Kristján Hreinsson skrifar: HIÐ ÓHÁÐA AFL

Því hefur oft verið haldið fram að í raun sé Framsóknarflokkurinn mesti dragbítur jafnaðarmanna og vinstriafla hér á landi. Framsóknarmenn hugsa nefnilega ávallt um það fyrst að koma stoðum undir peningaöflin í flokknum og síðan er hugsað um það sem kallast hagur fjöldans. Og þessi flokkur hefur sýnt það og sannað að hann er úlfur í sauðargæru þegar að heilindum kemur; hallur til hægri ef þar er von á kjaftfylli. Þess vegna hef ég einsog margir aðrir haldið því fram að vinstrimenn eigi að sameinast um að starfa aldrei með framsóknarmönnum, (þeir reyna alltaf að komast í stjórn með hverjum sem er, ekki til þess að stjórna í þágu fjöldans, heldur til þess eins að efla þá mafíueiningu sem innviðum flokksins ræður).

Í þeirri helmingaskiptastjórn sem nú fer með völd í landinu, er kannski sjálfsagt og eðlilagt að sjálfstæðismenn úthluti til sinna gæðinga feitum bitum, einkum vegna þess að sá flokkur manna hefur alltaf verið hallur undir einkavinavæðingu og frjálshyggju. En hitt er skelfilegt, þ.e.a.s. að framsóknarmenn hafi leyfi til að útdeila eigum ríkisins í sinni svínahjörð, því þar fer flokkur með fylgi sem varla mælist í skoðanakönnunum og svo fer þar flokkur sem alltaf annað veifið heldur því fram að hann vinni í þágu fjöldans.

Það er skelfilegur afarkostur að þurfa að vinna með hóp manna sem fyrst og fremst þarf að hugsa um það að brúka alla krafta samfélagsins til að greiða skuldir flokks síns, vegna óhóflegrar eyðslu í auglýsingar fyrir kosningar, þar sem í raun og veru er aðeins verið að auglýsa köttinn í sekknum.

Nú hafa menn í Samfylkingu og Vinstri-grænum ekki viljað hugsa þá hugsun til enda að missa stjórnartauma í Reykjavík, af þeim sökum hafa menn ekki mátt hugsa til þess að missa hin örfáu prósent atkvæða sem framsóknarmenn hafa dregið í bú.

Á dögunum ræddi ég þetta vandamál við hóp vina og kunningja og þegar ég hugsaði málið frekar, komst ég að þeirri niðurstöðu að e.t.v. sé til lausn á vandanum. Sú lausn felst í því að Samfylking, Vinstri-grænir og ,,óháðir" myndi R-lista.

Þeir sem teljast óháðir, eru stærsti hópur borgarbúa og er á ferðinni stærð sem þarf að virkja. En það er nokkuð skondið til þess að hugsa, um leið og það er afar jákvætt, að þetta hugtak er allajafna eignað þeim sem frekar eru á vinstrivæng stjórnmálanna.

Ég veit um mikinn fjölda manna sem síst vill láta sjá á sér brennimerki flokka, enda er afar einfalt að skammast sín fyrir margt af því sem stjórnmálamenn hafa þurft að vinna í skjóli þess að neyðin kenni nöktum apa að stela. Og eins er það svo að fólk vill í dag frekar flakka á milli flokka en styðja einn sérstakan í öllum málum.

Þegar ég held því fram að óháðir geti komið í stað framsóknarmanna í hinu ágæta R-listasamstarfi, þá er ég að opinbera hugsun sem ég held að menn hafi hingað til hugsað án þess að telja hana þess virði að setja hana fram sem hreina og klára lausn. Um leið má þess vænta að menn hugsi sem svo, að hér komi sundurlaus hjörð já-já-nei-nei-menna í stað þeirrar sundurlausu hægri-vinstri-hreyfingar sem framsóknarmenn eru.

Auðvitað ætla ég ekki að þræta fyrir það, að í fylkingu óháðra eru ólík andlit. En þar er þó ekki á ferð hópur sem fyrst og fremst þarf að hugsa um að styrkja stoðir flokks sem veit ekkert sjálfsagðara en hygla ríkisbubbum í boði fjöldans.

Ég hef áður sagt, að það að vera stöðugt að agnúast útí framsóknarmenn í ríkisstjórn en vera síðan í borgarstjórn með sama flokki, sé einsog að bölva mafíunni en vera í vígðri sambúð með Al Capone. Og ég er viss um að þessi samlíking er sannari en svo að henni megi gleyma.

Mikill fjöldi manna hér í borg hefur hug á að gera andlit hinna óháðu sýnilegt og menn vita það margir hverjir að þegar kemur að því að efla R-listann þá eru óháðir það afl sem til þarf.

Ég mæli með því, að þeir sem skipa umræðuhópa Vg og Samfylkingar, boði á sinn fund fulltrúa óháðra. Þannig held ég að skapa megi trúverðuga einingu um áframhaldandi samstarf í R-listanum. Ég held að á þann hátt verði hægt að tryggja að vinstrimenn og allir þeir sem aðhyllast jafnaðarstefnu geti áfram farið með völd í borginni við sundin blá.

Kristján Hreinsson, skáld

Fréttabréf