Hegi Guðmundsson: EKKERT NÝTT

Hagfræði eru merkileg fræði, mestan part fyrir  það að svokallaðir hagfræðingar á hægri kantinum (og þeir ráða umræðunni nú um stundir) tyggja allir sömu  tugguna á hverju sem gengur. Þannig stendur uppúr hverjum manni að nú verði ríkið að taka á honum stóra sínum til að kveða niður verðbólguna. Það skal gert með því að hætta við eða fresta ýmsum "þensluvaldandi framkvæmdum" - hvað sem það nú þýðir.

Ríkisstjórnin hefur í samræmi við þetta boðað aðgerðir til að kveða niður verðbólguna. Meðal þeirra er að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% og lækka hámarkslánið um milljón. Þetta er í samræmi við kenninguna um að "herða skrúfurnar" (meira um það á http://blog.central.is/hage) Hugmyndin er að draga með þessum hætti úr byggingaframkvæmdum í landinu, en þær ku vera einkar þenslu- og verðbólguhvetjandi að mati tuggu(hag)fræðinga. Forsætisráðherrann birtist jafnframt í sjónvarpinu og tilkynnir þjóðinni að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fresta eða fara ekki í framkvæmdir sem hún hafði ekki ákveðið að fara í á næstunni og verður varla lengra komist í tuggufræðunum - til að lækka verðbólguna fresta menn framkvæmdum sem þeir hafa hvort eð er aldrei ákveðið að fara í.

  Eins og hvert mannsbarn veit hafa miklar stórframkvæmdir á Austurlandi ásamt lánagleði bankanna á íbúðamarkaði haldið uppi gríðarlegri þennslu um nokkurra missera skeið, meðal annars með þeim afleiðingum að nú vinna þúsundir erlendra starfsmanna í landinu. Verkalýðshreyfingin hefur um leið fengið nýtt og hreint ekki auðvelt verkefni að kljást við. Hið erlenda verkafólk virðist vera tilbúið að sætta sig við miklu lakari kjör en innlend starfssystkini þess þannig að verkalýðssamtökin hafa haft fangið fullt við að koma í veg fyrir félagsleg undirboð og sjá til þess að ekki sé svínað á erlendu starfsfólki.

Sú herdeild hagfræðinga sem mestan svip setur á umræðu um hagfræðileg efni, um þessar mundir, virðist ekki hafa tekið eftir því að framkvæmdir fyrir austan eru nú í hámarki og bankarnir eru ekki jafn ákafir í að lána fólki fyrir húsnæði. Því leiðir af sjálfu sér að á næstu mánuðum mun draga úr þenslunni og þess vegna óþarfi að fresta eða hætta við framkvæmdir sem opinberir aðilar höfðu  alls ekki ákveðið að fara í. Sömu hagfræðingar halda hverja töluna annarri "viturlegri" um nauðsyn þess að sveitarfélögin axli ábyrgð og reyndar hefur sjálfur bæjarstjórinn í Kópavogi, Gunnar I. Birgisson sagt að sveitarfélögin verði að leggja sitt af mörkum. Hvaða gagn er að því að veikja sveitarfélögin til að ná niður verðbólgu er aftur á móti ekki útskýrt. Með öðrum orðum: Hagfræðingar og valdamenn sýnast sammála um að segja ekkert nýtt. Ekki lagast ástandið þegar hagfræðin og hægri pólitíkin ganga í eina sæng. Þá dettur mönnum í hug sú "frábæra" hugmynd að lækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80%. Og hverjir skyldu hafa fengið 90% lán hjá Íbúðalánasjóði? Ætli það séu þeir sem reisa sér 500 fermetra sumarhús? Eða þeir sem kaupa hús fyrir 20 - 40 milljónir, fjarlægja það af lóðinni og reisa nýtt sem kostar 100 - 200 milljónir eða meira? Eru það þeir sem kaupa sér rándýrar íbúðir á "fínum" stöðum - helst í miðborg Reykjavíkur? Nei. Því miður.

Þeir sem helst tóku 90% lán hjá Íbúðalánasjóði voru þeir sem höfðu úr litlu að spila (ekki þarf að taka fram að bankarnir lána ekki slíku fólki) og sjá sér fært að tryggja sér húsnæði með viðráðanlegri greiðslubyrði. Hvað skyldi þetta nú vera stór hópur? Mörg þúsund fjölskyldur sem af ótrúlegri ósvífni hika ekki við að ríða fjárhag þjóðarinnar til fjandans? Nei. Hagfræðin og pólitíkin hafa hér blandað kokteil sem hefur enga þýðingu nema þá að þrengja kosti þeirra sem lakast eru staddir fyrir. Þessi hópur þenur ekki verðbólguhörpuna - til þess hefur hann einfaldlega allt of lítil fjárráð. Þetta sjónarspil ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgunni mun því engu skila.

Hitt er svo annað mál að í þeirri dýfu, sem kann að myndast þegar dregur úr stóriðjuhasarnum fyrir austan, er hugsanlegt að bankarnir eignist talsvert margar íbúðir vegna þess að þeir hafa lánað ógætilega -  en hvað skyldi verða um fólkið sem í íbúðunum býr, verður það leiguliðar bankanna í stað þess að skulda þeim? Getur verið að þeir muni hafa sitt á þurru?

hágé.

Fréttabréf