Páll H. Hannesson skrifar: ALMANNAÞJÓNUSTA Á TÍMUM ALÞJÓÐAVÆÐINGAR

Stéttarfélög hins opinbera, bæði hjá ríki og sveitarfélögum, hafa á undanförnum árum þurft að taka stöðu sína til endurmats. Skref fyrir skref hafa þau áttað sig betur á því að  markaðsvæðing þjóðfélagsins og einkavæðing stofnana og þjónustu hins opinbera eru ekki afmörkuð fyrirbæri landfræðilega og pólitískt, heldur hafa atburðir í öðrum löndum bein og óbein áhrif. Hugmyndafræði og atferli alþjóðlegra stofnana eins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, Alþjóðabankans og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og samningar á þeirra vegum, hafa bein áhrif á stöðu okkur hér á landi.
Og við þessa skoðun hefur sprottið fram gagnrýnin sýn hjá stéttarfélögunum sem að er víðtækari en að horfa eingöngu til kaupa og kjara félaga sinna á heimavelli. Þau þurfa að horfa lengra í tíma og rúmi og þau þurfa að starfa saman á alþjóðlegum grundvelli. Og þau hafa áttað sig á að baráttan er að stórum hluta barátta um hugmyndir, barátta um hugmyndafræði.

Það er ekki einfalt mál að draga fram alla þá þætti sem koma við sögu í þeirri baráttu né að lýsa hvernig hún er í laginu. Ef að á að gera tilraun til þess í stuttu erindi þarf að sjálfsögðu að einfalda hlutina og um leið opnar maður á gagnrýni. Engu að síður ætla ég að gera eina slíka tilraun hér, til að fá samhengi í hlutina.

Hugmyndafræði og hagsmunir

Hvernig birtist okkur hugmyndafræði í hinu daglega lífi? Við könnumst öll við frasann um að einkarekstur sé skilvirkari og ódýrari en opinber rekstur, klisjan hefur heyrst svo oft að við erum nánast farin að trúa henni. Og samt er hún sjaldnast rökstudd nokkuð frekar. Þetta er dæmi um sigursæla hugmyndafræði, sem nánast er orðin að óumdeildum sannleika. Er það tilviljun að þessi eini frasi fer langt með að lýsa stefnu ofangreindra alþjóðastofnana? Af hverju hefur Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðurinn
skilyrt lán og aðstoð við sértækar aðgerðir í efnahagsmálum þeirra landa sem hann er að semja við? Og af hverju innifela þau skilyrði nánast alltaf kröfu um einkavæðingu opinberrar þjónustu? Að nafninu til er sú krafa sett fram vegna þess að einkarekstur á að vera skilvirkari og ódýrari en opinber rekstur - en í raun er verið að vinna fyrirtækjum, smáum jafnt sem alþjóðlegum nýja markaði og nýtt "hagkvæmt rekstarumhverfi".
Og hagkvæmasta viðskiptaumhverfi fyrirtækja er það þar þau geta farið sínu fram án hindrana, gagnvart verkafólki, umhverfinu og stjórnvöldum - þá ná þau að hámarka gróða sinn, en eini tilgangur slíkra fyrirtækja og "skylda" er að skila eigendum sínum arði. Svo einfalt er það. Þannig að hér liggja ákveðnir sértækir hagsmunir að baki.

Vald til taka mál af dagskrá

Auðvitað tekst engum að koma hugmyndafræði sinni á framfæri og gera að daglegum sannleik án þess að þar liggi vald að baki. Breski stjórnmálafræðingurinn Steve Lukes setti fyrir rúmum tuttugu árum fram kenningu um vald, og hvernig má skipta því upp í mismunandi skilvirk stig. Neðsta stig valdsins, sagði Lukes, er ofbeldi. Ég vil eitthvað frá þér og ef ég er sterkari þá lem ég þig í hausinn og tek það sem ég vil. Á efri stigum koma inn þættir eins og manipulation, undirferli og stýring. Næst efsta stigið er hins vegar að ráða því hvaða mál eru sett á dagskrá hverju sinni. Og efsta stigið er af því leitt, en það er valdið til að ráða því hvaða mál eru ekki á dagskrá.
Það þarf þannig ekkert að ræða það frekar að einkarekstur stendur hinum opinbera framar, svo dæmi sé tekið. Og það er ekki á dagskrá að nota almannavaldið til að koma á breyttu þjóðfélagi þar sem áherslur kunna að vera aðrar en þær eru í dag.

