Fara í efni

Kraumar undir í Írak

Pistill 5. ágúst 2003
Enn eru árasir á bandaríska hermenn. Þær  eiga ser stað aðallega í mið-hluta Íraks þar sem sunnita arabar búa, sem voru valdamestir undir stjorn Baath flokksins. Þessar árasir eru að verða skipulagðari og virðast til þess gerðar, meðal annars, að ögra bandarisku hermönnunum og jafnvel etja þeim út í átök. En þetta á sér ekki stað einungis á svæðum súnníta. Til dæmis um þarsiðustu helgi, áttu sér stað fjölmenn mótmæli í Karbala (og stórundarlegt að ekki var meira fjallað um það í  fjölmiðlum) gegn veru bandariska hersins nálægt einum helgasta reit sjiismans, nefnilega grafreit Imam Husayn (barnabarn Múhameðs spámanns). Eins og þið kannski vitið lést Husayn píslarvættisdauða árið 680. Samkvæmt goðsögninni um hann var hann hógvær trúarlegur leiðtogi sem var myrtur af hrokafullum veraldlegum leiðtogum. Þið getið þess vegna ímyndað ykkur hversu táknræn þessi mótmæli voru fyrir marga. Einhver átök virðast hafa átt ser stað. Níu Irakar særðust og a.m.k. tveir létust. Næsta dag kom ennþá stærri hópur til að mótmæla atburðum gærdagsins og þannig hefur farið fram nánast daglega. (Hafa ber í huga að slík mótmæli  eru ekki eins algeng í norðurhluta landsins).
Það hefur lítið borið á þeim háttsettum aðilum Baathflokksins eftir að þeir hafa verið hanteknir svo sem Tariq Aziz, fyrrum utanríkisráðherra. Mér skilst að fyrrum yfirmenn flokksins hafi ekki veitt miklar upplýsingar um starfsemi stjórnar Saddam Husayn. Bandaríkjamenn hafa fengið flestar sínar upplýsingar frá aðilum sem voru neðar í þrepum flokksins. Því miður hefur ekki verið nein alvarleg umræða meðal bandaríska ráðamanna í Baghdad um að koma á fót einhvers konar “Truth and Reconciliation” kerfi eins og átti sér stað í Suður-Afríku. Slíkt gæti gert mörgum fyrrum flokksfélogum kleift að koma fram og gera hreint fyrir sínum dyrum og snúið sér aftur að því að vinna í þágu þjóðfélagsins. Þess í stað er mjög víðtæk “de-baathification” , stefna sem hefur verið frekar tilviljunarkennd og hefur hindrað mjög þróun stjórnkerfisins í Írak, en Baath flokkurinn var með um miljón manns í lykilstöðum víðsvegar um þjóðfélagið.
Nú er búið að koma sér saman um hvernig eigi að skipa forsæti þjóðarráðsins. Mat mitt er að það lofi ekki góðu fyrir framtíð landsins. Það á að skipta um forsætið á mánaðarfresti og fylgt mjög týpískri formúlu sem grundvallast á etnik og trúarbrögðum. Sjiitin Ahmad Chalabi verður þar lykilmaður. En úr þvi að hann á að vera í forsæti þá verður að hafa annan sjíita, Iyad Allawi. En Chalabi og Allawi eru veraldlegir sjíitar og þvi verður að hafa  með trúarlega sjíita sem eru þeir Ibrahim Jaafari, Abdul Aziz al-Haik, og Muhammad Bahr al-Ulum. Og úr þvi að sjíitar verða með, verða vitaskuld súnnitar að vera með  lika, þar af leiðandi fá þeir Adnan Pachachi (veraldlegur) og Mushin Abdul Hamid (trúarlegur) einnig tækifæri á að stjórna. Og ekki má gleyma kúrdunum og flokkslínum þeirra. Þar af leiðandi fá Jalal Talabani og Barzani sinn séns til að stýra ráðinu.
Eins og einn kollegi minn benti á er þetta eins og "musical chair Russian roulette". (Fara á í stafrófsröð (samkvamt arabíska stafrófinu og eins og við gerum á Íslandi eftir fornafni en ekki fjölskyldunafni). Þar af leiðandi verður væntanlega Ibrahim Jafaari fyrstur í forsæti og í næsta mánuði ætti það að vera Chalabi. Það verður verulega erfitt fyrir þetta  ráð, sérstaklega þar sem svo veigamiklar ákvarðanir eru framundan, að fá einhverju framgengt þegar skipt er svo oft um forsæti sem þar að auki verður skipað mjög ólíkum persónum. Eins og annar kollegi minn benti á, lofuðu þeir að koma  upp ráðuneytum innan tveggja vikna en nú er ekki útlit að þeir geti komið sér saman um verkaskiptingu fyrr en eftir tvo mánuði. Og vegna þess að þeir eiga í svo miklum erfiðleikum að koma sér saman um  hver eigi að sitja i forsæti, er það þá líklegt að þeir geti komið sér saman um mikilvæg atriði hinnar nýju stjórnarskrár landsins  sem semja skal með það fyrir augum að kosningar eigi sér stað seint á árinu 2004 eða snemma árs 2005?
