Gunnar Kristjánsson talar til okkar úr kirkju sinni
Gunnar Kristjánsson:
2. sd. í aðventu, 7. des. 2003. Reynivellir,
útvarpsmessa
Textar: Jes. 11. 1-9; Róm. 15. 4- 7.13; Lk. 21.
25-33
Náð sé með yður og friður.
"Guð var í símanum".
Þannig eru upphafsorð hinnar nýju skáldsögu Hallgríms Helgasonar,
Herra Alheimur. Það er goðafræði í Hollýwoodstíl og segir frá nýjum
goðheimum á stjörnu í miðjum geimnum. Þaðan sér Herra Alheimur vítt
um veröld alla og stýrir stjarna her. Stjórnin ferst honum hins
vegar ekki úr hendi sem skyldi, enda snýst sagan um ákvörðun Herra
Alheims að tortíma öllu lífi á jörðinni vegna þess að íbúum hennar
hefur tekist að klóna sjálfa sig. En jörðin fær öflugan verjanda
sér til hjálpar, Napóleon Nixon að nafni, og því óþarfi að örvænta
þótt skelfingar heimsendaskáldsögunnar vofi yfir.
"Guð var í símanum". Gæti það verið? Hvernig næst samband við Guð?
Hvar er Guð? Hvernig getum við talað um Guð? Aðventan er tími fyrir
slíkar hugleiðingar, hún er tími til að hugleiða spurningar okkar
um Guð.
Af þessu tilefni kom mér í hug heimsókn í framhaldsskóla erlendis
síðastliðið vor. Ég veitti athygli miklum tæknibúnaði á þaki
skólahússins. Mér var tjáð að þarna væri stjörnukíkir og ennfremur
að nemendur kæmu þangað á kvöldin þegar myrkur var skollið á til að
skoða alheiminn; þeir urðu í hvert skipti eins og dáleiddir og gátu
varla slitið sig frá kíkinum. Hugmynd þeirra um heiminn breyttist
við þessa nýju sýn. Lífið var meira en að vakna í skólann, sitja á
skólabekk og fara svo heim. Hér opnaðist þeim leyndardómur
himingeimsins þar sem sólin varð næsti nágranni og við tóku aðrar
sólir, heilu sólkerfin og órafjarlægar vetrarbrautir.
Kannski var þeim innanbrjósts líkt og erlendum biskupi og
áhugamanni um stjörnufræði. Þegar hann lét af embætti nýlega var
hann spurður í blaðaviðtali hvað færi gegnum huga hans þegar hann
sæi tungl Júpiters eða fjarlægar stjarnþokur í sjörnukíkinum sínum.
"Það er þögn alheimsins", sagði hann, "og tilfinning fyrir
því að Guð sé ekki til og við þá hugsun fer hrollur um mig", og
hann hélt áfram: "Þá spyr ég mig: hvað ætli Guð sé, ætli það sé
tilviljun, alveg út í bláinn, að maðurinn sé yfirhöfuð til? En svo
hugsa ég sem svo að það sé óhugsandi að lífið sé innihaldslaust, ég
verð að leita að tilgangi í lífi mínu og spyrjast fyrir um
leyndardóminn á bak við þennan heim."
Nemendurnir í framhaldsskólanum sáu ekki Guð í alheimsgeimi heldur
varð þeim óvænt litið inn á við: undir þessu nýja sjónarhorni varð
þeirra heimur ósköp smár. Spurningarnar, sem vöknuðu, voru um
þeirra eigið líf: hvað er maðurinn að gera í þessum stóra heimi?
Ætli spurningar um Guð hafi ekki einnig vaknað í huga þeirra?
Er verjandi að trúa á Guð? Mörgum trúuðum finnst svarið við þeirri
spurningu ekki lengur einhlítt. Væri þá ef til vill skynsamlegra að
hafna Guði og gleyma öllum hugleiðingum um hann? Mörgum vantrúuðum
finnst svarið við þeirri spurningu ekki lengur liggja í augum uppi.
Margir trúaðir efast um trú sína og margir trúlausir efast um efa
sinn. Hversu margir leita ekki að fullvissu í óvissu sinni, annað
hvort í trú sinni eða vantrú?
Guð er á dagskrá í umræðu dagsins. Þessi ummæli les ég í þýska
fréttatímaritinu Spiegel: "Hvað eru kvikmyndir eins og
Harrý Potter og Hringadrottins saga annað en sönnun þess að
maðurinn þráir að svala trúarþörf sinni."