Hugmyndafræðilegar endurskilgreiningar

Í hverju hefur þessi hugmyndafræði helst kristallast síðustu árin og hvaðan er hún runnin í þeim fræðilega búningi sem er svo þénugur þessum stofnunum? Til að gera langa sögu stutta má staðnæmast við svokallaðan Chicago-skóla hagfræðinga í Bandaríkjunum sem komu fram með kenningar sem kallaðar hafa verið nýfrjálshyggja, neo-liberalismi. Við könnumst við nöfnin Hayek og Milton Friedman. Allt í heiminum kostar eitthvað. "There is no such thing as a free lunch". Og Margrét Thacher sagði: "There is no such thing as a family",  "það er ekkert til sem heitir fjölskylda" og átti við að í raun væri heimurinn samsettur af einstaklingum sem væru eingöngu neytendur.  Og heimsýnin var í samræmi við það og hugtök eins og samhjálp og samvinna náðu ekki máli.  Markaðurinn var svarið við öllum vandamálum.
Þessi heimsýn skilaði síðan praktískum niðurstöðum um hvernig best væri að koma hlutunum fyrir. Það urðu til hugmyndafræðilegar trúarsetningar sem áttu eftir að hafa hörmulegar afleiðingar víða um heim, eða skiluðu gulli og grænum skógum, eftir því hvorum megin við víglínuna þú lentir. Þetta kemur heim og saman í svokölluðum "Washington Consensus" sem kenndur er við bandaríska hagfræðinginn John Williamson. Þessar kennisetningar útskýrði Williamson sem "lægsta samnefnara í stefnumótandi ráðgjöf sem stofnanir staðsettar í Washington (Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) ættu að veita löndum Latnesku Ameríku frá og með 1989."

Og ráðgjöfin átti m.a.að innihalda þessi atriði:

  • Aðhald í ríkisútgjöldum

  • Skattalækkanir

  • Frjálsa vextir

  • Frjáls viðskipti

  • Frelsi fyrir beinar erlendar fjárfestingar í löndunum

  • Einkavæðingu

  • Afnám reglugerða sem hefta viðskipti fyrirtækja - (markaðsvæðing - deregulation)

  • Tryggingu eignarréttarins

Þarna kemur umbreytingarmódelið sem býr til nýjan veruleika, endurskilgreinir þjóðfélagið og býr til nýjar lausnir.

Og hvernig var boðskapnum dreift ? Það gerist með því að þessum hugmyndum og mönnum er gert hátt undir höfði af þeim hagsmunaaðilum sem að sáu gagnið í aðferðafræðinni, - sáu tækifærin sem liggja í kenningunum til nýrrar sóknar. Og Chicago-skólinn varð leiðandi afl á sínu sviði í Bandaríkjunum og útflutningsvara um allan heim. Reagan og Thatcher komast til valda og byrjuðu að fylgja stafrófinu. Hugmyndirnar dreifðust um allan heim í gegnum háskóla sem framleiddu fleiri kennara og nemendur sem að fengu síðan vinnu þar sem eftirspurnin var. Hjá fjármálastofnunum, stórfyrirtækjum og alþjóðastofnunum eins og til að mynda Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Og þó svo almenningur hafi alla tíð verið fullur grunsemda gagnvart þessum kenningum og jafnvel haft á þeim illan bifur, þá fór lítið fyrir slíkri gagnrýnni hugsun í þessum stofnunum þar sem allir voru á eina bókina lærðir. Og innviðir valdastofnana í mörgum þjóðfélögum urðu gegnsósa í þessari heimsýn, sem litaði síðan gerðir þeirra og athafnir. Og ef þeir voru í vafa til hvaða aðgerða átti að grípa til næst í efnahagsmálum, þá voru hagfræðingarnir spurðir ráða. Og margir gáfu sömu svörin.

