Fara í efni

Fórnarkostnaður kynjajafnréttis

Við upplifum magnaða tíma í jafnréttisbaráttunni og þegar við lítum til baka eftir nokkur ár munum við minnast þessara tíma sem þriðju bylgju femínismans. Fyrsta bylgjan var barátta fyrir formlegu jafnrétti, kosningarétti kvenna og réttinum til að stunda nám á við karlmenn. Önnur bylgjan er oft kennd við rauðsokkurnar, en þá þegar var orðið ljóst að lagalegt jafnrétti væri ekki nóg. Meira þurfti að koma til og baráttan gegn hinum hefðbundnu kynjahlutverkum hófst fyrir alvöru. Launajafnrétti var sett á oddinn og barátta kvenna fyrir að stjórna eigin líkama sömuleiðis. Upp úr þessari bylgju spruttu meðal annars jafnréttislögin sem kveða á um sömu laun fyrir sambærileg störf svo og baráttan gegn kynbundu ofbeldi.
Það er alltaf erfitt að greina hlutina á meðan þeir eru að gerast og fróðlegt verður að sjá hvernig feminísk söguskýring fer með samtímann eftir nokkra áratugi. Það sem augljóslega hefur áhrif á þessa bylgju sem nú rís hátt er hin gríðarlega markaðsvæðing sem hefur tröllriðið öllu síðustu ár og skertur hlutur kvenna í þeirri væðingu. Konur horfa upp á valdið færast í auknum mæli til fjármálafyrirtækja og unga karla klífa metorðastigana hátt í þessum heimi einstaklingshyggju. Konur eru vart sýnilegar í fjármálaheiminum og í krafti einstaklingsfrelsis er þeim sópað út af framboðslistum til að rýma fyrir ungum strákum til áhrifa.
Sú klámvæðing sem við verðum vitni að hér á landi á sinn þátt í samþjöppun femínista. Hlutgerving kvenlíkamans er þar í algleymi eins og sést á nektardansstöðum, í auglýsingum og tónlistarmyndböndum svo eitthvað sé nefnt. Meira að segja heyrast raddir um frelsi kvenna til að selja aðgang að líkama sínum og frelsi karla til að kaupa konur. Einstaklingshyggjan er þar orðin ofar manngildinu eða eigum við að segja kvengildinu. Allt snýst þetta þó um neyslu eins kyns á öðru. Karlmenn eiga að fá að neyta kvenna eins og hverrar annarrar vöru og alls staðar fá ungir karlar þau skilaboð að þetta sé í stakasta lagi og konur jafnvel njóti þess.
Við eigum að vera komin það langt í sögulegri reynslu okkar að við vitum að jafnrétti næst ekki nema með handafli. Markaðurinn sem öllu ræður um þessar mundir er ófær um að koma á jafnrétti kynjanna því enn eru konur aðeins með hluta af launum karla og það er varla af því að þær eru ekki jafn hæfar. Markaðurinn hefur ekki náð að leiðrétta þennan mun og hann kemur konum ekki að kjötkötlunum þar sem völd og peninga er að finna. Það sem markaðurinn hefur hins vegar gert er að koma konum upp á danssvið til að bera á sér líkamann fyrir karla sem hafa vald og peninga til að borga fyrir það.
Það sem femínistar hafa hins vegar lært af sögunni er að alltaf þegar kvenréttindi komast í hámæli rís líka upp andstaða gegn þeim. Þegar konur kröfðust kosningaréttar var talað um að það myndi skemma þeirra göfuglyndi að taka þátt í stjórnmálavafstri og þegar konur kröfðust leikskólavistar fyrir börn og frjálsra fóstureyðinga voru þær nefndar morðingjar og kaldlyndar mæður sem vildu stofnanavæða börn. Árangur þessarar baráttu teljum við hins vegar sjálfsagðan í dag og fáir mótmæla kosningarétti kvenna eða leikskólum í hinni almennu stjórnmálaumræðu. Þeir hinir sömu myndu sennilega ekki hljóta brautargengi í næstu kosningum.
En lítum aðeins á andstöðuna sem er í dag. Talað er um að konur eigi ekki að njóta kyns síns þegar um stöðuveitingar er að ræða og jafnvel talað um mannréttindabrot í þeirri umræðu. Þá gleymist hins vegar að karlar njóta kyns síns í hvívetna þegar ráðið er í embætti og stöður og sömuleiðis við launaákvarðanir. Það gleymist líka að jákvæð mismunun gengur í báðar áttir. Ef karl sem er jafnhæfur öðrum umsækjendum um tiltekna stöðu og konur eru þar fyrir í meirihluta ber að ráða karlinn. Þetta ákvæði reynir hins vegar á í mun minna mæli og segir það sína sögu um stöðu kvenna í samfélaginu.
Við munum ganga í gegn um sársaukafullar breytingar á komandi árum. Það er ljóst að til þess að jafnrétti náist þarf eitthvað undan að láta og þetta eitthvað er hluti af valdi karlmanna. Sú andstaða sem við upplifum í dag er sprottin af nákvæmlega sömu rótum og öll andstaða fyrri tíma – sumir karlar eru ekki tilbúnir til að fórna völdum til að kynjajafnrétti megi nást. Það er hins vegar nauðsynlegur fórnarkostnaður jafnréttis að karlar láti af hendi hluta af sínu peninga- og stjórnunarvaldi í hendur kvenna. Sömuleiðis verður að sleppa valdinu yfir líkama kvenna hvort sem það brýst út í vændi, heimilisofbeldi eða öðru kynferðisofbeldi. Við megum heldur ekki gleyma því að akkur karla af jafnrétti er mikill og ber þar hæst réttur þeirra til samveru við börnin sín og sú ánægja að búa í réttlátu samfélagi.
Drífa Snædal
ritari VG