Svandís Svavarsdóttir skrifar: STÉTTASKIPTING Í MÖTUNEYTUM?

Fagna ber þeirri umræðu sem er nú að komast á skrið í kjölfar greinar eftir undirritaða í Morgunblaðinu á sunnudaginn var. Í greininni er vakin athygli á þeirri staðreynd að veturinn 2003-2004 nýttu að jafnaði 68,6% nemenda sér hádegismatinn í skólum borgarinnar. Síðar segir: "Velta má fyrir sér hvers vegna nýtingin er ekki meiri. Eru virkilega svona margir foreldrar sem koma heim í hádeginu og elda næringarríkan mat fyrir börnin? Einhver hluti barnanna er efalaust með hollt nesti að heiman en líklegt má telja að sá hluti sé lítill."

Er ekki sennilegast að sumir foreldrar treysti sér einfaldlega ekki til þess að kaupa mataráskrift vegna kostnaðarins? Og hvernig ætlum við að bregðast við því? Finnst okkur ásættanlegt að skipta börnunum okkar í stéttir eftir efnahag strax í grunnskólanum? Þau sem hafa efni á því að borða í mötuneytinu og hin sem hafa það ekki?"

Í Morgunblaðinu í dag tekur skólastjóri Fellaskóla undir þessi sjónarmið og telur líkur á að töluverður hluti barna í borginni fari á mis við mat í skólanum vegna fátæktar.

Afstaða Vinstri grænna í Reykjavík er skýr í þessu máli. Við viljum útrýma gjaldtökunni í grunnskólanum, þ.m.t. matarkostnaðinum. Í lok fyrrnefndrar greinar segir að við viljum "...greiða mötuneytiskostnað skólabarna úr sameiginlegum sjóðum okkar borgarbúa. Borgin er rík en það eru ekki allar barnafjölskyldurnar. Stöndum saman um að reka skólamötuneytin og gerum ekki upp á milli barnanna okkar. Við vinstri græn viljum stöðva fyrirætlan hægri aflanna í borginni og sækja fram með aukinni þjónustu við börnin án tillits til efnahags."

Fréttabréf