Fara í efni

Baldur Andrésson: BLÓMARÆKT Í BRUSSEL

Best er að rækta blóm í brjóstum sem finna til. Í Brussel voru friðarblóm ræktuð á NATO-samkomu síðustu helgi í brjóstum valdsmanna. Reynt var að tengja löskuð hjörtu á ný og finna samhljóm í herlúðrum. Bush mætti og reyndi að stjórna kór sínum til söngs. Sumir  kórfélaga voru kvefaðir. Aðrir misstu athyglina þegar þeir hugleiddu milljónir andmælaradda við kórlaginu. Samsöngurinn varð ósamstilltur. Loft var enn lævi blandað á góðra vina fundi.

Fréttaþjónar hafa upplýst okkur um mikilvægi þess að græða hjartasárin innan NATO.

Bandaríska stríðsglæpaförin á hendur Írak olli smáværingum í vinahópnum um árið og

þann miskilning milli manna þarf að jafna, þau vináttusár þarf að græða!  Samstilla þarf

herlúðrana á ný. Segja fréttaþjónar NATO. Þá verða NATO veislurnar til ánægjuauka, svo miðaldra kallarnir klappist og kyssist.

 

Dauðasár á annað hundrað þúsunda Íraka verða ekki grædd. Örkuml hundruð þúsunda

Íraka verða ekki læknuð. Minningar um eyddar borgir, löglausar aftökur og pyntingar verða

ekki afmáðar með kórsöng í Brussel. Ekki strax.

Olían hefur lækningamátt, hún gæti orðið smyrslið sem fær hjörtu NATO-valdsmanna til

að slá í takt. Úr henni fæst mögulega hitinn til að friðarsátt ríki meðal valdhafa auðríkja NATO.

 

Sár Íraka standa opin. Olían þeirra er öðrum ætluð og friðarblómin dafna skár í Brussel en í Bagdad !  Á hinn bóginn ætla Íslendingar að gefa krónu til hjálpar munaðarlausum, sem lifðu af innrásina í Írak.  Þannig verður allt gott.  Af því við erum góð.  Þegar vel liggur á okkur.

                       23.febrúar 2005 Baldur Andrésson