Fara í efni

Er vinstri tími Halldórs að koma?

Halldór Ásgrímsson hefur rétt fyrir sér í því að stjórnmálaflokkar eigi ekki að flökta eftir skoðanakönnunum – þeir geta neyðst til að taka erfiðar ákvarðanir sem ekki eru til skammtíma vinsælda fallnar. Aftur á móti skjátlast honum hrapallega um það að Framsóknarflokkurinn eigi undir öllum kringumstæðum að flökta eftir Sjálfstæðisflokknum til þess eins að halda gangandi ríkisstjórnarsamstarfi. Þessa dagana verður þjóðin vitni að makalusri pólitískri endaleysu sem er hvort tveggja í senn til skammar fyrir Alþingi og minnkunar fyrir þjóðina. Til skammar fyrir þingið vegna framkomu forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokksins og minnkunar fyrir þjóðina að hafa yfir sér slíkan þingmeirihluta sem hugsar sér að koma vilja sínum fram með ómerkilegum brellum.

Ríkisstjórnin lét þingið setja fjölmiðlalög á sama tíma og oddviti hennar og sálufélagar hans klöppuðu í sífellu þann stein að forsetinn hefði engan rétt til að skjóta samþykktum lögum frá þinginu til þjóðarinnar. Enda þótt taka megi undir það með þingmeirihlutanum að setja þurfi reglur sem takmarki samþjöppun á eignarhaldi fjölmiðla, þá hagaði forsætisráðherra sér þannig í aðdraganda málsins að stjórnarandstaðan sá sér ekki með nokkru móti fært að fylgja málinu – og ekki nóg með það: um allt þjóðfélagið magnaðist harðari andstaða við þetta háttalag en dæmi eru um í langan tíma. Ólafur Ragnar átti varla nokkurn annan kost en að synja lögunum staðfestingar, enda þótt þau væru í sjálfu sér hvorki verri né betri en mörg önnur sem hann hefur staðfest möglunarlaust. Það þarf ekki mikla spekinga til að sjá hvernig hægra liðið hefði brugðist við hefði hann skrifað undir. Þeir hefðu sagt: Ólafur Ragnar sér það sem við vitum að hann getur ekki neitað að skrifa undir lög nema að ráðherra geri það með honum!

Þetta er reyndar kostulegur útúrsnúningur á stjórnarskránni eða dettur einhverjum í hug að ráðherra sem hefur fengið sinn eigin þingmeirihluta til að setja  lög muni neita að staðfesta þau með forseta?!

Að Framsóknarflokkurinn og forysta hans skuli láta teyma sig á þeim asnaeyrum sem seinna fjölmiðlafrumvarpið vitnar um er í einu orði sagt ótrúlegt, og hlýtur að taka enda innan tíðar. Halldór Ásgrímsson hefur yfirleitt verið talinn varfærinn og ekki gefinn fyrir stráksskap að ekki sé nú talað um gönuhlaup. Framsókn hefur hinsvegar komið sér í makalausar ógöngur að því er virðist að ástæðulausu. Þótt rétt sé að setja reglur um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði þá er málið ekki svo mikilvægt að hleypa þurfi stjórskipunina í uppnám þess vegna. Aftur á móti blasir við að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefur þingrofsvaldið þannig að ef Framsókn vildi yfirgefa Sjálfstæðisflokkinn núna getur forsætisráðherra efnt til kosninga ef honum sýnist, sem er hreint ekki spennandi fyrir samstarfsflokkinn í augnablikinu. Á hinn bóginn veit Davíð að þingrofsvaldið flyst til Halldórs eftir 15. september og því sér hann í hendi sér að þessu hjartans máli verður hann að koma í gegn fyrir þann tíma. Hvers vegna? Ekki af því að líklegt sé að Halldór rjúfi þing heldur vegna þess að hann gæti sagt upp vistinni og fengið stjórnarandstöðuna í lið með sér án þess að efna til kosninga og þannig komið Sjálfstæðisflokknum út í kuldann. Þannig gæti hann orðið maðurinn sem leysti úr óleysanlegri deilu, sá sem nær sáttum og samkomulagi og kemur pólitíkinni aftur í eðlilegan fargveg. Eins og gefur að skilja mun Davíð Oddssyni, eða þeim Sjálfstæðismönnum yfirleitt, ekki hugnast þessi sýn. Í fyllingu tímans yrði ekki kosið um þau fjölmiðlalög, sem þessa dagana vefjast fyrir Alþingi í formi frumvarps, heldur um verk ríkisstjórnar Halldórs Ásgrímssonar sem þá hefði setið í tæp þrjú ár, væntanlega með efnahagsmálin í bullandi uppsveiflu. Þar að auki verður líklega búið að leysa ýmsa hnúta sem Davíð og félagar hans hafa verið að herða með dæmalausum valdhroka sínum undanfarin ár s.s samskiptin við öryrkja og m.fl.

Hvað mun gerast næstu daga er auðvitað óvíst en það gerir ekkert til að spá því að senn sé komið að endalokum þessa stjórnarsamstarfs. Fallist Davíð ekki á að láta fjölmiðlalögin ganga til þjóðarinnar og meirihluti þings asnist til að samþykkja fyrirliggjandi frumvarp, þá mun forseti synja því eins og hinu fyrra – á því augnabliki er tími Halldórs Ásgrímssonar örugglega kominn, það er að segja ef hann kærir sig um.
hágé.