Blaðamaðurinn Martin Sieff hja UPI hefur skrifað greinaflokk um  ástandið í Írak sem er nokkuð athyglisverður ekki síst kaflinn um hvað hernámið  kostar: http://www.upi.com/view.cfm?StoryID=20030730-100003-2217rÞessi fjárskortur sem hann lýsir, kemur fram á margan hátt. Á Internetlista sem ég er á, kom fram tilkynning frá bandarískum embættismanni sem  starfar í Baghdad þar sem auglýst var eftir starfsfólki að koma til Íraks til að liðsinna í því starfi sem þar fer fram. Um var að ræða allskyns störf þó sérstaklega "establishing citizen's advisory councils and other democratic institutions, reforming city management, and creating local NGO's to promote the restoration of civil society.  Its been very difficult to get any staff here through the formal system" (koma á fót ráðgjafaþjónustu og stoðkerfi til endurreisnar borgaralegu samfélagi, ÖJ). En fyrir þetta á ekki að borga nein laun. Þetta á semsé að vera í sjálfboðavinnu. Hmmm, ekki að undra að erfitt sé að fá fólk til starfa.  Ef þú hefur áhuga get ég örugglega komið þér i samband við þennan aðila. En þessi tilkynning var kannski táknræn á margan hátt  ekki síst það að þeir vilja frekar leita út fyrir landsteinana og fá fólk inn í landið til að vinna heldur en að reyna á innlenda aðila. Auk þess sýnir þetta hversu miklum vanda Bandarikjamenn standa frammi fyrir. Og ef um virkilegan fjárhagsskort er að ræða þá verða það vissulega Írakarnir sjálfir sem munu gjalda fyrir það, ekki síst þegar kemur að heilbrigðisþjónustu eða menntun.
Aðilar sem eg hef verið í sambandi og samráði við hafa verið að  heimsækja alla grunnskóla í suðurhluta landsins og eru að skrifa heilmikla skýrslu um stöðu menntamála þar. Það verður mikið átak að koma skólum landsins í skikkanlegt ástand áður en kennsla hefst i haust ekki síst hvað varðar námsgögn. Meir um það siðar.
Það er sagt að Bretum hafi gengið betur en Bandarikjamonnum að koma á  stjórn á sínum umsjónarsvæðum í Irak eins og í Basra. Það er þó þar með ekki sagt að ástandið sé gott þar. Til dæmis hefur staða kristinna manna versnað stórlega í Basra. Í síðasta pistli sagði ég frá þvi að kristnar konur þar gangi um með slæðuna. Nú er verið að gera atlögu á fyrirtækjum kristinna manna, ekki síst áfengisverslunum og gistihúsum.
Nú er hægt að lesa "blog" frá Basra. Höfundur ku vera kona er heitir Nawar. Ég hef enga hugmynd um hversu áreiðanlegt þetta sé.  Það er  á arabísku en ensk þýðing er fyrir neðan: http://ishtartalking.blogspot.com/.
Að lokum: Bæði Ariel Sharon og Mahmoud Abbas heimsóttu Washington  nýlega. Í fyrsta sinn ræddi Bush opinberlega um múrinn sem Ísraelar eru að reisa, sem hann kallar “girðingu” (ýmist “fence” eða “security fence” sem er frekar sakleysislegt hugtak til að lýsa þessu fyrirbæri). Ég geri ráð fyrir því að þessi múr verði í eldlínunni á næstu mánuðum og árum og kemur til með að flækja stöðuna enn frekar.  Í kjölfarið á heimsókn Abbas hafa svo birst fréttir þar sem sagt var að Bandarikjastjórn geri ekki ráð fyrir þvi að Abbas geti náð að hamla starfsemi Hamas samtakana. Kannski hafa þeir áttað sig á þvi að Abbas hefur ekki svo mikil völd eða burði til að gera eitt eða neitt. Og úr því að Sharon vill að Abbas geri meira áður en Sharon gerir eitthvað, þá mun Sharon að sjalfsogðu ekki gera neitt fyrr  en Abbas gerir eitthvað, sem getur hvort sem er ekki gert neitt. Þið sjáið af hverju þessi vegvísir er að siglaí strand. Það á nú að senda enn einn erindrekann þangað (John Burns). Hvað hafa þeir nú verið margir síðustu árin (Ross, Zinni, Mitchell o.s.frv. o.s.frv)?
Það hefur ekki verið fjallað mikið um það í fjölmiðlum hér vestra að það hefur borið á umtalsverðri fjölgun " mannshvarfa" í Íran. Þetta er ekki ósvipað þvi sem gerðist í Suður-Ameriku. Það er alls ekki tilviljun að þeir sem eru að hverfa eru aðilar sem hafa verið að gagnrýna stjórnina. Sennilega eru þetta viðbrögð stjórnvalda við mótmalaaðgerðum stúdenta í sumar. Sumir hafa haft á orði að Íran sé að breytast úr "guðaveldi" (theocracy) yfir í "mafiosaveldi" (Mafiocracy) þegar starfshættir stjórnvalda þar eru metnir.  Bið að heilsa, MÞB