Fara í efni

SÉRA GUNNÞÓR, ÖGMUNDUR, CLINT, ÉG OG LANGALANGAFI

Langalangafi minn í föðurætt var Beinteinn Stefánsson. Fæddur í Hjallasókn í Ölfusi, Árnessýslu 23. október 1816. Látinn á Hellu á Vatnsleysuströnd 16. mars 1894. Hann var bóndi og smiður á Arnarfelli í Krýsuvík. Ólafur Þorvaldsson segir í bókinni Harðsporar að Beinteinn hafi byggt „Krýsuvíkurkirkju, hús það, sem enn stendur.“ Hann fluttist úr sókninni með fjölskyldu sína eftir áleitni frá afturgöngu á Selatöngum. Kona hans var Guðrún Eiríksdóttir og eignuðust þau langömmu mína Sigríði Beinteinsdóttur að Arnarfelli 1858. Langamma flutti síðar í Hafnarfjörð og giftist Gísla Bjarnasyni og bjuggu þau í Gíslahúsi við Suðurgötu í Hafnarfirði. Föðuramma mín Gíslína Sigurveig Gísladóttir var næst yngst fimm barna þeirra en yngstur var Sigurbernt Gunnar Gíslason, en hann endurbyggði Krýsuvíkurkirkju í núverandi mynd. Og fleiri ættingja minna hafa haft viðkomu í Krýsuvík því langafabróðir minn í móðurætt, Þorvarður Þorvarðarson bjó á höfuðbólinu Krýsuvík en faðir hans og langafi minn Þorvarður Ólafsson bjó á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði.

Fyrr í sumar gengum við Gyða frá Krýsuvíkurkirkju í kringum Arnarfellið. Það var rok og á leið okkar voru gular veifur á stöngum við hverja einustu þúfu sem gæti verið leifar af mannvistum frá fyrri tíð. Einhverjir náttúruverndarsinnar, sennilega úr lögreglunni, höfðu rekið þá þarna niður til að minna á að þarna væru þessar minjar um forfeður okkar. Því miður stungu þeir mjög í stúf við allt þarna og voru einskonar sjónmengun á þessum stað. Ástæðan fyrir þessum veifum var að þarna á að taka upp kvikmynd núna síðla sumars og eiga þessar veifur sennilega að vera mótmæli við þau áform. Kvikmynd sem reyndar gerist á japanskri Kyrrahafseyju og er óþarfi að orðlengja mikið um það því alþjóð veit að hingað er væntanlegur Clint Eastwood til að gera þessa ræmu um orustuna um Iwo Jima. Bandarískur föðurlandsóður.

Út yfir Atlandshafinu sveimaði herþyrla og tók kúrsinn á Arnarfellið. Okkur stóð ekki á sama. Minnti á senu úr Apocalips now. Hún sveigði þó hjá og hélt aftur á haf út. Okkur létti. Við vorum sem betur fer ekki stödd í raunverulegum stríðsátökum. Í stað þess nutum við dirrindís lóunnar sem hljóp meðfram gönguleið okkar.

Menn hafa farið mikinn gegn áformum Clintarans um að taka upp hluta af kvikmyndinni Flag of our fathers við Arnarfellið og séra Gunnþór Ingason sóknarprestur í þjóðkirkjunni í Hafnarfirði, sem ég hef leitað til ef ég hef þurft að láta framkvæma prestverk í minni fjölskyldu, til að mynda brúðkaup sonar míns og eiginkonu hans í Krýsuvíkurkirkju, ritaði grein í Morgunblaðið þar sem hann leggst gegn þessari kvikmyndatöku og Ögmundur Jónasson vinur minn og samstarfsmaður tekur upp á arma sína og birtir á heimasíðu sinni.

Helstu rök séra Gunnþórs eru þau að ekki einungis megi búast við náttúruspjöllum á staðnum heldur er þetta „innrás í sögu Krýsuvíkur og dregur hörmungaratburði að henni. Hví er ekki kvikmyndað á eynni japönsku þar sem hildin var háð sem líkja skal eftir við kvikmyndatökuna? Vafasamt er að Japanar kærðu sig um það. Til þess eru sár þeirra of djúp og nístandi af skelfingum stríðsáranna. Það virðist eftirsóknarvert og freistandi fyrir unga Íslendinga að leika hermenn í kvikmynd sem töffarinn svali Clint Eastwood stjórnar. En það er samt óæskilegt hlutverk. Sjómennskan er ekkert grín segja þeir í verstöðvum og á útnesjum enda hefur það kostað mörg mannslíf að draga lífsbjörgina að landi. Hermennska sem felur í sér grimmileg átök og manndráp er enn síður grín eða leikur og mun óvissara er um réttmæti hennar. Friðelskandi Íslendingar ættu ekki að líkja eftir hernaði fyrir fé og vafasaman frama. En sjá einhverjir sér hag í því að herjað sé á náttúru og helgi Krýsuvíkur til þess að hylla harðvítugt stríð og blóðsúthellingar?“ segir orðrétt í grein klerksins.

Hvað er séra Gunnþór að segja þarna? Jú að með því að leyfa myndatöku við Arnarfell sé verið að vanhelga tökustaðinn, draga hann niður í svað stríðsréttlætingar. Þótt ég sé ættaður úr Krýsuvík hef ég aldrei litið á þetta svæði sem helgan reit, eins og sérann ýjar að. Krýsuvík er í mínum huga mjög sérstæður og fallegur staður, einkum í kringum kirkjuna og Arnarfellið, en helgur staður, ég bara veit ekki hvað þar er átt við. Ísland er margslungið land og hinir helgu staðir eru þá óteljandi ef þetta svæði er heilagt. Voru ekki Bond og Laura Croft að vanhelga Vatnajökul og umhverfi hans þegar þau léku listir sínar þar. Býst ég við að Vatnajökull sé ekki síður helgur staður í huga margra Íslendinga en Krýsuvíkin.

Þá er ég einnig eitt stórt spurningarmerki gagnvart þeirri fullyrðingu séra Gunnþórs að þetta sé innrás í sögu Krýsuvíkur. Flestir Íslendinganna sem sjá myndina munu vita að þetta sé í landi Krýsuvíkur, fæstir þeirra þekkja þó umhverfið, en þeir sem ekki hafa fylgst með fjölmiðlum á Íslandi í sumar hafa ekki hugmynd um hvar myndin var tekin. Flestir telja eflaust að hún hafi verið tekin á Iwo Jima.

Svo skil ég alls ekki þetta með að sjómennskan sé ekkert grín. Gamall slagari um Suðurnesjamenn kemur þessu máli ekkert við.

Svo ekki sé verið að teygja lopann þá sé ég ekkert að því að Clintarinn fái að gera sína ræmu á þessum slóðum. Clint Estwood er þrátt fyrir að vera íhaldssamur repúblikani einn af þessum leikstjórum og kvikmyndaleikurum sem skipa ákveðinn sess í mínum huga og hefur sent frá sér mörg snilldarverkin. Fyrir hönd mín og langalangafa býð ég hann velkominn að Arnarfelli. Veit ég að hann mun greiða Landgræðslunni fé til að græða upp þau sár sem verða við kvikmyndatökuna, um það er samið og efast ég ekki um að við það verður staðið.