeir sér að gegna mun veigameira hlutverki í íröskum stjórnmálum en þeir hafa gert hingað til. En spurningin er: hvers konar hlutverki? Sjía klerkarnir nýta sér það tómarúm sem er í íröskum stjórnmálum til að koma skoðunum sínum á framfæri. Ólíkt velflestum áhrifamiklum aðilum bæði innan Írak og meðal þeirra sem eru íraskir útlagar hafa klerkarnir í Írak fram að þessu ekki tekið mikinn þátt í daglegu stjórnmálavafstri. Þeir eru því ekki með neitt blóð á sínum höndum né eru þeir tengdir spilltri stjórn. Auk þess eru þeir ekki eins og vissir íraskir útlagar, eins og Ahmad Chalabi, álitnir strengjabrúður vestursins. Rétt eins og Khomeini á sínum tíma í Íran, eru klerkarnir taldir vera yfir pólítíkina hafnir og eru fulltrúar ákveðinnar hefðar sem fólk þekkir til og treystir. Rétt eins og í byltingunni í Íran einkennist málflutningur þeirra af mikilli gagnrýni á Bandaríkin. Og síðast en ekki síst eru táknrænar trúarlegar hátíðir og samkomur, eins og þær sem áttu sér stað í Karbala og Najaf í vikunni, notaðar til að þjappa fólki saman og til að koma pólitískum boðskap á framfæri. Að þessu sinni var boðskapurinn skýr: Írak er fyrir Íraka og burt með bandaríska herinn. Þessar fjölmennu samkomur, langtum fjölmennari en sá hópur fólks sem kom saman á torginu í Bagdad 9. apríl til að fagna falli styttu Saddams Husseins, munu styrkja forystmenn sjíta og nú eru þeir til alls líklegir. Ástandið í Írak um þessar mundir og í Íran 1978 er nú iðulega borið saman og margir telja það vera frekar sambærilegt.

Fjölbreyttur hópur

En Íraskir sjítar eru ekki einlitur hópur. Þvert á móti eru mjög skiptar skoðanir þeirra á milli um hvort eða hvernig trúmál eigi þátt í opinberri stjórnsýslu. Almennt skiptast sjítar í tvo hópa í Írak. Annars vegar eru það þeir sem halda uppi merki hefðbundinnar túlkunar á hlutverki trúarinnar í stjórnmálum. Þessi armur sjítismans, sem kenndur er við guðfræðiskólann í Najaf, boðar að klerkar eigi ekki að skipta sér af stjórnmálum. Önnur stefna, sem er kennd við guðfræðisetrið Qum, sem er í Íran, telur að klerkar eigi að vera í forystu í þjóðfélaginu. Það voru einmitt áhrif Qum-skólans sem voru ráðandi í byltingunni í Íran á sínum tíma. Almennt séð hafa íraskir sjítar verið tryggir fylgjendur Najaf-skólans og ekki hefur borið á afskiptum sjía klerkanna í íröskum stjórnmálum, fyrir utan uppreisnina 1920. En nú er komin önnur áhersla uppá yfirborðið. Það hefur borið á áhrifum Qum-hugmyndafræðinnar hjá hinum unga Muqtada al-Sadr. Faðir hans, Muhammad Sadiq al-Sadr, var mikilvægur trúarleiðtogi en var tekinn af lífi árið 1999 af ríkisstjórn Saddams Husseins. Fátækrahverfi Bagdad, þar sem margir fátækir sjítar búa og áður hét í höfuðið á Saddam, ber nú nafn Sadr sem sýnir að minning hans er enn sterk meðal sjíta. Sonur hans Muqtada vill koma á svipuðu stjórnkerfi í Írak og í Íran. Flokkur al-Sadr er vel skipulagður og það sem verra er vel vopnaður og þeir eru ekki líklegir til að sækjast eftir málamiðlunarlausnum. Grunur leikur á að það hafi verið fylgismenn Muqtada al-Sadr sem myrtu annan trúarleiðtoga sjíta, Abdul Majid al-Khoi, 10. apríl sl. Al-Khoi var nýkominn til Írak eftir áratuga útlegð í London. Hann var hófsamur og Bandaríkjamenn voru búnir að stilla honum upp sem framtíðarleiðtoga sjíta. En stuðningur Bandaríkjanna reyndist al-Khoi dýrkeyptur og nú eiga Bandaríkjamenn engan leiðtoga meðal sjíta sem hefur almennt fylgi meðal Íraka og þeir geta treyst.