Þessi bylgja hefur farið eins og eldur í sinu um heiminn eins og menn kannast við og við hér heima höfum átt okkar ötulu fulltrúa. Við könnumst sennilega mörg við að hugmyndir þeirra þóttu nokkuð sérlundaðar ef ekki fráleitar fyrir tuttugu árum en í dag hafa þær margar náð þeirri stöðu að teljast jafnvel til pólitísks rétttrúnaðar og í miklu uppáhaldi hjá ýmsum stjórnmálamönnum. Eftir áralangan velting á hugtökum og umræður í fjölmiðlum þá er svo komið að það sem þótti fráleitt eða umdeilanlegt, þykir bara í lagi í dag. Og við erum sjálf farin að spyrja af hverju ætti ríkið að eiga og reka sementsverksmiðju eða Símann eða sveitarfélögin Bæjarútgerð! Það er ekki hlutverk hins opinbera, eða hvað?

Og þær hugmyndafræðilegu verksmiðjur sem stofnanir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunin og jafnvel framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vissulega eru, er langt því frá hættar störfum. Það má útfæra gömlu grunnstefin á ýmsan máta og klæða í margan búninginn.

WTO-GATS

Lítum ögn nánar á Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, sem átti að verða þriðja systirin í hópnum þegar systurstofnanirnar tvær Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn voru settar á fót eftir seinna stríð. Það gerðist ekki heldur óx upp stofnun kringum GATT-samninginn svokallaða, sem fjallaði um tolla á vörum. Það var ekki fyrr en eftir margra ára samningaviðræður kenndar við Uruguy að stofnunin var sett á fót á nýbyrjuðu ári 1995. Segir á heimasíðu WTO að samningar stofnunarinnar, -GATS, TRIPS og GATT-samningurinn sem margir kannast við auk tæplega þrjátíu annarra alþjóðasamninga nái nú til 97% alheimsviðskipta. Þegar Ísland gekk í Alþjóðaviðskiptastofnunina þá gerðist þjóðin sjálfkrafa aðili að öllum samningum stofnunarinnar.

Við hjá BSRB töldum fyrir tveimur árum rétt að kynna okkur einn þessara samninga sérstaklega, GATS-samninginn, General agreement on trade in services - eða Almennt samkomulag um viðskipti með þjónustu.

Því hefur verið haldið fram með rökum að upphaf þessa samnings sé að leita meðal bandarískra alþjóðafyrirtækja á áttunda áratugnum, bandarísku fjármálarisanna CitiCorp, American Express og annarra viðlíka. Og að það hafi verið þau sem áttu drjúgan þátt í að móta samninginn og tryggja að bandarísk stjórnvöld þrýstu á um gerð hans. Sama var upp á tengingum í Evrópu, þar sem atvinnulífið og sérstaklega fulltrúar stórfyrirtækja hafa haft mun greiðari aðgang að allri gerð og mótun samningsins en aðrir í þjóðfélaginu. Hér má vitna til upplýsingasíðu Evrópusambandsins þar sem segir: GATS er ekki bara eitthvað sem snertir samskipti ríkisstjórna. GATS er fyrst og fremst tæki til bóta fyrir viðskiptalífið (business), og ekki aðeins fyrir viðskiptalífið í heild, heldur fyrir einstök þjónustufyrirtæki sem vilja flytja út þjónustu eða vilja fjárfesta og starfa á erlendri grund."

Á hverju byggist þessi áhugi stórfyrirtækjanna á þjónustu? Hann byggist ekki síst á því að þjónusta er talin nema um 70% af alheimsframleiðslu og atvinnu, en þjónustan hefur hins vegar aðeins numið um 20% af heildarviðskiptum landa á milli. Ástæða þessa hefur verið sú að þjónusta hefur mikið til verið lokuð inni á heimamarkaði einstakra landa og verið vernduð þar af lögum og reglugerðum viðkomandi lands. Ríkið hefur sinnt opinberri þjónustu og talið hag sínum og þegna sinna best borgið ýmist með einokun ríkisins á ákveðnum grunnþáttum þjónustu eða þátttöku í atvinnu, þjónustu og menningarlífi. Þannig hafa ríkið og sveitarfélög yfirleitt séð um félagslega þjónustu, menntun, vatnsveitur og rafmagn, haldið úti Þjóðleikhúsi og bókasöfnum svo eitthvað sé nefnt. Slík þjónusta hefur verið spegilmynd af menningu hvers þjóðfélags. Fyrir gerð GATS-samningsins voru milliríkjaviðskipti með þjónustu nánast óþekkt og óframkvæmanleg.

