Fara í efni

UM ERKIBRASKARA BOÐSKAP

Erkibraskarar Íslands eiga nú von á nýjum páfa í Vatíkan sitt, Seðlabankann.
Páfinn er forn og nýr þjónn spákaupmanna, fyrrum yfirkardínáli í söfnuði mammonstrúar. Hann er reyndur þjónn og lúinn, en samt til nokkurs nýtur enn í þágu trúar sinnar, telur hann sjálfur a.m.k. Hann mætir til leiks borinn á þeim gullstól, sem hann sjálfur smeið.
Af þessu tilefni eru nú messur haldnar og safnaðarfundir peningajöfra. Orð daganna eru harmagrátur yfir verðbólgubálinu. Alþýðu er hótað með helvítisvist í efnhagashruni ef hún orðar óskir um þokkaleg launakjör. Sérstaklega er orðum beint til þeirra lægstlaunuðu.
Þeir munu brenna sig fyrst á græðgi  sinni segja forgylltir erkibraskarar og mammonsfræðingar á þeirra snærum. Halelúja !
Því lægri laun, því betri lífskjör segja þeir.
Alþýðan heyrir nú erkibraskara boðskap. Mun hún hafa hann að engu ? Er  mögulegt að forystumenn alþýðunnar séu slíkir kórdrengir orðnir að þeir hringi nú viðvörunarbjöllum framan í láglaunafólkið, taki þátt í skollaleiknum sem byggist á að gjáin milli ríkra og snauðra á Íslandi breikki enn ?
 Baldur Andrésson 14.9.