Líklegir leiðtogar

Tvo aðra mikilvæga leiðtoga ber að hafa í huga. Annars vegar er það Ayatollah Ali Sistani sem formlega séð er æðstiklerkur Najaf. Hann er hófsamur og hefur verið ákaflega varkár. Hann kom með yfirlýsingu þess efnis að hann óskaði eftir því að bandaríski herinn hyrfi á brott sem fyrst og vísaði meðal annars til atburðanna 1920. Pólítískt séð er hann algjörlega á skjön við al-Sadr og fregnir herma að al-Sadr hafi hótað Sistani lífláti og að Sistani sé nánast í stofufangelsi. Annar leiðtogi sem ber að fylgjast með er Muhammad Baqir al-Hakim sem hefur verið í útlegð í Íran en hann er leiðtogi Æðstaráðs írönsku byltingarinnar í Írak. Eins og nafnið gefur til kynna hefur þessi flokkur sett sér það markmið að breiða út boðskap írönsku byltingarinnar í Írak. Á síðasta ári fór þessi flokkur að starfa meira með íröskum útlögum og fulltrúar hans sóttu meðal annars þá fundi sem Bandaríkjastjórn skipulagði í London og Washington í desember. Þar lýstu stuðningsmenn því yfir að þeir væru ekki lengur að breiða út boðskap byltingarinnar en ætluðu sér frekar að stefna að því að koma á lýðræðislegu þingræði í Írak en klerkaveldi. Þessi stefnubreyting virtist gegnsýrð af tækifærismennsku og er ekki sérstaklega trúverðug. Enn sem komið er hefur al-Hakim ekki yfirgefið Íran enda hefur íranska stjórnin ekki gefið honum leyfi til þess. Stjórn Khatami í Íran hefur haldið sig mjög til hlés í öllu þessi stríði og alls ekki verið áberandi. Íranar hafa mikla ástæðu til að óttast enda er nú bandarískt herlið í Afganistan, Úsbekistan, Írak, Sádí-Arabíu og Katar. Íranar eru þess vegna umkringdir af Bandaríkjamönnum. Fréttirnar um að íranskir aðilar eða útsendarar séu í Írak hafa ekki verið staðfestar og Íranar hafa þráfaldlega neitað því. Reyndar benti Kamal Kharrazi, utanríkisráðherra Írans, á að hann teldi kröfu Bandaríkjanna um að nágrannaríkin skiptu sér ekki af innaríkismálum Írak orkaði tvímælis þar sem Bandaríkjamenn eru jú sjálfir með hersveitir í landinu og væru mjög virkir í stjórnmálum Íraks. Á undanförnum dögum hef ég rætt við þó nokkra sérfræðinga í málefnum Írans og þeir telja frekar ólíklegt að Íranar séu með útsendara í Írak. Það væri of mikil áhætta fyrir Íran að gera það að svo stöddu, ekki aðeins gagnvart Bandaríkjamönnum heldur líka gagnvart Írökum.  Í Írak eru semsé róttækari öfl sjíta sem vilja stuðla að íslamsvæðingu samfélagsins og koma á álíka stjórnkerfi í Írak og nú vex ásmegin í Íran. Það er ómögulegt að spá fyrir um hvort þetta sé vísir að því sem koma skal. Kollegar mínir sem ég hef rætt við eru með mjög skiptar skoðanir um hvað þetta boðar. Þeir sem ólust upp í Íran og muna eftir byltingunni, eru svartsýnir og telja að Írak sé að stefna á sömu braut enda er nú svo margt keimlíkt. Aðrir eru frekar efins um að Írakar vilji nú eftir öll þessi ár undir harðstjórn Saddams Husseins lúta sjía klerkum veifandi Kóraninum.

Vanþakklæti kemur í opna skjöldu

Írakar eru almennt ekki vanir því að ein tiltekin trúaráhersla sé ráðandi í þjóðfélaginu og þó að sjítar séu í meirihluta (um 60%) eru þeir ekki það samtaka og sammála að þeir geti þröngvað hugmyndafræðinni uppá aðra landsmenn. Aðrir hópar í Írak koma líka til með að berjast gegn því. Enn sem komið er eru Írakar að jafna sig á stríðinu og því er pólítískt tómarúm. Í þetta tómarúm eru Bandaríkjamenn að stíga sem flækir málin þó enn frekar. Bandaríkjamenn eru í mjög erfiðri aðstöðu því þeir bjuggust við að eiga stuðning sjíta vísan. Bandaríkjamenn voru jú að steypa Saddam af  stóli sem kúgaði sjíta í öll þessi ár. Þetta vanþakklæti sjíta hefur komið þeim algjörlega í opna skjöldu rétt eins og Bretum árið 1920. Ef Bandaríkjamenn velja ákveðinn flokk eða aðila sem mótsvar við al-Sadr fengi sá aðili bandarískan stimpil sem er ekki líklegt til árangurs. Ef þeir ákveða að beita hörku og afvopna fylgismenn al-Sadr gæti það leitt til frekari bardaga, óánægju og óaldar. Það er þess vegna ekki ólíklegt að þeir ákveði að hunsa sjítana, rétt eins og Bretar gerðu 1920, og einbeiti sér frekar að því að finna sterkan aðila sem getur náð stjórn á mið- og norðurhluta landsins áður en þeir snúi sér að suðrinu. Bandaríkjamenn eru nú að kynnast af eigin raun hinu raunverulega Írak en aðstæður þar eru miklu flóknari en þeir gerðu ráð fyrir. Í mars lýsti Paul Wolfowitz aðstoðarvarnarmálaráðherra því yfir að íraskir sjítar séu upp til hópa orðnir veraldlegir í hugsun og ekki líklegir til að láta íslam segja sér fyrir verkum. Þó að þetta eigi vissulega við um marga íraska sjíta eru þó einnig fjölmargir sem eru nú að fagna trúfrelsi sínu með því að setja ákveðna túlkun á íslam á oddinn. Það er því ljóst að það verður áfram töluverð spenna í suðurhluta Íraks. Ef saga Íraka er einhver vísbending er frekar líklegt að andstaðan við veru Bandaríkjanna eigi eftir að aukast til muna. Árið 1920 mótaðist þjóðernisvitund Íraka í andstöðunni við Breta. Verður svipað uppi á teningnum nú?

 

 

 

Fréttabréf