Fara í efni

Vinstri græn í mikilli sókn

Kosningabarátta Vinstri grænna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 27. maí hefur hvarvetna gengið vel. Skoðanakannanir sýna að flokkurinn er alls staðar í sókn og bætir verulega við sig fylgi og tvöfaldar það sums staðar frá kosningunum fyrir fjórum árum. Það er mjög ánægjulegt þó að auðvitað hrósi maður fyrst happi að loknum kosningum þegar við sjáum hvað kemur upp úr kjörkössunum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð býður fram V-lista á 13 stöðum á landinu, en í sveitarstjórnarkosningunum fyrir fjórum árum voru þeir 8 talsins. Auk þess eiga félagar okkar víða hlut að blönduðum framboðslistum s.s. í Borgarbyggð, Grundarfirði, Stykkishólmi, á Ísafirði, Ólafsfirði/Siglufirði, á Héraði, Álftanesi og Seltjarnarnesi. Vinstri græn bjóða nú fram V-lista í Reykjavík, á Akranesi, í Dalabyggð, Skagafirði, á Dalvík, Akureyri,  í sameinuðu sveitarfélagi Húsavíkurbæjar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps, í Árborg, Hveragerði, Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Kópavogi og Mosfellsbæ. Á öllum þessum stöðum er mikill kraftur og baráttugleði við völd og ljóst að flokkurinn hefur styrkt sig verulega á landsvísu á þessu kjörtímabili.

Nú þegar hef ég heimsótt marga þessa staði og stefni að því að að heimsækja þá alla fyrir kjördag. Þessar heimsóknir hafa verið einkar ánægjulegar fyrir margra hluta sakir. Í fyrsta lagi er frábært að sjá og kynnast af eigin raun þeirri miklu stemningu og baráttugleði sem ríkir meðal frambjóðenda og stuðningsmanna okkar. Sú stemning virðist líka smita út frá sér því alls staðar er okkar glaðhlakkalega fólki vel tekið. Í öðru lagi er það skýr málefnastaða flokksins. Vinstri græn bjóða hvarvetna á landinu upp á framsækna og skýra stefnu sem innlegg í umræðu um lausnir á verkefnum sveitarfélaganna. Í þriðja lagi er það verulega hvetjandi og ánægjulegt hversu margir nýir hafa gengið til liðs við flokkinn. Sumt af þessu nýja fólki er til að mynda að heyja sína fyrsta pólitísku kosningabaráttu. Að auki er það ánægjulegt hversu margt ungt fólk starfar með okkur í kosningabaráttunni og hve sterkir liðsmenn þau reynast. Og í fjórða og síðasta lagi er gott að finna hversu stolt við getum verið að því að vera við sjálf. Okkar fólk þarf ekki dýrar auglýsingastofur né þarf það að breiða yfir nafn og númer eins og sumir aðrir stjórnmálaflokkar.

Við komum fram undir okkar eigin merkjum og vinnum hlutina sjálf og erum stolt af því.

Af þessu er ljóst að bjartsýni ríkir í herbúðum Vinstri grænna um úrslit kosninganna eftir um það bil viku. Við göngum inn í síðustu viku kosningabaráttunnar bjartsýn og baráttuglöð og hrífum fólk með á okkar eigin forsendum. Sú taktík, ef taktík skyldi kalla, mun skila okkur mestu.

 Vinstri græn – hreinar línur.

 Steingrímur J. Sigfússon