Á heimasíðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar má lesa að megintilgangurinn með GATS-samningnum sé að opna innanlandsmarkaði fyrir alþjóðlegum viðskiptum, brjóta niður einokun ríkisins og slaka á ýmsum reglugerðum sem stjórnvöld hafa sett, en WTO lítur á sem íþyngjandi fyrir atvinnulífið eða sem viðskiptahindranir. Þetta er í raun kjarni málsins.

Efni GATS

Lítum þá stuttlega á nokkur atriði í samningnum sjálfum. Það sem vekur kannski fyrst athygli er það hversu víðtækur samningurinn er. Hann tekur til allrar þjónustu í nútíð og framtíð og hann snertir allar stjórnvaldsaðgerðir allra stjórnvalda.
Eða eins og fyrrum framkvæmdastjóri WTO orðaði það: GATS "nær til málaflokka sem aldrei fyrr hafa verið kenndir við viðskiptastefnumál. (trade policy)"
Annað mjög mikilvægt atriði er að þó samningurinn hafi verið undirritaður 1995 að þá er hann ekki að fullu frágenginn. Annars vegar hafa aðilar skuldbundið sig við undirritun samningsins til að taka þátt í endurteknum viðræðum um útvíkkun samningsins sem eiga að hafa að markmiði "progressive liberalisation" eða "síaukna markaðsvæðingu". Það sem ekki tókst að fella undir samninginn í síðustu samningalotur verður reynt að ná undir hann í þeirri næstu. Þau skilyrði sem stjórnvöld settu þá, eiga helst að falla brott. Eitt tækifæri gefst við undirritun til að setja slík skilyrði, ekki er hægt að bæta við fyrirvörum síðar. Samningurinn er því sívirkur þar til hann hefur lokið ætlunarverki sínu sem er að markaðsvæða þjóðfélagið út í hörgul. Hins vegar gafst ekki tími til að útfæra alla þætti samningsins fyrir undirritun hans. Þannig voru kaflar um opinber innkaup, styrki og reglugerðir á heimamarkaði lítið annað er stefnumótandi setningar í upphafi og endanleg úrvinnsla þeirra kafla getur haft mikið að segja um túlkun samningsins í heild. Menn voru því að gera óafturkræfa samninga með bundið fyrir augun.
Ísland hefur þegar undirgengist víðtækar skuldbindingar vegna GATS eða í níu skilgreindum meginflokkum þjónustu af 12. Lykilatriði í sambandi við samninginn er það hversu erfitt það er fyrir aðila að breyta eða draga til baka þær skuldbindingar sem þau hafa gert. Það er ekki hægt nema að þremur árum liðnum og þá eiga aðilar á hættu að aðrir aðilar innan WTO geri skaðabótakröfur á viðkomandi land. Hér getur komið til kasta sérstaks dómstóls WTO, en úrskurðir hans eru bindandi og ekki hægt að áfrýja. Samsetning og túlkanir dómstólsins hafa verið mjög gagnrýndar, enda lítur hann aðeins þröngt á bókstaf samningsákvæða. Hræðsla við dómstólinn leiðir einnig til þess að menn ritskoða stjórnvaldsaðgerðir sínar fyrirfram. Í raun eru skuldbindingar óafturkræfar.
Í þeim þjónustuflokkum sem ríki skuldbinda sig í og gera enga fyrirvara á um skuldbindinguna, þýðir það að erlendir aðilar geta sett sig niður, til að mynda hér á landi, í þeim þjónustugreinum algjörlega óhindrað og geta gert sömu kröfu á fyrirgreiðslu og íslensk stjórnvöld kunna að veita innlendum aðilum.
Þó svo samningurinn fjalli um þjónustu þá er hugtakið þjónusta aldrei skilgreint, heldur er raunverulega endalaust hægt að fella ný svið undir samninginn.

Gildir GATS-samningurinn um opinbera þjónustu?

