Guðjón Jensson skrifar: EFASEMDIRNAR UM BJARTSÝNISVIRKJUNINA MIKLU
Í Kastljósþætti í vikunni kvað Ágúst Guðmundsson
stjórnarformaður Bakkavarar marga fjárfestingarkosti vera
hagkvæmari en stóriðju. Allt of mikið hafi verið einblínt á
stóriðjuna, ávöxtunarkrafa Kárahnjúkavirkjunar væri of lítil. Á
þetta hafa hagfræðingar bent mjög lengi en talsmenn áliðnaðar á
Íslandi hafa ekki lagt við hlustir, heldur hamast nótt sem nýtan
dag að selja meir af ódýru rafmagni sem ekki má fréttast á hvaða
kjörum er selt. Hví skyldi svo vera? Er einhver minnsti möguleiki
á, að þessir talsmenn stóriðjunnar njóti í einhverju góðs af þessum
gríðarlegu og óafturkræfu náttúruspjöllum sem er grundvöllur
gífurlegrar auðsöfnunar á vegum stóriðjunnar?
Ýmislegt bendir til, að spilling og mútur séu ekki mjög fjarri
íslensku þjóðlífi um þessar mundir. Fyrr á tímum hefur lengi
tíðkast að greiða skilningsríkum lykilstjórnmálamönnum eða greiða
fúlgur fjár í kosningasjóði viðkomandi. Og ekki er ólíklegt að
þetta sé stundað enn í dag. Í viðskiptum hefur lengi tíðkast að
greiða kommissjón og þóknanir oft inn á leynireikninga.
Skreiðarsalar íslenskir mútuðu fyrr á dögum embættismönnum við
innflutning til Nígeríu og var það frægt á sínum tíma.
Í öllum nútímasamfélögum er kappkostað að gera þeim sem gjarnan
vilja greiða mútufé eins torvelt að stunda þá starfsemi og kostur
er. Á Íslandi er þvílíkt sveitamannasamfélag að margir
stjórnmálamenn telja fjarri að setja þurfi reglur um starfsemi og
fjármál stjórnmálaflokka. Allt sé í besta lagi og svona lagað
gerist aldrei hér. Því þurfi ekki að setja neinar reglur!
En það er nú svo, að á tímum gegndarlausrar auðsöfnunar er mjög
mikil hætta á að sjálft lýðræðið, hryggjarstykkið í
nútímasamfélagi sé í voða stefnt vegna þess að ekki er gengið nógu
vel frá grundvallarreglum samfélagsins. Brýna nauðsyn ber til að
taka inn í sjálfa stjórnarskrána ákvæði sem fjallar um starfsemi og
fjármál stjórnmálaflokka, þar sem settar eru virkar hömlur við að
þeim sé stjórnað gegnum fjárframlög af auðmönnum sem vissulega
vilja umbuna þeim vel sem sýnt hafa þeim sérstakan skilning.
Sunnudaginn 5. febrúar birtist pistill undirritaðs um fjármál
flokkanna í Morgunblaðinu (bls.60). Þessari grein hefur enn ekki
verið svarað af þeim sem hún beinist gegn þó svo að þar sé velt
möguleikum á, að vissir stjórnmálamenn í vissum flokki hafi fallið
í freistni og orðið spillingunni að bráð. Kannski að viðkomandi séu
svo uppteknir við að álvæða landið enn meir, lofa bæði
Norðlendingum og Sunnlendingum álveri að loknum kosningum ef rétt
verður kosið.
Er vit í þessu?
Með því að setja skynsamar reglur um fjármál stjórnmálaflokkanna
er verið að treysta innviði lýðræðisins í þágu allrar þjóðarinnar
og koma í veg fyrir að þeim sé stjórnað af hagsmunum auðsins.
Undirritaður er áhugamaður um betra lýðræði og vill að við virðum
náttúru landsins en fórnum henni ekki fyrir nokkrar álkrónur.
Guðjón Jensson
Mosfellsbæ
esja@heimsnet.is