Og aftan á verðlauna- og metsölubókinni Sögunni af Pí
eftir Yann Martel er þessi innihaldslýsing: "Þetta er saga sem fær
mann til að trúa á Guð". Höfundurinn telur að vesturlandabúa þyrsti
í að trúa á guðdóminn en þeir finni ekki leiðina til hans vegna
þess að samfélag þeirra er ofhlaðið gildum sem gera ekki ráð fyrir
Guði og auk þess sé orðið Guð svo hlaðið misvísandi merkingu, sögu
og fordómum að það þurfi rækilegrar endurskoðunar við. Skáldsagan
um Pí er tilraun höfundar til að sýna hvernig trúin á Guð breytir
lífi mannsins í reynd svo allt fær annan svip og verður
innihaldsríkara, skynsamlegra og áhugaverðara. Skáldsaga, sem fær
lesandann til að trúa á Guð, hlýtur að vera mögnuð og kannski er
þetta loforð ein ástæðan fyrir vinsældum hennar. En skyldi hún
uppfylla þær væntingar?
Í öðru skáldverki, miklu eldra, er sígild lýsing á viðhorfum fólks
til spurningarinnar um Guð. Það er í Hamlet, eina leikriti
Shakespeares þar sem minnst er á jólin.
Varðmenn eru að tala saman þegar þeir sjá vofu hins látna
Danakonungs svífa stutt frá þeim, og þeim er að vonum brugðið.
Vofan hverfur hins vegar þegar haninn galar. Við þetta tækifæri
flytur einn þeirra, Marsellus að nafni, þessa hugleiðingu um hina
helgu nótt:
Það hvarf um leið og haninn gól. Menn segja,
að jafnan er sú hátíð fer í hönd
sem fagnar komu frelsarans, þá syngi
þessi fugl morgunmálsins næturlangt
og þá sé engri vofu vært á ferli
nóttin sé heilnæm, enga stjörnu að óttast,
né álfagrikk, og nornir missi mátt;
svo heilög, og svo hrein er þessi hátíð. (Þýð. Helgi Hálfd.)
Með þessum orðum lýsir Marsellus tilfinningu sinni fyrir hinni
helgu nótt, fyrir mætti hins heilaga. Annar varðmaður, Hóras að
nafni, lýsir öðrum tilfinningum þegar hann tekur undir með hálfum
huga og segir: Heyrt hef ég það, og trúi því að
nokkru…
Þannig verða þessir tveir varðmenn fulltrúar tveggja
viðhorfa. Marsellus trúir á mátt þessarar nætur, á frumkraft
heilagleikans í þessum heimi til þess að stugga á brott veldi hins
illa. En Hóras er dálítill Íslendingur í sér, hann er hógvær
efasemdamaður: Heyrt hef ég það og trúi því að nokkru.
Dýpra tekur hann ekki í árinni.
Shakespeare kemur hér orðum að hugsun sem fæstum er framandi. Hún
er þessi: hvernig get ég trúað á Guð á tímum þegar hann virðist svo
fjarlægur manninum og maðurinn svo fjarlægur honum, á tímum þegar
hin sígildu hugtök til að tala um Guð virðast svo máttlaus og
lítils virði, á tímum þegar trúin virðist svo oft eiga sér
ofstækismenn eina sem talsmenn, hvort sem þeir eru kristnir,
gyðingar eða múslimar? Ofstækið er einnig að finna á meðal þeirra
sem enga trú játa.
Guð er á dagskrá nú eins og endranær. Í því efni þurfum við hins
vegar á myndbrjótum að halda sem hreinsa til í hugmyndaheimi okkar
og orðræðu um Guð, þar geta bækur eins og Herra Alheimur gegnt því
hlutverki að brjóta niður táknmyndir og myndmál fyrri tíma sem á
sér litlar forsendur lengur í hugarheimi mannsins.
Því að "sá Guð, sem er til, er ekki til", svo vitnað sé í einn
virtasta guðfræðing tuttugustu aldar. Með öðrum orðum: Guð, sem
maðurinn telur sig hafa fullkomna þekkingu á og geta skýrt og
skilgreint, er enginn Guð.
En hvernig er þá hægt að tala um Guð?
Um Guð getur maðurinn aðeins tjáð sig með tungutaki tákna og
myndmáls. Hvort sem það er um persónu hans, að hann sé skapari og
andi, eða um eiginleika hans, að hann sé alvaldur og alvitur; eða
um verk hans, að hann hafi búið til heiminn og sent son sinn. Allt
er það orðræða sem hentaði öðrum tímum þar sem orð og tákn
endurspegla heimsmynd löngu liðins tíma.
Með orðinu Guð er vísað til þeirrar órannsakanlegu og
leyndardómsfullu dýptar sem umlykur líf okkar og tilvist og fylgir
okkur hvert fótmál, til þess sem skiptir óendanlega miklu máli í
lífinu, til þess sem ekki verður framhjá gengið, sem öll hugsun og
tilfinning beinist að þegar spurt er um tilgang.
Sá sem skilur táknmyndir bókstaflegum skilningi, missir af merkingu
táknsins og gerir Guð að skurðgoði og þar með að gerviguði eða
skrípamynd.
