Fara í efni

Nú er nóg komið

Ég fagna því alveg sérstaklega hve kröftug umræða er nú hafin um nýjar leiðir til þess að stöðva ofbeldið í Palestínu. Mannréttindahópar í Ísrael á borð við Gush Shalom  og að sjálfsögðu baráttusamtök Palestínumanna ræða nú þessa spurningu í ljósi þess að hefðbundin mótmæli virðst ekki duga. Þú hefur beint spurningum, Ögmundur, til félagsins Ísland-Palestína og velt vöngum yfir því hvort rétt sé að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Sjálfum finnst mér það vel koma til greina. Ég tel hins vegar að rétt sé að hlusta á rödd baráttumanna úr röðum Palestínumanna hvað þetta snertir. Á sama hátt og við létum stjórnast af tilmælum frelsissamtaka svartra manna í Suður-Afríku, ANC, um viðskiptabannið sem gripið var til gegn kynþáttastjórninni þar í landi, eigum við að gera slíkt hið sama í þessu tilviki.
Mustafa Barghouti, einn helsti talsmaður Palestínumanna hefur fyrir hönd grasrótarsamtakanna GIPP (Grassroots International Protection For The Palestinian People) sent ákall um að sniðganga Ísrael á vissum afmörkuðum sviðum; sviðum sem svíða ef svo má að orði komast.(sjá hér)

Of dauft yfir viðbrögðunum

Mustafa Barghouti, sem einnig fer fyrir ssmtökum lækna, hefur komið hingað til lands. Hann lýsti þá mikilli ánægju með þann stuðning, sem frelsisbarátta Palestínumanna hefur fengið hér á landi. Hann hefur þó jafnframt sagt að sér finnist mótmæli heimsbyggðarinnar vera daufleg. Það eru orð að sönnu. Með hliðsjón af því hrikalega ofbeldi og glæpum, sem eru framdir fyrir opnum tjöldum er ótrúlegt að mótmælin séu ekki öflugri en raun ber vitni. Ofbeldið í Palestínu er sýnilegt – en aðeins að hluta. Frásagnir úr fangelsum Ísraela benda til þess að pyntingarnar, sem heimurinn hefur orðið vitni að í íröskum fangelsum Bandaríkjahers, séu ekki einsdæmi og að öllum líkindum daglegt brauð í ísraelskum herfangelsum.

Eru menn undrandi yfir því að til verði hryðjuverkamenn?

Þegar fólk kemur úr slíkri meðferð er það skaddað á líkama og sál fyrir lífstíð. Og spyrja má: Eru menn undrandi yfir því að til verði hryðjuverkamenn? Væri það ekki nánast ofurmannlegt að sleppa út úr fangelsi eftir linnulausa og skipulagða niðurlægingu og pyntingar án þess að viðkomandi sjálfur eða einhverjir úr hans nánasta umhverfi vilji svara fyrir sig – svara hryðjuverkaherjum Ísraels.
Þetta er mannlegt og skiljanlegt. Raunhæfasta leiðin til árangurs er hins vegar að virkja  allan heiminn í þágu friðar. 

Ég heiti á alla...

Við þurfum að tala hárri og skýrri röddu gegn ofbeldinu og nota hvert einasta tækifæri sem gefst til að sýna Palestínumönnum samstöðu. Slíkt tækifæri gefst nú um helgina. Félagið Ísland-Palestína efnir til útifundar á Ingólfstorgi laugardaginn 5. júní kl 14 og er fundurinn haldinn til að mótmæla stríðsglæpum Ísraelshers í Rafah á Gazaströnd. Þann 5. júní eru 37 ár liðin frá því að hernám Gaza og Vesturbakkans, að meðtalinni A-Jerúsalem, hófst með Sex daga stríðinu 1967, en þá hertók Ísraelsher alla Palestínu. Því hernámi hefur ekki enn linnt þrátt fyrir samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ísraelsstjórn fer sínu fram af mikilli grimmd gegn óbreyttum íbúum hertekinnar Palestínu og lætur sem Ísraelsríki sé hafið yfir alþjóðalög.

Kröfur fundarins eru eftirfarandi:

Stríðsglæpum Ísraelshers linni tafarlaust

Endi verði bundinn á hernámið

Réttur palestínskra flóttamanna til að snúa heim aftur

Frjáls og fullvalda Palestína.

Ég heiti á alla sem nokkurn kost eiga á, að sækja þennan fund. Allri heimsbyggðinni verður að skiljast: Að nú er nóg komið.