Hjörtur Hjartarson skrifar: STJÓRNARANDSTAÐA ÓSKAST

MORGUNBLAÐIÐ sagði í leiðara 28. apríl: "Það er ekki hægt að búa til sérstakan forréttindahóp í landinu, sem nýtur allt annarra og betri kjara en almennt gerist - ríflegra eftirlauna þrátt fyrir að vera í fullu starfi á ágætum launum hjá sama vinnuveitanda. Það er ekki hægt að misbjóða almenningi með þessum hætti." Víst er það hægt. Formenn stjórnmálaflokkanna lögðu á ráðin með Davíð Oddssyni um einmitt þetta, sjálfum sér til handa - og hafa komist upp með það. Kattarþvottur á eftirlaunalögunum frá í desember 2003, sem formaður Sjálfstæðisflokksins bannaði forsætisráðherra sínum undir lok nýfrestaðs þings, breytir heldur engu um stæka forréttindahyggjuna.

Bræður í spillingunni

Eftirlaunalögin eru til komin vegna þess að foringi Sjálfstæðisflokksins var í óvissu um pólitíska framtíð sína eftir síðustu Alþingiskosningar. Foringinn vildi eiga góðra kosta völ eftir að ljóst varð að hann þyrfti að standa upp úr stól sínum fyrir formanni Framsóknarflokksins. Því lét hann smíða frumvarp um eftirlaun. Í stað þess að afnema úrelt forréttindi stjórnmálamanna var tekið til við að auka þau - með leynd og dyggri aðstoð formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Meginbreytingin fólst í því að þingmenn og ráðherrar geta nú farið miklu fyrr á betri eftirlaun en áður var. Eftirlaunaaldur var lækkaður allt niður í 55 ár, eða passlega fyrir Davíð Oddsson. Frumvarpið fjallaði um eftirlaun, eins og nafn þess gaf til kynna. Þó var ein grein þess sérstök að því leyti að hún kom eftirlaunum ekkert við. Þar var kveðið á um launauppbót handa formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, vel á þriðja hundrað þúsund krónur á mánuði. Það hefur verið nefnt mútuákvæði frumvarpsins. Eftir misheppnaða tilraun til að lauma frumvarpinu gegnum þingið upphófst hörð gagnrýni á það. Fáum leið vel að réttlæta svívirðuna og fórst það illa úr hendi. Þáverandi forsætisráðherra er sagður enginn tungumálagarpur en í Kastljósþætti varð hann þó að bregða fyrir sig dönsku. Svo hátt ofar skilningi almennings var efni frumvarpsins. "Förtidspension" sagði maðurinn. Til að mýkja mannskapinn enn frekar nánast lofaði ráðherrann að deyja eigi síðar en um sextugt - hverju Guð forði. Auðvitað verður að hafa í huga gjöfula kímnigáfu Davíðs. Svo ríkuleg að hún hefur verið virkjuð í þágu þjóðarinnar. Í síðasta áramótaskaupi var grínið ekki aðeins í Ríkissjónvarpinu að venju heldur sá forsætisráðherra í eigin persónu um að gera góðlátlegt grín að sjálfum sér. Sannarlega ríkisrekið grín. Enda ekkert grín ef grín fer úr böndunum. Ekki einu sinni Turkmenbashi gæti leikið þetta eftir ráðherranum. En dönskuslettan og loforð um ótímabæran dauða vitna auðvitað um hve austantjalds og ömurlegt eftirlaunafrumvarpið var og hve erfitt reyndist að finna því boðleg rök. Og hvar ber þá spillingarbræður niður næst að efla forréttindi sín? Í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, skattkerfinu? Það er engu líkara en fréttir af frönsku byltingunni hafi ekki borist til landsins.

Stjórnarandstaða óskast

Formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, er jafnan kvartsár eins og prinsessan á bauninni þegar kemur að kjörum þingmanna. Hann rann á fjöll meðan eftirlaunafrumvarpið var til umræðu. Í Kryddsíld á Stöð 2 lýsti hann því svo yfir - alls hugar feginn að málið náði í gegn - að eini gallinn við lögin væri mútuákvæðið. Það hefði mátt vera í sérstöku frumvarpi. Svona er sósíalisminn hugsaður og skilgreindur í Þistilfirði, líkt og Honecker væri enn á blússandi siglingu. Steingrímur þarf heldur ekki að óttast gagnrýni. Foringjahollustan innan VG er ekki minni en innan Sjálfstæðisflokksins. Reyndar einkennilegt hvað loðir við vinstrimenn að trúa því að vitið hafi verið í kjaftaskana látið. Þjóðir sem náð hafa langt á braut lýðræðis gjalda varhug við gjammi. Össur er á réttri leið. Ekki er að orðlengja það. En aumt var að sjá hve margir innan Samfylkingarinnar urðu þegjandalegir undir umræðum um forréttindafrumvarpið á þingi. Hvað sagði Jóhanna? Svo virðist sem ýmsir innan þingflokksins skilji jafnaðarstefnu sem einhvers konar smælingjahjálp. Þeir sem betur mega sín og njóta forréttinda aumka sig með fátækrahjálp yfir hina sem höllum fæti standa. Einu sinni snerist jafnaðarstefnan um að allir sem vildu gætu gengið uppréttir.
Á Alþingi Íslendinga er engin stjórnarandstaða. Því er ekki að undra hömluleysið: Eigur almennings færðar útvöldum gegnum einkavæðingu; hefndarlög um fjölmiðla; lög um að ríkislögregla geti án dómsúrskurðar hlerað við hverja borgararnir tala; löglaus og siðlaus stuðningur við árásarstríð. Skyldi nýr formaður Samfylkingarinnar ætla að beita sér fyrir breytingum? Það er ekki gefið en væri fróðlegt að fá svar við því.

Fréttabréf