Fara í efni

Á móti

Vinstri grænir eru á móti. Þeir eru á móti öllu. Flokkurinn er negatívur og á móti breytingum og framförum. Það er nánast sama hvar drepið er niður, vinstri grænir eru á móti því og tala líka manna mest á þingi. Þessi litli þingflokkur talar álíka mikið og þingmenn stóru flokkanna. En þingmenn þeirra flokka eru raunar bara atkvæðamaskínur og þurfa ekki að gera annað en rétta upp höndina þegar þeim er sagt.

Já vinstri grænir eru á móti mörgu, t.d. einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Einkavæðing hefur verið boðuð mjög ákaft af hægri öflunum. Hvað felst í henni? Það að starfsemi sem ríkið, almannasjóður, hefur rekið er færð í hendur peningamanna. Það er margsannað mál að ríkisrekstur, sem tekur tillit til allra og hefur jöfnuð að leiðarljósi, er hagkvæmari en einkarekstur þar sem aðeins er stefnt að gróða. Gott dæmi er póstur og sími þar sem þjónusta við almenning hefur snarminnkað á sama tíma og fyrirtækið, eins og það heitir nú, skilar arði. Almenningur tapar, afgreiðslutími er styttur, póstburðar- og símgjöld hækka en gróðapungar, sem keyptu á spottprís, fá úthlutað arði. Svokölluð einkavæðing bankanna, þar sem fjármálastofnanir í almannaeigu eru seldar, hefur leitt af sér margs konar hækkun á þjónustugjöldum. Allt til að þóknast fjármagnseigendum, eins og það er orðað. Það er sama hvert litið er, svokölluð einkavæðing er einungis þjónkun við fjárgróðaöflin. Nú, er þá ekki gott mál að vera á móti einkavæðingu?

Næsta skotmarkið er húsnæðiskerfið og síðan lífeyrissjóðirnir en þar eru miklir fjármunir sem braskarana hungrar í. Í öllu þessu einkavæðingartali hef ég hins vegar aldrei skilið hvers vegna veislusalir ríkisstjórnarinnar, í Rúgbrauðsgerðinni og Safnahúsinu við Hverfisgötu, eru ekki seldir. Þar er ríkið í beinni samkeppni við veitingamenn í landinu. Líklega er skýringin sú að kotkeilarnir fyrir ráðherrana og fylgifiska þeirra eru ódýrari þegar ríkið borgar milliliðalaust.

Já, vinstri grænir eru líka á móti einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Eftir skelfilegan áratug sífellds niðurskurðar eru margar sjúkrastofnanir nánast komnar í þrot. Álag á hjúkrunarfólk eykst stöðugt og gjöld á sjúklinga hækka. Lengst af Íslandssögunnar þýddi heilsuleysi að fólk, sem lenti í slíkri ógæfu, varð nánast öreigar og komið upp á ættingja eða sveitarstjórnir. Í allsleysi kreppuáranna, á árunum milli 1920 og 1940, var fyrir forgöngu alþýðuhreyfinga byggt upp tryggingakerfi sem hefur síðan verið þróað og bætt þannig að heilbrigðisþjónusta á Íslandi var öllum opin. Nú, eftir stjórn íhalds, krata og framsóknar, hefur verið snúið ofan af þessu kerfi þannig að meðalfjölskylda þarf að greiða 50.00 til 100.000 krónur á ári fyrir heilsugæslu. Þeir sem eiga við verulegt heilsuleysi að stríða þurfa að greiða miklu hærri upphæðir og búa auk þess yfirleitt líka við skerta tekjumöguleika. Já, vinstri grænir eru raunar líka á móti þessari þróun.

Vinstri grænir eru líka á móti því að ganga í Efnahagsbandalagið. Árið 1262 fólu Íslendingar erlendu valdi stjórn landsins og stóð sú tilraun í tæp 700 ár. Afleiðingarnar voru viðvarandi kúgun, skilningsleysi á þörfum landsmanna og þrautpíning þeirra. Skortur, arðrán og kúgun. Það er að vísu rétt að stjórn íhalds, krata og framsóknar er ekki góð, en þar er þó við innlenda aðila að etja og hægt að setja þá af. Hins vegar er morgunljóst að stjórn kommissaranna í Brussel mótast af krepptum hnefa í silkihanska. Danir voru ekki ýkja harðir húsbændur á 19. öld þegar Fjölnismenn og Jón Sigurðsson fóru í fararbroddi þeirra sem börðust fyrir innlendri stjórn, að minnsta kosti ef borið er saman við gömlu nýlenduveldin. Samt var stjórn Dana slæm því hún tók ekki mið af íslenskum aðstæðum. Brussel er lengra frá Íslandi en Kaupmannahöfn nokkru sinni var. En kannski er rauðvínið þar sætara og vindlareykurinn rammari og það kann að heilla landsölumennina.

Vinstri grænir eru víst líka á móti álverum. Það er vissulega af hinu góða að skapa atvinnu fyrir fólk á Reyðarfirði. Þegar hins vegar er fyrirséð tap á fyrirtækinu, sem almenningur þarf að borga, hljóta að vakna spurningar. Undanfarin ár hafa verið gerðir nokkrir orkusamningar við álfyrirtæki og er verðið leyndarmál. Hvers vegna leyndarmál? Jú, vegna þess að verðið fyrir raforkuna er svo lágt að almenningur má ekki frétta af því. Auðvitað er raforkuverðið ekkert leyndarmál. Allir í orkugeiranum vita nákvæmlega hvað álbræðslurnar greiða fyrir rafmagnið. Og almenningur veit líka að raforka til stóriðjuveranna er seld undir kostnaðarverði. Slíkt getur svo sem verið réttlætanlegt ef tekst að skapa atvinnu til frambúðar í öðrum greinum. En þegar tillit er tekið til skattfríðinda, sem felast í samningnum við Alcoa, og fleiri þátta er ljóst að ávinningurinn er enginn. Fyrir utan það að með framkvæmdunum við Kárahnjúka er verið að stórspilla einu af fáum víðernum í Evrópu, sem voru ósnert þar til nú. Já vinstri grænri eru raunar á móti útsöluverði á raforku og spjöllum á náttúrunni.

Vinstri grænir eru líka á móti hernaði. Þeir eru ekki hrifnir af árásarstefnu bandaríska auðvaldsins í Mið-Austurlöndum. Þeir eru ekki sáttir við bandarísku alheimslögguna sem hefur lumbrað á fólki í Chile, Viet-Nam, Panama, Afganistan, Serbíu og nú síðast í Írak til að ná undir sig olíulindum þar.

Já vinstri grænir eru á móti mörgu. En Vinstri grænir móta heldur ekki stefnu sína eftir skoðanakönnunum. Þeir hafa skýra hugsjón um réttlæti, jöfnuð og bræðralag allra manna. Þeir vilja að Ísland verði herlaust land þaðan sem aldrei verður farið með rangsleitni gegn öðrum þjóðum.
Jón Torfason