Fara í efni

Hann komst aldrei til kostnaðarvitundar

Verslunarráð Íslands hefur að undanförnu sýnt snarpa tilburði til vitundarvakningar meðal sjúklinga um allan kostnaðinn sem af þeim hlýst og samfélagið þarf að borga. Vakningin felst í því að rækta með sjúklingum hina göfugu kostnaðarvitund. Dugir þá lítt að mati ráðsins að upplýsa þá með einhverjum saklausum kostnaðaryfirlitum eða málamyndareikningum. Eina leiðin til að efla og virkja kostnaðarvitundina er að fólk finni fyrir útgjöldunum á eigin pyngju og það gerist ekki nema með stóraukinni þátttöku einstaklinganna í kostnaðinum.

Hvað kostar að fá í eyrun?

Orðið kostnaðarvitund er ekki gamalt í íslenskunni og líklega ekki nema rétt liðlega tvítugt. Þetta orð er ágætt til síns brúks og tiltölulega gegnsætt, rétt eins og eldri orð með vitundar-endingunni. Má þar m.a. nefna orðin meðvitund, undirmeðvitund, siðferðisvitund, þjóðernisvitund og stéttarvitund. Lengi fram eftir síðustu öld var mikið lagt upp úr stéttarvitund og þjóðernisvitund en í dag er kostnaðarvitundin mál málanna og segir þróunin sína sögu um þá hugmyndastrauma sem leika um heimsbyggðina á hverjum tíma.
Fyrst framan af var orðið kostnaðarvitund bundið við þröngan hóp hagspekúlanta en varð svo almenningseign í heilbrigðisráðherratíð jafnaðarmannsins Sighvats Björgvinssonar árin 1991-93 þegar sú ríkisstjórn sem hann sat í reyndi fyrst allra að rjúfa ríkjandi einingu um samábyrgð og jöfnuð í heilbrigðismálum þjóðarinnar. Svo rammt kvað að útbreiðslu orðsins að þegar foreldrar kvörtuðu undan auknum útgjöldum heimilanna vegna veikinda barna sinna voru meira að segja blessuð smábörnin með á nótunum og sögðu hughreystandi: “En mamma, þetta er nú bara hluti af þessu kostnaðarvitundardæmi,  sjúklingaspilinu hans Sighvats, og ég get alveg kaupt sýklapillurnar sem láta mér batna í eyrunum.”

Kostnaðarvitund og meðvitund

Síðan þetta gerðist hefur kostnaðarvitundarkrafan vofað yfir þjóðinni en nú hefur Verslunarráð Íslands tekið við kostnaðarkeflinu og reynir að spretta úr spori af sama krafti og hann Sighvatur forðum, sem að eigin sögn var blóðugur upp að öxlum við niðurskurð á sameiginlegum útgjöldum til heilbrigðiskerfisins og innleiðingu kostnaðarvitundarkerfisins. Verslunarráðið hefur með málflutningi sínum sýnt mikið meðvitundarleysi gagnvart samfélagslega rekinni heilbrigðisþjónustu og þar af leiðandi sýnt hreinræktaða óskammfeilni í garð sjúklinga. Og sama hugmyndafræði og Verslunarráðið veifar nú með látum blundar einnig innan stærstu stjórnmálaflokka landsins. Það er því engin spurning að sækja verður fram af krafti gegn sérhyggjunni og reyna með því að rækta meðvitund þessara öflugu minnihlutahópa um gildi sameiginlegs heilbrigðiskerfis þar sem eitt er látið yfir alla ganga, óháð efnahag. Þannig heilbrigðiskerfi vill meirihluti þjóðarinnar en hefur akkúrat engan áhuga á að hlusta á dánarfregnir í frjálshyggjustíl sem gætu hljóðað einhvern veginn á þessa leið:
“Jón Jónsson rithöfundur er látinn, aðeins 47 ára að aldri. Banamein hans var opið beinbrot og slæm ígerð sem fylgdi í kjölfarið. Jón var með fullri meðvitund til hinstu stundar en komst aldrei til kostnaðarvitundar og lést á heimili sínu aðfararnótt þriðjudags.”
Þorleifur Óskarsson