Fara í efni

Írak og Spánn – mars 2004

Nú er ár liðið frá því árásin á Írak hófst. Og eftir þrjá mánuði verða stjórnarskipti í Írak þar sem Írakar munu fá fullveldi. Það hefur því margt gerst á einu ári og ljóst er að margt mun gerast á næstu mánuðum og árum.
Hin nýja bráðabirgða stjórnarskrá Írak er að mörgu leyti merkilegt og sögulegt plagg. Stjórnarskráin er söguleg að því leytinu til að þetta er metnaðarfull yfirlýsing sem á sér fáar hliðstæður í þessum hluta heimsins. Talað er um að Írakar séu sjálfstæð þjóð, með þrískipt vald, og að þegnar þessi hafi fullt málfrelsi, félagafrelsi og fundafrelsi. Á blaði lítur þetta vissulega vel út.
Textann er hægt að finna á heimasíðu CPA:

http://www.cpa-iraq.org/government/TAL.html

Greining Nathan J. Brown, sem kennir við George Washington University og hefur sérhæft sig stjórnarskrám Mið-Austurlanda er hér: http://www.geocities.com/nathanbrown1/interimiraqiconstitution.html

En spurningin er hvort eða hvernig sé hægt að innleiða þessa þætti í írakst þjóðfélag. Ennfremur, ef saga Íraka er einhver vísbending til dæmis stjórnmálaþróunin í tengslum við stjórnarskrána á árunum 1924-1958, þá verður stjórnarskráin sjálf  vettvangur valdabaráttunnar. Þá þróuðu Bretar ítök sín í Írak með því að skapa sterkt framkvæmdavald í gegnum konungsembættið. Það er hægt að halda því fram að þessi ráðstöfun hafi að einhverju leyti fest í sessi miðlægt og valdamikið framkvæmdavald sem náði hámarki í tíð Saddam Husayn. Þeir sem voru andstæðingar valdbeitingu Breta af þjóðernisástæðum reyndu að nýta sér löggjafarvaldið með því að veikja framgang ríkisstjórnarinnar sem olli því að öll stofnanauppbygging var hægfara.
Margir koma til með að hafna þessari stjórnarskrá nú af þjóðernisástæðum og reyna að koma í veg fyrir innleiðingu hennar á grundvelli þess að hún kemur fyrst og fremst frá Bandaríkjamönnum. Hún hefur þennan "Made in America" stimpill. Þar af leiðandi er litið svo á að hún sé einungis tæki til að festa völd Bandaríkjanna í sessi frekar en að stuðla að stofnanauppbyggingu í Írak. Þetta er eitt meiriháttar vandamál sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir nú sérstaklega í Mið-Austurlöndum.
Margar fyrirætlanir þeirra eða hugmyndir svo sem áætlanir þeirra um að endurbæta menntakerfi Egyptalands og ný tillaga þeirra um frelsi og lýðræði í Mið-Austurlöndum sem þeir ætla að leggja fyrir næsta G-8 fund hafa valdið miklum deilum og úlfaþyt meðal menntamanna og stjórnmálamanna Mið-Austurlanda. Þessi andstaða er ekki vegna þess að þeir séu endilega ósammala lokatakmarkinu heldur vegna þess að þeir eru skeptískir þar sem þessi tillaga kemur frá Bandaríkjamönnum. Það er því ekki alltaf verið að deila um skilaboðin heldur hver sé talsmaður þess (enska ortakið: "blaming the messenger and not the message" á vel um hér.) Í Írak lýsir þetta sér í því viðhorfi að það sem kemur frá Bandaríkjamönnum í núverandi hernámsástandi sé ekki til að bæta hag Íraka heldur til að festa ennfrekar nýlendustefnu Bandaríkjanna.

Varðandi 11 mars; Spán og tengsl við al-Qaeda:

Ég er ekki sérfræðingur í málefnum Spánar og kann til dæmis ekki að lesa spænsku. En ég hef kynnt mér nokkuð vel hugmyndafræði og starfsemi samtaka á borð við al-Qaeda. Það er vissulega enn of snemmt til að segja til um hvort að al-Qaeda standi bak þessarar árasar. En ég vil koma eftirfarandi punktum á framfæri til að hafa í huga meðan að enn er verið að vinna úr þessum málum.

1) Það er löngu orðið ljóst að hugtakið al-Qaeda er orðið nokkuð úrelt eða of teygjanlegt til að hafa eitthvað skýringargildi. Þegar sagt er að eitthvað hafi tengsl við al-Qaeda ,er ekki svo skýrt fyrir mér við hvað er átt nákvæmlega með því. En hafa ber í huga að það virðist sem al-Qaeda séu orðin einhverskonar "franchise" samtök á borð við McDonalds þar sem þó nokkuð mörg samtök virðast vinna sem undirverktakar þess. Mér finnst frekar ólíklegt að hægt sé að sýna fram á að Bin Laden og al-Zawahiri hafi skipulagt árásirnar til dæmis í Túnis, Tyrklandi, Bali, Spáni, Sádi Arabíu og öðrum ólíkum stöðum. Það er möguleiki á því að þetta hafi verið sjálf al-Qaeda samtökin. Líklegra er þó að hér hafi verið sjálfstæð eining sem fylgir svipaðri hugmyndafræði og al-Qaeda. Hugsanlega hafa einhverjir armar þess byrjað að eiga samvinnu við ólíka hópa, til að mynda ETA. Það eru mörg fordæmi fyrir því að ólík hryðjuverkasamtök starfi saman  skamman tíma.

