Fara í efni

Spennandi dagar

Ríkisstjjórnarmeirihlutinn hyggst setja lög sem takmarkar samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Þessu hefði undirritaður satt að segja ekki trúað fyrir fáum mánuðum. Hægri menn, einkum þeir í yngri kantinum, hafa þvert á móti talað um að markaðurinn ætti að ráða þessu sem öðru, og ekki nóg með það: Þeir hafa viljað selja Ríkisútvarpið og geta menn rétt ímyndað sér hvernig umhorfs yrði á fjölmiðlamarkaði eftir fáein ár ef sú ,,hugsjón” næði fram að ganga og engar takmarkanir væru eignarhaldi á fjölmiðlum. Umræður um málið hafa verið óvenju hvassar, og eins og stundum áður virðast margir ekki geta greint á milli aðal- og aukaatriða. Margir þingmenn stjórarandstöðunnar virðast ætla að leggjast af hörku gegn málinu vegna þess eins að Davíð Oddssyni kann að vera í nöp við Baug, en sjá ekki mikilvægi þess að víðtæk samstaða geti tekist um að setja reglur sem hamla gegn samþjöppun á þessum markaði.

Sigurður Líndal prófessor sagði í Fréttablaðinu um sl. helgi að menn ættu ekki að setja lög af heift. Hann hefur vísast rétt fyrir sér, að minnsta kosti að nokkru leyti. Líklega má með rökum halda því fram að þingmenn ættu alla jafna að vera í sæmilegu jafnvægi þegar þeir setja lög, en tilfinningalausir mega þeir ekki vera. Reyndar má benda á að löggjöf batnar ekki alltaf við vandlega íhugun. Þannig hefur núverandi þingmeirihluti, einatt eftir ,,vandlega íhugun”, reynt hvað hann hefur getað til að skerða hlut öryrkja og hefur tekist á ágætlega upp í þeim efnum og ekki beygt sig fyrir skynsamlegum lausnum fyrr en eftir að hafa verið dæmdur til þess af hæstarétti og það ítrekað. Stundum er eins og meint heift forsætisráðherra í garð Baugs, beinist líka að Öryrkjabandalaginu, eða jafnvel formanni þess.

Ríkisstjórnin stærir sig af að hafa sett rýmilega umgjörð – væntanlega að vel yfirveguðu ráði – fyrir atvinnulífið að starfa eftir og haft hugtakið frelsi að leiðarljósi. Hugmyndaríkir bisnissmenn hafa ekki látið segja sér tvisvar til hvers má nýta frelsið í viðskiptum. Nokkrir þeirra hafa farið eins og stormsveipur um atvinnulífið með úttroðna budduna í annarri hendi og erlend lán í hinni. Hvernig þetta mikla frelsi kemur hinum lakast settu til góða er aftur á móti ekki jafn augljóst, enda mótast ,,frelsi” þess hóps af því að hafa of lítið á milli handanna en ekki ofgnótt og hefur pólitísk áhrif í samræmi við það.

Svo undarlega sem það hljómar virðist hin sama ríkisstjórn, sem stærir sig af að hafa aukið frelsið í atvinnulífinu, hafa áttað sig á að til eru menn á markaði sem vilja nýta sér frelsið til að ráða fjölmiðlum og afþreygingu, rétt eins og lunganum úr verslun á neysluvörumarkaði fyrir utan allt annað. Og það sem meira er: hún virðist skilja að nú sé of langt gengið. Þá bregður svo við að fjölmargir sem látið hafa í sér heyra um málið rjúka upp til handa og fóta og telja vá fyrir dyrum og segja að hugmyndir ríkisstjórnarinnar um að hamla gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði sé atlaga að tjáningarfrelsinu! Fram komið frumvarp á samkvæmt þessu að vera til marks um það eitt að forsætisráðherrann þoli ekki Jón Ásgeir Jóhannesson og ekki nái nokkurri átt að setja lög grundvölluð á heift eins manns.

Satt er það að forsætisráðherra gengur nokkuð vasklega til verks, meira af kappi en forsjá – það hefur hann reyndar gert oft áður t.d. í málefnum öryrkja – og ekki sýnist hann hafa mikla löngun til að ná einhvernsskonar sátt um málið. En breytir það kjarna þess? Væri frumvarpið ,,gott” ef Jón Ásgeir og Davíð spiluðu saman bridge annan hvern fimmtudag? Og svo má spyrja úr hinni áttinni: væri ekkert athugavert við það að Baugur eignaðist átölulaust bróðurpart fjölmiðlanna ef Davíð og Jón væru aldavinir?

Sem betur fer eru flestir á því að rétt sé að setja löggjöf um þetta svið, ekki sé hægt að una því að örfáir aðilar nái öllum fjölmiðlum undir sína regnhlíf. Um leið hafa fáir, nema ef til vill Samfylkingin, trú á að nægjanlegt sá að setja reglur sem tryggi svokallað ,,sjálfstæði” ritstjórna. Vafalaust má gera eitthvað í þá veru en hitt er jafn ljóst að ekki er hægt að lögþvinga eiganda fjölmiðils til að hafa fólk í vinnu sem hann vill ekki hafa. Ritstjórnir verða alltaf í sama liði og eigandinn þegar til lengdar lætur, og verða að hlíta þeim reglum sem hann setur, eða dettur nokkrum í huga að fréttamönnum Ríkisútvarpsins myndi haldast uppi að flytja fréttirnar á ensku eða þýsku?

Næstu dagar – jafnvel vikur – verða spennandi. Verður hægt að sníða verstu agnúana af frumvarpi ríkisstjórnarinnar, ná einhverskonar ,,sátt” um málið og verja tjáningarfrelsið fyrir óhóflegu valdi stóreignamanna? Samfylkingin og Frjálslyndir virðast ætla að halda sig við kröftuga andstöðu en hvað gerir VG?

Sú spurning hlýtur að vera á réttu stað í þessum miðli!
hágé.