Fara í efni

Hryðjuverk og pólitískt vald

Hryðjuverk setja svip á hina pólitísku umræðu samtímans. Tíðindum af skelfilegum hermdarverkum linnir ekki, myndir blasa hvarvetna við af eyðileggingu, þjáningum og blóðsúthellingum. Í slíkum aðgerðum eiga margir hlut að máli: skæruliðahópar, einræðisherrar og lýðræðislega kjörin stjórnvöld leggja þar öll hönd á plóginn. Á þessari heimasíðu hafa menn velt því fyrir sér hvort unnt sé að setja hryðjuverk undir einn hatt: eru hryðjuverk Palestínuaraba réttlætanlegri eða jafnvel “göfugri” en hryðjuverk Ísraelsmanna? Eða eru þau sama eðlis, unnin af svipuðum hvötum í sama tilgangi? Hvaða hugmyndafræði er að baki hryðjuverkum í nútímanum? Geta hryðjuverk yfirleitt átt rétt á sér? Spurningum af þessu tagi er ekki auðsvarað en þær eru svo sannarlega þess virði að um þær sé fjallað.

Saga Palestínu á tuttugustu öld hlýtur að vekja samúð með málstað Palestínuaraba. Um miðjan fimmta áratuginn voru Arabar um tveir þriðju hlutar þeirra tveggja milljóna sem bjuggu á svæðinu. Gyðingum fór fjölgandi í Palestínu þegar leið að stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Eitt af því fyrsta sem Ísraelsmenn gerðu eftir stofnun ríkisins var að leggja undir sig tvo þriðju hluta þess lands sem ætlað var Palestínuaröbum, um helmingur íbúanna flýði land eða var rekinn úr landi. Árið 1967 lögðu Ísraelsmenn síðan undir sig það sem eftir var og hafði fram til þess tíma verið undir stjórn Egyptalands og Jórdaníu, um hálf milljón Palestínuaraba flýði land. Þótt stórum hluta landsins hafi verið skilað samkvæmt friðarsamningum hefur heimsbyggðin horft upp á ríkisstjórn Ísraels vinna markvisst gegn friðarsamingum sem gerðir hafa verið. Ekkert mál hefur fengið eins mikla umfjöllun innan Sameinuðu þjóðanna og málefni Palestínu, á heimasíðu samtakanna er sagan rakin í smáatriðum.

Sagan talar sínu máli um markvissa tilraun Ísraelsmanna til að hrekja Palestínuaraba úr landi sínu eða útrýma þeim. Forsætisráðherra Ísraels, Ariel Sharon, hefur aldrei verið talinn friðarins maður og síst af öllu hefur hann látið í ljósi velvilja til Palestínuaraba.

En hverjir eru það sem vinna hryðjuverk? Eru það aðeins einstaklingar og skæruliðahópar úr röðum Palestínumanna? Hvað um Ísraelsríki? Noam Chomsky hefur bent á hversu afstætt hugtakið hryðjuverk er, hann hefur einmitt bent á söguna í því sambandi og tínt til fjölda dæma þar sem ríkisvaldið sjálft fremur hryðjuverk (í bókinni Power and Terror, 2004). Hann bendir á hversu mörg ríki í heiminum fögnuðu því að Bandaríkin sögðu hryðjuverkamönnum stríð á hendur eftir hryðjuverkaárásina á New York, mörg þeirra, segir hann, vegna þess að þau voru sjálf að fremja hryðjuverk eða höfðu gert það í stórum stíl, m.a. Tyrkir sem höfðu hrakið milljónir Kúrda brott úr héruðunum í Austur-Anatolíu, eytt þorpum þeirra í þúsundatali og drepið þá í tugþúsundatali. Við stríðsréttarhöldin í Nürnberg voru Þjóðverjar dæmdir fyrir stríðsglæpi. En þegar borg eins og Dresden, ein fegursta borg Evrópu, var nánast lögð í rúst í stríðslok (13.–14. feb. 1945) með gífurlegu mannfalli, voru það ekki stríðglæpir, svo dæmi sé tekið. Annað dæmi hans eru eyðileggingar Þjóðverja á flóðgörðum í Hollandi í síðari heimsstyrjöldinni sem metnar voru sem stríðsglæpir en nokkrum árum síðar létu Bandaríkjamenn sprengjum rigna yfir Norður-Kóreu og sprengdu í því sambandi mikla flóðgarða sem gerðu hrísgrjónaræktun að engu á stórum svæðum. Enginn var dreginn fyrir dóm vegna þeirra glæpa. Loks rekur Chomsky dæmin frá Víetnam, sú saga er honum hugleikin, ekki síst vegna þess forvarnargildis sem hún ætti að hafa fyrir pólitík framtíðarinnar. Niðurstaða Chomsky er því þessi: glæpur er aðeins stríðsglæpur ef hann er unninn af öðrum en “okkur”.