2) Spánn, eða al-Andalus eins og það er kallað oft í skrifum Islamista, hefur verið að einhverju leyti áberandi í skrifum og ræðum al-Qaeda. Ég man eftir fjölmörgum dæmum á ýmsum arabískum vefsíðum al-Qaeda árið 1999 og 2000 (sem eru nú ekki lengur til staðar) þar sem fram kom að nauðsynlegt væri að ná fram hefndum á "reconquesta" kristinna manna í al-Andalus þegar muslimar voru gerðir brottrækir frá Spáni. Spánn hefur því mjög táknræna merkingu fyrir al-Qaeda sem svæði þar sem Muslimar hafa misst tökin (en það eru ekki mörg slík svæði í heiminum.)

3) Það er oft talað um að ýmsar leyniþjónustur verði varar við að "chatter" í undirheiminum sé að aukast eða að minnka og það sé til marks um það ef einhverjir eru að undirbúa einhverja aðgerð. Það virtist ekki hafa verið nú. Þannig að þetta var "chatter" laus aðgerð og sýnir kannski enn og aftur hversu illa gengur hjá leyniþjónustunum að fylgjast með þessum hópum.

4) Árásin vekur upp spurningar um árangurinn í stríðinu gegn hryðjuverkum. Stríðin gegn Afghanistan og Írak virðast ekki hafa aukið öryggi heimsins eins og sakir standa.

5) Það er einkennilegt að þeir sem framkvæmdu þessa hryllilegu aðgerð, en hún var vissulega vel útfærð og skipulögð, skyldu hafa skilið eftir jafn áberandi sönnunargagn og sendibílinn sem fannst með sprengjuefninu og spólunni með söngvum úr Kóraninum. Var þetta með ráði gert? Hafa ber í huga að þann 11. september fannst einnig bíll Muhammad Atta við Logan flugvöllin í Boston þar sem einnig var eintak of Kóraninum.

6) Lögreglan hefur komið í veg fyrir stórtækar aðgerðir ETA að undanförnu. Ég fann allavega þrjár slíkar greinar á vef BBC og CNN:

a)

http://news.bbc.co.uk/1/hi/world/europe/3520071.stm

b)

http://edition.cnn.com/2003/WORLD/europe/12/26/spain.bomb/

c)http://edition.cnn.com/2001/WORLD/europe/11/08/spain.tower/

7) Ég á erfitt með að túlka skotmark þessarar árásar. Oft er sagt að skilaboð árásarinnar felist í skotmarkinu. En hvað voru skilaboðin nú? Þann 11 september voru skotmörkin áberandi stofnanir fjármálavalds og hernaðarvalds. Þá hafa átt sér stað árásir á bandaríska flotann (USS Cole) eða bandarísk sendiráð. En nú var gerð árás á jarnbrautakerfi Spánar og sérstaklega á leið þar sem flestir farþegarnir eru úr verkamannastétt og upptil hópa innflytjendur. Þetta voru ekki hinir voldugu og ríku í spænsku samfélagi. Aðrar árásir til að mynda þær í Marókko, Tyrklandi, Bali og Sádi Arabíu beindust gegn venjulegum borgurum. Í Balí og Sádi voru það fyrst og fremst útlendingar sem urðu fyrir barðinu. Það er umhugsunarefni ef þetta er í raun boðberi þess sem koma skal í Evrópu eða víðar.

8) Sumir hafa sagt að þessi árás tengist stuðningi Spánar við Írak stríðið. Það er hugsanlegt. En hafa ber í huga að al-Qaeda, allavega þeir sem tengjast kjarnanum svo sem Bin Laden, voru ekki mikið að skipta sér að hverjir voru að styðja árásina á Írak eða ekki. Margir Islamistar fögnuðu einmitt Írakstríðinu sem tækifæri til að veikja hernaðarveldi Bandaríkjanna og að Bandaríkjaher yrði auðvelt skotmark í Írak. Þannig að það er ekki ljóst, ef um sjálf al-Qaeda sé um að ræða hvort það tengist stuðningi Spánar við Írakstríðið. Það er þó hugsanlegt að þessir aðilar líti svo á að ríkisstjórn Spánar sé strengjabrúða og þar af leiðandi samnefnari Bandaríkjanna í Evrópu. Þess vegna finnst mér líklegra að um sé að ræða "verktaka" al-Qaeda og tengist að einhverju leyti innanríkismálefnum Spánar og samskiptum þeirra við önnur ríki eins og Marokkó eða Túnis frekar en alheimshugmyndafræði al-Qaeda.

9) al-Qaeda hafa verið með einhverja starfsemi fram að þessu í Spáni. Rétt eins og Þýskaland var Spánn einhverskonar miðstöð þess í meginlandi Evrópu.

Með kveðju, Magnús Þorkell