Forráðamenn WTO halda því stíft fram að öll þjónusta á vegum stjórnvalda sé undanþegin ákvæðum GATS. Hins vegar er sá hængur á þeirri túlkun að sú þjónusta sem veitt er af opinberum aðilum og á að vera undanskilin samningnum er skilgreind sem "þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grunni né í samkeppni við nokkurn annan þjónustuveitenda."
Það sem virðist ljóst er að öll þjónusta, - sem veitt er á viðskiptalegum grunni eða í samkeppni við einn eða fleiri aðila, sama hvort þjónustuveitendur eru einkaaðilar eða opinberir aðilar, -fellur undir hin bindandi heildarákvæði GATS-samningsins.
Í skýrslu frá OECD frá 1994 er greining á þessu atriði GATS. Þar segir: Undantekningin er varðar þjónustu veitta af ríkinu er skilyrt. "Þar sem stjórnvöld starfa á viðskiptalegum grunni og/eða sem samkeppnisaðili við aðra þjónustuveitendur, þá er litið á þá opinberu starfsemi sem um einkaaðila væri að ræða."
GATS-samningurinn tekur því til flestrar opinberrar þjónustu og með því að sú staða getur komið upp að stjórnvöld neyðast til að veita einkafyrirtækjum sömu fyrirgreiðslu og þau veita opinberum rekstri -ellar að hætta hinum opinbera reksrti, þá stafar almannaþjónustu klár hætta af þessum samningi. Opinber rekstur á Íslandi er um 40% af vergri þjóðarframleiðslu og mikill hluti þess er þjónusta. Hér eins og annars staðar sækjast einkafyrirtæki eftir að komast inn á þennan markað, það er eftir miklu að slægjast og þegar upp er staðið borgum við skattgreiðendurnir, líka þann arð sem rennur síðan í vasa eigenda  einkafyrirtækjanna sem áður voru í almannaeigu.
BSRB hefur unnið að því að kynna þennan samning fyrir félögum sínum og víðar. Við kærðum utanríkisráðuneytið fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála vegna þess að ráðuneytið neitaði að láta okkur fá upplýsingar um hvaða kröfur hefðu verið gerðar á Íslendinga og hvaða tilboð við værum að bjóða. Þó svo úrskurður hafi gengið gegn okkur höfum við fengið ráðuneytið til að opna bækur sínar upp að vissu marki og höfum fengið sæti á svokölluðum samráðsfundum ráðuneytisins, en þar voru fyrir í fleti hagsmunaaðilar vinnumarkaðarins - að fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar frátöldum. Við erum sannfærð um að þessi vinna hefur skilað árangri í því að ráðuneytið fer sér nú varlegar en áður. Við erum hins vegar ekki einir í þessari vinnu, verkalýðsfélög og ýmis grasrótarsamtök víða um heim, halda vöku sinni og eru reyndar einu aðilarnir sem það gera.

Þjónustutilskipun ESB

Það verður ekki undan því vikist að ræða stuttlega um svokallaða þjónustutilskipun Evrópusambandins. BSRB hefur lýst þeim samningi sem árás á kjör verkafólks og velferðarþjóðfélagið. Í Evrópu hefur hún verið kennd við aðalhöfund sinn, Fritz Bolkestein, fyrrverandi forstjóra Shell og frægan frjálshyggjupostula og oft verið uppnefnd Frankenstein-tilskipunin.
Það er óhætt að segja að fáar tilskipanir ESB hafi valdið öðrum eins usla og mótmælum eins og þjónustutilskipunin og er það m.a. vegna þess hversu víðtækt svið hún nær yfir, vegna þess að hún er frekar stjórnmálalegt og stjórnsýslulegt plagg en viðskiptasamningur og vegna þess hversu freklega hún gengur gegn hagsmunum verkalýðshreyfingar og heggur að rótum velferðarkerfins. Þetta á hún sameiginlegt með GATS-samningnum.
Þjónustu tilskipunin átti að vera lykilþáttur við að koma í framkvæmd því stefnumótandi markmiði Lissabon-fundar ESB sem haldinn var árið 2000, að "gera Evrópusambandið að samkeppnishæfasta hagkerfi heimsins byggt á þekkingu árið 2010". Það er lýsandi, að þjónustutilskipunin, skuli ekki tilgreina öll markmiðin sem sett voru í Lissabon. Markmið Lissabon-fundarins snerust  nefnilega ekki aðeins um samkeppnishæfni eins og framkvæmdadeild innri markaðar undir stjórn áðurnefnds Bolkestein  ákvað að einskorða sig við þegar hún skóp tillögu sína að þjónustutilskipuninni. Tíu ára markmið Lissabon-fundarins voru einnig þau að ná fram fullri atvinnu og styrkja efnahagslega og félagslega samþættingu, með sjálfbærri þróun. Í tilraun sinni við að koma þjónustutilskipuninni á lét framkvæmdastjórnin þessi atriði hins vegar sitja á hakanum.

