Fara í efni

PILSFALDAKAPÍITALISMI

Þeir sem ekki eru innvígðir í skuggaveröld fjármálabraskara hafa flestir setið hljóðir hjá þegar vatnsgreidda þotuliðið íslenska sperrir stélin, innanlands sem utan. Gagnslaust er að spyrja hvaðan það fær hitann úr enda verður fátt um svör. Milljarðagróði, milljarðatap eru pókerfréttir dagsins og engum bregður lengur.

 

Í Mogga mínum þann 5.apríl segir af gefnu tilefni að "Ísland" sé ekki á leið í gjaldþrot . Vísað er í greiningu Moody´s sem segir frá "óstöðugleika" íslensku einkabankanna en telur þá þó trúverðuga vegna þess að íslenska ríkið sé þeim að baki !  Þotuliðið má spila áfram.

 

Baktrygging íslenska ríkisins við íslenska einkabanka er nýlunda í eyrum flestra Íslendinga. Einkavinavæðingin átti einmitt að fela í sér vinslit við ríkisstoðina, frelsi til stórumsvifa kaupahéðna á mörkuðum hérlendis og erlendis. Stórbokkarnir í peningageiranum hafa jafnvel hótað að slíta alfarið landfestar á Íslandi og fá bönkunum sínum lögheimili erlendis. Þeir nenna varla að púkka upp á smáríkið Ísland ef marka má orðin þeirra á góðum dögum.

 

Svo bregður við nú að kreppukenningar hlaðast upp um íslensku einkabankana. Þeir hafa reynst kjötkatlar valinna hópa eigenda sinna,sem sitja beggja vegna borðs,sem lánveitendur og lántakendur, bankarnir eru sjálfsafgreiðslustaðir. Afgreiðslukerfið er eign bankafurstanna og einkamál þeirra höfum við haldið. Þegar ský hrannast upp stendur Moody´s í þeirri trú að íslenska ríkið, herðar íslenskra launþega og eftirlaunaþega, herðar íslensks almennings séu svo traustar að hrun einkabankanna muni ekki setja allt samfélagið í gjaldþrot. Moody´s vitnar í íslenska ríkissjóðinn þegar sjóðir einkabanka eru metnir. Moody´s segir með öðrum orðum að á Íslandi ríki pilsfaldakapítalismi. Frelsi og  gróði er séreign kapítalistanna. Ríkissjóður má eiga allt hrun. Ábyrgðin er fólksins á Íslandi. Svo einfalt er það.

                  5.4.06 Baldur Andrésson