Fara í efni

Hvað kaus Bin Laden?

Ég las það í Mogganum að til stæði að fjölga í “íslensku friðargæslunni” í Afganistan upp í 50. Bandaríkjamenn eru 1000 sinnum fleiri en við. Samkvæmt bandarískri stærðargráðu værum við því að senda 50 000 manna herlið til Afganistan. Ekki eru viðbrögð fjölmiðla í samræmi við þetta. Það er varla að menn gefi þessu gaum á fréttastofunum.
Á sama tíma á ríkistjórnin ekki fyrir 4 milljónum til að halda úti mannréttindaskrifstofu. Gæti verið að viðfangsefni íslenskrar mannréttindaskrifstofu standi okkur of nærri, eða öllu heldur standi Birni Bjarnasyni of nærri? Getur verið að niðurskurðurinn hjá íslensku mannréttindaskrifstofunni sé að einhverju leyti skýranlegur í ljósi þess að hún hefur gagnrýnt ýmis frumvörp ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra sérstaklega? Getur verið að þess vegna sé Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra ekkert sérstaklega um íslenska mannréttindaskrifstofu gefið?

"Mannréttindabaráttan" og herinn á Suðurnesjum

Auðvitað hljótum við að hafa á þessu fullan skilning. Það er þægilegra að sinna mannréttindabaráttu í Afganistan en á Íslandi. Sennilega eru mannréttindi skemmtilegra viðfangsefni í sæmilegri fjarlægð. Í nálægð eru þau hins vegar alltaf til ama. Mannréttindabarátta Íslendinga í Afganistan er ekki háð í tilgangsleysi. Markmiðin með henni hafa verið rækilega tíunduð í fjölmiðlum og ráðamenn leyna því ekkert hvað fyrir þeim vakir. Fram hefur komið í fréttum og fréttaskýringum að vilji Íslendinga til að þjóna Bandaríkjamönnum í Afganistan muni auka möguleika okkar á því að halda amerískum her á Suðurnesjum. Ekki verður sagt um hið unga herveldi - herveldið Ísland - að þar sé hugsað sérstaklega stórt!

Donald stillir til friðar!

Annars er ég búinn að vera veikur og þar af leiðandi ekki fylgst nógu vel með. Sérstaklega þykir mér hart að hafa ekki getað fylgst með lýðræðisvakningunni í Afganistan. Þó náði ég því að allir frambjóðendur í forsetakosningunum utan einn drógu framboð sitt til baka vegna ásakana um  kosningasvindl. Með öðrum orðum, í Afganistan virðast þeir vera á góðu róli eins og reyndar í Írak. Í morgunfréttum Útvarps var sagt að Kanar stefni enn á kosningar í Írak í byrjun næsta árs. Ekkert lát er þó á sprengingum, fangelsunum og mannvígum þar í landi. Það blæðir undan hernáminu og meir eftir því sem frá líður sjálfri innrásinni. En hver skyldi óvænt kominn til Íraks, einnig samkvæmt fréttatíma Ríkisútvarpsins í morgun? Enginn annar en Donald Rumsfeld, hermálaráðherrann bandaríski! Og tilgangurinn með Íraksheimsókninni? Tilgangurinn lá í augum uppi sagði Ríkisútvarpið – tilgangurinn var – og haldið ykkur fast – að "stilla til friðar." Donald Rumsfeld var kominn til Íraks til að stilla til friðar!

Allir kusu

Svo galið hljómar þetta í mínum eyrum að ég er eiginlega farinn að trúa því að allt hafi þetta verið martröð og skrif mín nú óráðshjal.
Það breytir því ekki að kosningaþátttaka var mikil í Afganistan, mér skilst að ef frá eru taldir óánægðu forsetaframbjóðendurnir, hafi nærri hver einasti kosningabær maður neytt kosningaréttar síns í Afganistan, þökk sé íslensku friðargæslunni.
En ef allir kusu, þá gerist ein spurning áleitin, alla vega  innra með mér, hvað skyldi Bin Laden hafi kosið og þeir Talibanafélagar allir?
Rúnar Sveinbjörnsson