Eins og þjónustutilskipunin er framsett er hún bein árás á verkalýðshreyfinguna í Evrópu og félagsmenn hennar, á það launafólk sem stendur utan verkalýðsfélaga og á velferðarkerfið í Evrópu. Komi hún óbreytt til framkvæmda er hætta á að laun í Evrópu muni lækka, réttindi launþega verði stórlega skert, draga muni úr jöfnuði og velferðarkerfið muni standa berskjaldað fyrir árásum. Við það mun samkeppnishæfni evrópskra fyrirtækja hugsanlega styrkjast í bráð, en á hinn bóginn fer óheftur markaðskapitalismi ekki saman við efnahagslega og félagslega velferð og öryggi hins almenna borgara og launamanns.

Eins og sést á skilgreiningu á þjónustu þá veikir hún mjög stöðu opinberrar þjónustu, enda tekur hugtakið þjónusta yfir alla "efnahagslega starfsemi sem vanalega er tekið gjald fyrir, án þess þó að fyrir þjónustuna sé endilega greitt af þeim sem hennar nýtur." Þetta þýðir að öll opinber þjónusta sem gjald er tekið fyrir af neytendum fellur undir tilskipunina, ásamt þjónustu sem ríkið borgar óbeint fyrir, t.d. með styrkjum. Aðeins sú þjónusta sem ríkið er skuldbundið til að veita til að uppfylla félagslegar, menningarlegar, menntunarlegar og lagalegar skuldbindingar sínar og ekkert gjald af nokkru tagi er tekið fyrir, er undanskilin þjónustutilskipuninni.

Í tilskipuninni er sérstaklega tiltekið að hún nái til heilbrigðisþjónustu (health services) og ákveðinna þátta félagslegrar þjónustu.

Þjónustutilskipunin gengur mjög hart fram í því að aðildarríkin hlíti forræði sínu. Það er ekki nóg að þau þurfi að yfirfara alla lagabálka sína og reglugerðir og aðlaga þær að ákvæðum tilskipunarinnar heldur verða þau að tilkynna allar hugsanlegar framlagningar og breytingar á lögum og reglugerðum sem kunna að stangast á tilskipunina til framkvæmdastjórnar. Framkvæmdastjórnin mun síðan innan þriggja mánaða segja til um hvort þau lög eða reglur sem ríkin hafa sett sér eða ætla að setja sér, fái að standa óbreytt, verði fyrir breytingum eða einfaldlega fái ekki að taka gildi. Hér er því hreinlega um fullt valdaafsal ríkja í hendur framkvæmastjórninni að ræða. Niðurstaðan er því sú að þjónustutilskipunin er andlýðræðisleg.  Hún færir völdin frá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum í heimalandinu í hendur skrifræðis framkvæmdastjórnar ESB, sem ekki er lýðræðislega kosin, en tekur engu að síður ákvarðanir um hvort lög ríkja og reglugerðir megi standa. Og að að öllum líkindum mun þetta leiða til þess að ríki taka að stunda sjálfsritskoðun af ótta við að lenda í kvörnum framkvæmdastjórnarinnar.

Upprunalandsreglan

Upprunalandsreglan eða Country of origin principle er útfærsla á því markmiði að gera fyrirtækjum í þjónustu kleift að starfa hvar sem er innan Evrópu. Þessi umdeilda regla kveður á um að fyrirtæki sem hyggst starfa í öðrum löndum innan ESB, skuli einungis fylgja þeim lögum og reglum sem það land hefur sett sem fyrirtækið á höfuðstöðvar sínar í.  Gildir það sérstaklega um þau ákvæði sem stýra hegðun þjónustuveitanda, gæðum eða innhaldi þjónustunnar, auglýsingum (kjara-) samningum og ábyrgð þjónustuveitenda. Það á svo að vera í höndum stjórnvalda í upprunalandinu, þ.e. í því landi sem fyrirtækið á höfuðstöðvar sínar, að halda uppi eftirliti með þeim fyrirtækjum sem starfa á alþjóðlegum vettvangi.
Þessi upprunalandsregla skapar lagalega óreiðu milli þeirra landa sem tilskipunin tekur til. Í fyrsta lagi á upprunalandið að sjá til þess að allir pappírar þjónustuveitenda séu í lagi, að þjónusta hans sé gjaldgeng miðað við þær reglur sem eru í upprunalandinu og að allir samningar séu skv. ákvæðum sem gilda í því landi. Landinu sem tekur við þjónustunni er hreinlega bannað að leggja nokkurt sjálfstætt mat á þessi atriði.

