Helgi Geirsson skrifar: SPILAVÍTISKASSARNIR!

Góði Ögmundur.
Ég tek fyllilega undir orð ykkar Ágústar og Helgu um spilafíknina og tel málstað þeirra sem að spilavítiskössunum standa, auvirðilega fjarstæðu. Ég hef skrifað mikið um þetta mál í gegnum árin því ég þekki það vel fræðilega. Fjárhættuspilafíkn er fullkomlega á borð við áfengis- og aðra lyfjafíkn og ber að skoða og fara með hana sem slíka. Ögmundur, þú átt svo sannarlega virðingu og þakklæti skilið fyrir að vera sá alþingismaður, sem berst gegn þessum ófögnuði!

Það skal hafa í huga að erlendis, t.d. í Norður Ameríku, þar sem flest leyfist, þá eru umræddir spilavítiskassar stranglega bannaðir, nema á sérstökum stöðum undir eftirliti, þar sem hvorki unglingar né spilavítisfíklar komast að þeim. Spilavítiskassarnir eru þá vel merktir til að takmarka aðgang að þeim og eigendur staðarins bera fulla persónulega ábyrgð á að lögum og reglum um spilavítiskasana sé fylgt. Þar á ofan er lögreglunni gert að fylgjast með að lögum og reglum sé fylgt að öllu leyti.  Þeir eigendur staðanna sem brjóta þessi lög, eru umsvifalaust kærðir og sektaðir verulega svo um munar.  Ögmundur, ég leyfi mér að benda á að borgarstjórn R-listans á þó nokkra sök á þessu máli sem öðru sukki sem myndaðist í Reykjavík á þeirra vakt. Það hefði verið hægðarleikur að koma lögum og reglu á um spilavítiskassana, ef skilningur og vilji hefði verið fyrir hendi. En, þetta verður að gerast sem allra fyrst!  Það er ekki hughreystandi að okkar fagra höfuðborg Reykjavík, sé farin að þekkjast erlendis sem sukkbúlluborg norðursins.

Lágkúran í þessu máli, er auðvitað fólkið og stofnanirnar sem eru á bakvið ódæðið og skaffa sér ofurlaun fyrir ómakið (sem er rannsóknarefni útaf fyrir sig), og síðan borgar- og landsyfirvöld sem leyfa þetta. Siðferði þessa fólks lýsir sér best þegar það er að gera lítið úr hræðilegri spilavítisfíkninni. Að það skuli vera mennta- og líknarstofnannir sem notaðar eru til þessa siðferðisglæps, sem ætti hiklaust að vera lagalegur glæpur, er svívirðilegt.

Ögmundur, ég þakka Helgu, Ágústi og þér fyrir baráttuna gegn voðamáli spilavítiskassanna, og leyfi mér um leið að benda á þá hræðilegu spillingu sem hefur yfirleitt grafið um sig í þjóðfélaginu undanfarin ár, á flestum sviðum, ekki síst það sem Hjörtur Hjartarson bendir á í pistli sínum, á síðunni þinni.  Það er vert að stjórnmálamenn fari að hugsa um eitthvað annað en sjálfa sig, að maka krókinn og að sinna einkavinunum!  Þjóðrækni, þjóðarvirðing, sjálfsvirðing og sómatilfinning væru góð meðul gegn þessu lágkúru sukkmeini!!!

Helgi Geirsson

Fréttabréf