Fara í efni

ÞAÐ KOM BRÉF

Ég fékk bréf fyrir nokkru.  Það er alltaf gaman að fá bréf,  það sýnir eð einhver man eftir manni.  Að vísu var sá galli að þetta bréf var frá herra Opinberum, umslagið var merkt Tryggingastofnun ríkisins.  Það er nú svo að þegar við fáum bréf frá herra Opinberum fáum við grun um að eitthvað illt sé á ferðum.  Og þegar ég las bréfið frá honum kom í ljós að árið 2004 hafði hann borgað mér krónur 237.852, nákvæmlega í örorkubætur en þar sem ég hafði haft of miklar tekjur frá öðrum það árið, bæri mér að endurgreiða þetta.  Það er í sjálfu sér rétt að ég er vinnandi maður og hef sennilega sæmilegar tekjur, en mundi ekkert eftir að hafa fengið neitt frá herra Opinberum á því ári.  Svo ég fór í tölvuna  og fletti gegnum bankareikninginn minn, og viti menn,  þar var engin greiðsla sjáanleg frá herra Opinberum.  Þá hringdi ég í vinnukonu hans hjá Tryggingastofnun og vildi fá að vita hvert þessir peningar hefðu farið.  Henni fannst eins og mér að þetta væri hið versta mál og hún skyldi athuga það.  Hún brást snöfurmannlega við og síðar sama dag hringdi hún í mig og sagði að þessa penginga hefði ég aldrei fengið en aftur á móti fengið í janúar á þessu ári  kr. 68.507 sem bætur fyrir árið 2004 og eflaust myndi húsbóndi hennar, herra Opinber, gjarnan vilja fá þá peninga aftur. Allt í lagi með það þar sem ég hef eins og er, aðrar tekjur en frá honum.  Þessi góða stúlka hafði líka skrifað herra Opinberum bréf, andmæliviðendurreikningtekjutengdrabótagreiðslnaársins2004, og þar með ætti þetta mál að veraí lagi.  Þakka ég henni fyrir snaggaralega afgreiðslu.

En, og aftur en - hvað hafa margir fengið svona tilefnislaus bréf?   Hjá Félagi eldri borgara fékk ég þau svör að þangað hefðu komið allmargar kvartanir  af sama toga.  Nú sá ég einhversstaðar að búið væri að krefja endurgreiðslu á um tveim milljörðum króna undanfarið.  Hvað mikið af því er tilhefnislaust eins og sú krafa sem ég fékk?  Og hvað hafa margir láta það yfir sig ganga og greiða möglunarlaust.  Það eru nefnilega margir og kannski ekki síst aldraðir og öryrkjar sem taka öllum bréfum frá herra Opinberum sem algildum sannleika.  En  honum getur skjátlast eins og okkur hinum.  Þess vegna verða menn að skoða bréfin hans vandlega eins og allt annað og athuga sinn gang.

Það var nú það. En - aftur og enn á ný en.  Á tölvuöld  þegar allt á að vera svo auðvelt og nánast hægt að fylgjast með hverju fótspori frá mínútu til mínútu, hvernig geta svona mistök átt sér stað?  Mér skilst að Trygginastofnun fái jafnharðan upplýsingar frá skattyfirvöldum úr staðgreiðsluskrá og líka upplýsingar frá lífeyrissjóðum og geti þannig á hverjum  tíma haft allar upplýsingar um tekjur fólks og  því séð hvað mönnum ber í bætur samkvæmt lögum.  Því er hópur fólks að senda út bætur og annar hópur, eða sá sami, að heimta endurgreiðslu nokkru síðar?

Mér virðist að undanfarið hafi herra Opinber verið að sækja í sig veðrið og sjái til þess að þeir aumingjar sem hafa  aðeins nokkur þúsund til lífsviðurværis á mánuði fái ekki krónu of mikið.  Svo virðist  herra Opinber njóta þess að senda út bréf um að fólk fái engar bætur og verði jafnvel að endurgreiða fúlgur svona rétt fyrir jólin.  Því nú eru að koma jól.  Því hvort sem menn halda uppá þau vegna trúar eða til að fagna endurkomu sólar eða af hvaða ástæðu sem er, þá er þetta sá tími sem fók vill gleðja ástvini sína og vini og auglýsingar dynja á okkur að nú verðum við að kaupa þetta og hitt.  Að gleðja afastelpuna og ömmustrákinn á einhvern hátt, sem allir vilja gera.  Þá kemur bréf um að þú hafir hrifsað til þín heldur of mikið. 

Það fólk sem nú er að komast á eftirlaunaldur er fólkið sem byggði upp þjóðfélagið eins og það er. Það  eru sjómenn, bændur, iðnaðarmenn og verkafólk sem vann hörðum höndum fyrir sér og börnum sínum með þeim stórkostlega árangri að næsta kynslóð gat lifað í vellystingum praktuglega.  Einmitt það sem þetta fók barðist fyrir. En á það ekki skilið umbun fyrir sitt brautryðjendastarf?  Á það að lepja dauðan úr skel við ævilokin?  Á það að kúldrast í litlum skáp á einhverju “hjúkrunarheimili”  síðustu stundirnar?  Á það að vera eins og betlarar og þurfa að sækja um smáaura til að geta glatt afkomendur sína með súkkulaðistykki eða brjóstsykursmola?

Það eru ekki mörg ár síðan að þúsund krónur voru mikið fé, milljón var eitthvað sem menn vissu að var til en enginn þekkti. Milljarður var stjarnfræðilegt.  Nú virðist það vera skiptimynt.  Einhver fer út í búð að kaupa vindil með síðdegiskoníakinu og kaupir þá alla sjoppuna úr því hann var þar á ferð hvort sem var.

En mun það fólk sem elst upp við milljarða láta sér lynda að búa við nokkur þúsund á mánuði?   Það er ekki vafi að groupfólkið vill annað og betra og ekki ástæða til að öfundast yfir því.  En mun það þá láta hugann reika til forfeðra sinna?  Til afa og ömmu sem grétu fögrum tárum því þau höfðu ekki efni á að gleðja barnabörnin með smá nammi þegur komið var með þau  í helgarheimsóknina.  Höfum við ríka þjóðin, einhver sú hamingjusamasta í heimi samkvæmt skoðanakönnunum,  efni á því að traðka á því fólki sem gerði okkur fært að lifa eins og kóngar í ævintýri?
Guðmundur R. Jóhannsson