Eftirlit

Þá kviknar spurningin um hvernig eftirliti verði háttað. Ímyndum okkur að í hlut eigi eitt af nýju ríkjunum í ESB, þar sem gæðakröfur, laun og eftirlit eru lakari en við eigum að venjast. Í fyrsta lagi má spyrja hvaða hagsmuni það ríki hafi af því að halda uppi eftirliti með þeim innlendu þjónustuveitendum sem leggjast í víking erlendis ? Af hverju ættu t.d. pólsk yfirvöld að elta uppi "útrásarfyrirtækin" sín og gera þeim erfiðara að að afla tekna og bæta þar með viðskiptajöfnuð Póllands við útlönd ? Hafa yfirvöld yfirhöfuð fjárráð og mannskap til að sinna eftirliti innanlands, hvað þá um öll lönd ESB ? Og hvernig ættu t.d. pólsk yfirvöld að fara að því að sinna eftirliti með pólskum fyrirtækjum dreifðum um álfuna, þegar þau hafa ekkert vald til að kanna stöðuna hjá einstökum fyrirtækjum í öðrum löndum ?
Það eru engin sannfærandi ákvæði í tilskipuninni sem geta svarað þessum spurningum.

Þá blasir við að fyrirtæki geta flutt höfuðstöðvar sínar til þeirra landa þar sem eftirlit er ekki mikið, verkalýðshreyfingin veik og kjarasamningar þ.a.l. slakir eða ekki til. Og þau geta haldið áfram starfsemi í sínu eigin landi, en þurfa nú aðeins að hlíta ákvæðum laga og reglna í upprunalandinu. Og væntanlega munu þau vilja borga vinnuafli sínu laun í samræmi við það sem gerist í upprunalandinu.

Gegn þessari tilskipun hefur verkalýðshreyfingin í Evrópu brugðist mjög hart, með Evrópusamband starfsfólks í almannaþjónustu , EPSU, í fararbroddi. Svo hart að framkvæmdastjórnin hefur þurft að láta undan síga. Þeir segja engu að síður að þeir muni halda sig við tilskipunina en ætla að sníða af henni verstu agnúana. Ef að ekki hefði komið til þessi barátta verkalýðshreyfingarinnar þá væri þessi tilskipun væntanlega á leið til samþykktar og þá væru vandræðin sem skapast hafa í sambandi við launa- og réttindamál starfsmanna við Kárahnjúka hreinn barnaleikur í samanburði. Og það sér engan vegin fyrir endann á baráttunni gegn tilskipun herra Frankensteins.

Viðskiptasamningar eða stjórnarskár ?

Það eru nokkur atriði sem að blasa við þegar maður lítur á svona samninga eins og GATS og þjónustutilskipunina. Þetta eru engir vanalegir samningar um viðskipti landa á milli. Þetta eru pólitísk plögg, byggð á ákveðinni hugmyndafræði, - nýfrjálshyggjukenningunum. Þessir samningar eiga að tryggja að fyrirtækin muni ekki fá samkeppni frá opinberum aðilum, þeir opna fyrirtækjunum þá þjónustumarkaði sem hið opinbera hefur sinnt og hrekja hið opinbera burt af vettvangi. Þeir koma í veg fyrir að hið opinbera geti þróað almannaþjónustu sína þannig, að hún þjóni þegnunum á sem bestan máta.