Ofbeldi og yfirgangur ríkisstjórnar Ísraels hefur viðgengist í skjóli þeirrar samúðar sem Gyðingar hafa notið vegna helfararinnar á tímum nasismans og þeir hafa einnig notið samúðar vegna þess að hér er hin “útvalda þjóð” að snúa aftur til “fyrirheitna landsins”. Harvardprófessorinn Harvey Cox, sem er giftur Gyðingakonu en er sjálfur baptisti og virtur guðfræðingur, hefur bent á það í áhugaverðri bók um kynni sín af gyðingdómi að viðhorf Bandaríkjaforseta hafi öðru fremur mótast af trúarviðhorfum, hann nefnir Truman forseta í þessu samhengi en hann undirritaði sáttmálann um stofnun Ísraelsríkis 14. maí 1948 í trássi við nánast einróma andstöðu ráðgjafa sinna og sérfræðinga stjórnarinnar. Einnig nefnir hann Reagan forseta og fullyrðir að viðhorf hans til Palestínu hafi eingöngu mótast af því sem hann hafði lært í sunnudagaskólanum um hið fyrirheitna land og guðsútvöldu þjóð. Báðir voru þeir undir áhrifum af þeirri kenningu að hin útvalda þjóð ætti að safnast saman í hinu fyrirheitna landi í fyllingu tímans skv. 5. Mósebók 1,8.: “Sjá, ég fæ yður landið. Farið og takið til eignar landið....” (Harvey Cox: Common Prayers, 2001, bls. 174-5).

Ísraelsmenn hafa fyrir löngu gengið of langt og ofboðið heimsbyggðinni með því að beita miskunnarleysi og grimmd í samskiptum við fátæka þjóð sem berst vonlítilli baráttu fyrir mannréttindum og landi til að lifa á; óhætt er að fullyrða að baráttan við ofureflið nýtur vaxandi samúðar heimsbyggðarinnar. Reiði Palestínuaraba er skiljanleg án þess að vera réttlætanleg en hins vegar njóta hryðjuverk Ísraelsríkis ekki stuðnings þeirra sem horfa til réttlætis og mannréttinda. Það hefur verið mörgum ráðgáta hvernig það má vera að einmitt Gyðingar hafi beitt aðferðum nasista í baráttu sinni. 

Hryðjuverk eru ekki ný af nálinni, þau setja svip sinn á evrópska sögu allt frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Í bókinni Terror and Liberalism (2003), sem vakið hefur mikla athygli víða um heim, hefur Paul Berman gert þessu efni góð skil. Hann rekur hvernig einræðiskenningar settu svip á pólitíska baráttu aldarinnar: rússneski kommúnisminn, ítalski fasisminn, þýski nasisminn og spænska krossferðin fyrir kaþólsku þjóðríki: heimurinn var svart/hvítur, þar var aðeins um gott eða illt að ræða, hinu illa skyldi útrýmt með öllum ráðum, einnig með hryðjuverkum, ofbeldi, skemmdarverkum, limlestingum og dauða. Framundan var hið hreina og heilbrigða samfélag þar sem réttlæti og friður myndu ríkja. Einstaklingar, hryðjuverkasamtök og ríkisvaldið sáu til þess að enginn hörgull var á hryðjuverkum. Bermann setur fram þá kenningu að þessi svart/hvíta heimsmynd hafi orðið útflutningsvara með öðrum afurðum Vesturlanda og hafi tekið sér bólfestu vítt og breitt um heiminn. Svart/hvít heimsmynd er vissulega sýnileg meðal herskárra múslima og meðal annarra Araba. Og hún er ekki ókunnug vesturlöndum eins og áður segir, Bandaríkin þekkja hana vel, ekki síst hinir herskáu trúarhópar sem hafa haft vaxandi áhrif á stjórnvöld vestanhafs. Leiðin til sátta er ekki leið hryðjuverkanna, ekki heldur leið hinna hörðu viðbragða að mati Bermans, heldur leið sátta. Viðbrögð Vesturlanda mega ekki mótast af viðhorfum hinnar svart/hvítu heimsmyndar heldur hins litríka samfélags þar sem menn gera sér far um að búa saman í þessum heimi þar sem mannúð og réttlæti er í hávegum haft.

Von heimsins er hvorki í hryðjuverkum né svart/hvítum heimsmyndum hverrar ættar sem þær eru. Vonin hlýtur að tengjast þeim arfi sem heimurinn þekkir í fordæmi Gandhis, Kings og Mandela: það er boðskapur um mannúð og mannréttindi, um samúð og sáttargjörð, þeir höfnuðu ofbeldi og hryðjuverkum með öllu.

Það er ekki langt síðan Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin, Evrópusambandið og Rússneska ríkjasambandið stofnuðu “kvartettinn” í þeim tilgangi að endurvekja vonir þess fólks sem býr við botn Miðjarðarhafsins. Vonandi hafa þessir voldugustu valdamenn heimsins erindi sem erfiði svo að hryðjuverkum linni.         

_________________________________