En svo mikið er víst að spurningin um Guð lætur manninn ekki í
friði. Hún kemur innan frá, dýpst úr hugskoti mannsins sjálfs, hún
er samofin allri hans tilvist, þáttur í spurningu hans um sjálfan
sig: hvað er ég að gera í þessum stóra heimi? Frá spurningunni um
Guð er því engin undankomuleið, aðeins einn valkostur stendur til
boða: að glíma við þá spurningu og það hefur maðurinn alltaf
gert.
Innra er þráin til Guðs og knýr manninn til að leita Guðs. En
aðventan slær annan streng: Guð nálgast manninn, Guð kemur til
mannsins. En hvernig?
Er hann ekki nálægur í starfi þeirra sem styðja hina ofsóttu, sem
leggja líf sitt í sölurnar fyrir minnihlutahópa, sem hætta lífi
sínu við friðargæslu, sem vinna að mannréttindum þar sem þau eru
fótum troðin, sem berjast gegn ofureflinu í hvaða mynd sem það
birtist?
Kemur hann ekki til þín í fólki, sem vitjar þín þegar þú ert
þurfandi, þegar þú ert sjúkur, eða í fangelsi, með fólki sem styður
þig í fátækt þinni, klappar á öxlina á þér til hughreystingar þegar
illa gengur?
Kemur hann ekki til þín í hönd barnsins sem það læðir í lófa þér, í
lífsreyndum augum öldungsins, í þéttu handtaki á sorgarstund, í
brosi á stund gleðinnar?
Jesús vísar til margra tákna um návist Guðs. Við þurfum hvorki að
fara út í geiminn né bíða þess að hann birtist í þrumum og eldingum
við sögulok. Hann birtist í sköpunarverkinu, í ráðgátu alheimsins,
í undrum lífríkisins, í auðlegð náttúrunnar.
Hann birtist í táknum vonarinnar í þessum heimi. Þau snúast um
mannleg samskipti í daglegu lífi: í umhyggju, í sanngirni, í iðrun.
Í trúfesti, í fyrirgefningu, í sáttargjörð.
Tákn vonarinnar verða sýnileg þegar við fórnum einhverju fyrir þá
sem líða, þegar við stöndum við hlið hinna fyrirlitnu, þegar við
nálgumst ógæfumanninn með mildum huga.
Tákn vonarinnar skynjum við þar sem maðurinn sýnir ábyrgð í
samskiptum sínum við lífríkið, í nýtingu auðlinda, í viðskiptum.
Þegar við slökkvum hefndarþorstann, eyðum fordómum, verjum
lítilmagnann.
Heyrt hef ég það og trúi því að nokkru. Hóras varðmaður er
fulltrúi hinna varkáru viðhorfa til grundvallarspurninga. En hin
hálfkveðna vísa, hin loðnu hentugleikaviðhorf til siðferðis og
lífsgilda breyta litlu í hörðum heimi. Heimurinn hefur aldrei
lagast fyrir orð þeirra sem bera kápuna á báðum öxlum. Jesús fór
ekki bil beggja, hann hafði ekki vaðið fyrir neðan sig, hann gekk
óvarinn alla leið, hann sýndi það hugrekki sem þarf til að vera
manneskja.
Jesús er sterkasta táknið um návist Guðs.
Hann hreinsaði musterið, hann gekk til þeirra þjáðu og þurfandi,
til einstæðra og allslausra, til þeirra sem samfélagið hafnaði,
hann gerði fátæku ekkjuna að einni þekktustu persónu
heimsbókmenntanna, hennar kaupréttarsamningur var einn eyrir; við
vitum hvar hann lenti. Sýndi hann ekki fötluðum og öryrkjum
virðingu?
Guð, sem kemur, er þema aðventunnar. Hann er leyndardómur
heimsins og nálgast manninn með ýmsum hætti - kannski í
símanum.
Í guðspjalli dagsins er Lúkas guðspjallamaður með hugann við
festingu himinsins. Hann lýsir hamförum á himni og jörð, þetta eru
hinir síðustu tímar þegar allt hrynur til grunna, náttúrulögmálin
falla úr gildi, endalokin blasa við. Skelfingar yfirþyrma fólk svo
að það gefur upp andann af ótta og kvíða.
Allt er í þeirri lýsingu forgengilegt nema eitt, sterkasta táknið,
Jesús Kristur. Hann kemur til mannsins, það er boðskapur Lúkasar.
Þar sem hans er von, liggur eftirvæntingin í loftinu. Þeirri
eftirvæntingu er aðventan helguð. Það er eftirvænting eftir hinu
nýja og ferska, eftir nýrri gleði, eftir nýrri von, nýju hugrekki,
nýrri trú.
Megi aðventan styrkja trú okkar og löngun til að greiða götu Hans
sem leysir manninn undan valdi rökkursins og gefur nýja von í
þessum heimi.
Amen.