Fara í efni

SIÐLEYSI VINSTRI MANNA

Mér gengur erfiðlega að skilja siðfræði hægri manna. Raunar hef ég aldrei skilið hvernig einstaklingshyggja geti verið hugsjón. Eða að Kristur geti verið leiðtoginn í lífi hægri manna, hvað þá helgaður þeim.

Ein af höfuðklisjum hægri manna er að vinstri menn geti ekki stjórnað vegna óráðsíu í fjármálum. Hannes Hólmsteinn grípur hvert tækifæri til að fara með ellefta boðorðið, sem hann kallar svo og segir vinstri menn ekki kunna að virða (fremur en hin): “Þú skalt ekki gera góðverk á kostnað náunga þíns.”

Raunar hefur mér virzt að aðal kennisetning hægri manna í siðfræði sé þessi: “Það reyna allir að svindla.” Ergo, það er því eðlilegt. “Allir reyna að komast hjá sköttum.” “Fé leitar alltaf skjóls.” Og hvað er til ráða? Hvernig er hægt að verjast þessu innbyggða siðleysi allra manna? Allra? Hvaða hægri maður kannast við þetta siðferði hjá sjálfum sér? Nei, þetta er siðferði vinstri manna. Að sjálfsögðu er lausnin einkavæðing. “Eignagleði gegn öfund vinstri manna”, var kjörorð Sjálfstæðisflokksins fyrir nokkrum árum.

Þegar ég var í Háskóla Íslands voru námslán gefins. Þau brunnu upp í verðbólgu. Þeir fengu hæstu námslánin sem höfðu efni á að vinna minnst á sumrin. Á hverjum vetri var birtur listi yfir úthlutun einstakra stúdenta og yfirleitt toppuðu listann þekktir Heimdellingar. Ekki minnist ég þess að nokkrum þeirra hafi þótt neitt athugavert að þetta upplýstist eða þeir reynt að hindra það. Vinstri menn í Háskólanum náðu völdum í stúdentarráði 1972 og þeirra höfuðkrafa var hærri námslaun gegn því að námslánin væru verðtryggð. Þannig gerðist það á þessum árum að námslánin hækkuðu og voru verðtryggð frá áramótum 1975 – 1976. Þetta var fyrsta verðtrygging lána á Íslandi. Hitt er rétt að hægri menn voru ósáttir við þessa stefnu vinstri manna.

Heimdellingarnir sem sumir toppuðu námslánalistann á sínum tíma áttu eftir að láta mikið að sér kveða í íslenzku þjóðlífi. Innreið sína hófu þeir með kjörorðinu fræga: “Báknið burt.” Nú aldarfjórðungi seinna er gaman að velta því fyrir sér hvernig hin “kalda krumla ríkisins” (Pétur Blöndal) hefur leikið höfundana, menn eins og Friðrik Sóphusson, Davíð Oddsson, Hannes Hólmstein, Baldur Guðlaugsson og nú síðast Jón Steinar Gunnlaugsson.