Kanadiskur fræðimaður kallaði GATS-samninginn og aðra álíka, yfirþjóðlegar stjórnarskrár. Hann á við með því að þessir samningar hamla möguleikum stjórnvalda á hverjum stað í því að framkvæma stefnu sem er í andstöðu við efni samninganna. GATS-samningurinn, þjónustutilskipunin, samkeppnistilskipanir og tilskipun um opinber innkaup setja stjórnvöld þannig í spennitreyju. Ef að við fengjum hér ríkisstjórn sem vildi t.d. hafa leikskóla gjaldfrjálsa er það mun líklegra en hitt að einhver einkaðili á þeim markaði myndi kæra stjórnvöld fyrir óeðlilega viðskiptahætti og að þau yrðu að falla frá stefnunni ellegar að borga brúsann fyrir einkafyrirtækið.  Þessir samningar eru því aðför að lýðræðinu.

Þannig að við erum stödd í miðri baráttunni. Og það er af nógu að taka. Raforkugeirinn og vatnsveitur hafa verið einkavædd víða um heim og menn eru komnir langt að feta sig eftir þeirri braut hér heima. Í Evrópu hafa afleiðingarnar af einkavæðingu raforkugeirans orðið þær að tugþúsundir starfsmanna hafa glatað vinnunni, við hafa tekið undirverktakar sem kunna margir lítt til verka, þannig að kunnátta hefur glatast, viðhald hefur verið í lamasessi af því að sparnaður þar er leið til að auka gróðann og umframorka sem er nauðsynleg til að mæta toppum hefur verið skorin af. Fákeppni hefur aukist og verð hefur hækkað en afhendingaröryggi minnkað.

Við í BSRB höfum barist gegn bæði raforkufrumvarpi Valgerðar Sverrisdóttur sem og tilraunum til að opna á einkavæðingu vatns. Við áttum þátt í að stoppa fyrstu lagafrumvörpin sem sett voru um vatnsveitur og náðum fram jákvæðum breytingum á því frumvarpi sem var síðan samþykkt. Og við munum halda áfram þessari baráttu. Fyrir tveimur dögum samþykkti stjórn BSRB að senda tillögu til stjórnarskrárnefndar þess efnis að litið yrði á vatn sem grundvallarmannréttindi í samræmi við samþykkt Sameinuðu þjóðanna og að vatn yrði í samfélagslegri eigu. Ákvæði þessa efnis yrðu sett í stjórnarskrá Íslands og mun BSRB mun fylgja því máli eftir.

Sjálfstæð verkalýðshreyfing

Verkalýðshreyfingin í dag stendur því í harðri baráttu sem er ekki síst hugmyndafræðileg barátta, þar sem hægri öflunum orðið verulega ágengt sl. 20 ár. Og verkalýðshreyfingin er að átta sig eðli þessarar baráttu og mun taka slaginn á sama vettvangi. Því getur verkalýðshreyfingin í dag ekki verið annað en pólitísk í eðli sínu, rétt eins og hún hefur í raun ávalt verið. Góð dæmi um hvernig stéttarfélög hafa losað sig úr þeirri spennitreyju sem þau hafa lengi baksað í má sjá t.d. hjá PSI, Alþjóðasambandi opinberra starfsmanna og hérna heima í nýlegri samþykkt SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu.

Ég ætla ljúka ræðu minni á stuttri tilvitnun úr samþykkt aðalfundar SFR-stéttarfélags í almannaþjónustu. Þar segir:

"Sjálfstæði er stéttarfélögum nauðsynlegt. Því mega stéttarfélög ekki láta utanaðkomandi öfl í þjóðfélaginu um að skilgreina fyrir sig tilgang sinn og markmið. Þau geta t.d. ekki látið samtök atvinnurekenda eða aðra hagsmunahópa halda sér í þeirri hugmyndafræðilegu spennitreyju að markmið stéttarfélaga sé eingöngu að horfa í krónur og aura, vinnutíma og e.t.v. sumarhús. Að allt annað sé "pólitík" sem er stéttarfélögum óviðkomandi og  þau hafi ekki umboð til að sinna. Stéttarfélög hafa það umboð til aðgerða sem þau taka sér og fá stuðning til frá félögum sínum. Oftast fylgir að þetta umboð er innan ramma laganna, en þó er það ekki einhlítt enda hafa stéttarfélög oft þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum. Sögulega séð hafa stéttarfélög haft samfélagslegu hlutverki að gegna og er svo enn."

Þessa ræðu flutti Páll H. Hanneson á fundi hjá Stefnu - félagi vinstri manna á Akureyri 1. maí.

Fréttabréf