Fara í efni

Sigur skynseminnar í augsýn

Það voru gleðitíðindi fyrir kvenfrelsissinna þegar Vændisfrumvarpið svokallaða var afgreitt til annarrar  umræðu á Alþingi í vikunni. Reyndar voru stórtíðindi þar á ferð þar sem barátta framsýns fólks virðist loks skila árangri inni á þingi. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hver sem láti af hendi eða lofar að láta af hendi greiðslu eða annan ávinning fyrir vændi skal sæta sektum eða fanglesi allt að einu ári. Þetta þýðir í raun að það er ekki lengur ólöglegt að selja vændi, heldur að kaupa það eða hafa milligöngu um vændi. Ef frumvarpið nær fram að ganga er Ísland annað landið í heiminum til að fara sænsku leiðina svokölluðu.

Sú hugmyndafræði sem liggur að baki frumvarpinu er að fólk sem selur aðgang að líkama sínum gerir það úr einhvers konar neyð, félagslegri eða fjárhagslegri. Um þetta er fólk sem hefur unnið að málum er snerta kynbundið ofbeldi ekki í vafa. Nægir að vísa í innlendar- sem erlendar rannsóknir þessu til stuðnings. Reyndar er Ísland eina landið í Norður-Evrópu sem refsar enn fórnarlömbum fyrir að selja líkama sinn. Þá er spurning hver beri ábyrgðina en hún hlýtur að liggja hjá þeim sem hafa peningana, valdið og valið, þ.e. þeir sem kaupa aðgang að öðrum. Þennan skilning virðist löggjafarvaldið loksins hafa öðlast og bregst vonandi við með lagasetningu.

Það velkist enginn í vafa um að hér á landi er eitthvað um vændi. Það er nóg að lesa auglýsingar á einkamálasíðum eða bara í ákveðnum dagblöðum til að sjá hvað er í gangi. Í gagnrýnislausri lesningu gæti fólk haldið að þarna væri á ferð einstaklingar sem hefðu sérstakt yndi af tilfinningalausu kynlífi og ekki verra að fá greitt fyrir það. Jafnvel hafa heyrst þau rök að fólk eigi að hafa frelsi til að stunda þessa iðju. Slík rök eru í besta falli byggð á þekkingarleysi en í því versta algerri vanvirðingu. Ég fullyrði að hjá flestum þeim sem stunda vændi er það blekking til að halda sjálfsvirðingunni að hafa gaman af iðjunni. Það byggi ég á upplýsingum sem ættu að vera öllum aðgengilegar sem vilja kynna sér málin.

Það er reyndar sérstaklega ánægjulegt að meirihluti þingfulltrúa virðist hafa lagt sig fram um að afla sér þekkingar á málinu enda er þetta í fimmta sinn sem frumvarpið er lagt fram og töluverð umræða hefur verið í þjóðfélaginu, ekki síst fyrir síðustu þingkosningar. Á grundvelli þessarar þekkingar er einungis hægt að komast að einni niðurstöðu, þeirri sem lagt er til í frumvarpinu.

Til að uppræta vændi og koma í veg fyrir að ungt fólk lendi í þeim pytti þurfa einnig að koma til félagsleg úrræði. Lagasetningin ein og sér er ekki næg heldur þarf að koma til fræðsla til allra fagaðila sem geta veitt fórnarlömbum aðstoð. Lögreglan, dómarar, félagsmálayfirvöld, fólk innan heilsugæslunnar og svo framvegis þurfa að vera meðvituð um hvernig best er að taka á þessum málum þegar þau koma upp. Aðstoð til handa þeim sem ætla að snúa baki við því ofbeldi sem vændi er þarf að vera til staðar og skilningur á slíku starfi af hendi yfirvalda. Þá má einnig nefna námskeið fyrir þá sem dæmdir verða fyrir kaup á vændi og almennar forvarnir. Lagasetningin er því ekki endapunktur heldur góð byrjun á því að vinna á þeim smánarbletti sem vændi er í samfélaginu.

Drífa Snædal ritari VG