Fara í efni

„HREINAR LÍNUR“ VINSTRI GRÆNNA Í SKAGAFIRÐI

Sæll Ögmundur
Þakka þér fyrir pistilinn „Frumkvöðlar í ferðaþjónustu“ þar sem þú lýsir stuttlega heimsókn  þinni í Skagafjörð. Get ég svo sannarlega tekið undir hvert orð þar.
Sérstaklega staldra ég við það sem þú segir um skagfirsku Jökulsárnar og baráttuna fyrir verndun þeirra. Um daginn fór ég í ógleymanlega þriggja daga raftferð niður austari Jökulsá. Gist var í Laugarfelli þar sem ferðin hófst og Hildarseli í Austurdal. Áður hef ég farið í nokkrar velheppnaðar dagsferðir á Jökulsá og gengið um svæðið. Sá kyngimagnaði kraftur og fegurð sem gljúfrin og umhverfi þeirra búa yfir skilja engan eftir ósnortinn. Að mínu mati þarf köld hjörtu til að fórna þessari náttúru fyrir virkjanir og stóriðju.Það kemur máske ekki á óvart að þeir sem ganga harðast fram í þeim efnum hafa aldrei kynnst eða komist í nánd við þær náttúruperlur sem Jökulsárnar eru.

 Glöggt er gests augað og brýning þeim er heima situr

Það var frískur og fjölbreyttur hópur sem ég fór með í raftferðina frá Laugarfelli. Fólkið var frá fimm þjóðlöndum og þeirra á meðal voru líffræðingar, kaupsýslufólk og kvikmyndagerðamenn og blaðaútgefendur. Allir áttu það sameiginlegt að hafa víða ratað en voru sammála um að Jökulsárnar og umhverfi þeirra ættu engan sinn líka. Svo bergnumið var fólkið að því sem fyrir augu bar að það átti það til að gleyma sér við annars krefjandi flúðafleyturnar. Afleiðingarnar voru tilheyrandi uppákomur og vatnsböð sem allir höfðu þó gott af.

Ákall stóriðjuflokkanna í Skagafirði um virkjun og álver

Ferðafélagarnir voru spurulir um náttúru gljúfaranna og sögu svæðisins. Við ræddum einnig þau áform að fórna glúfrunum og Jökulsánum í þágu virkjana fyrir stóriðju. Margir trúðu ekki að slíkt gæti staðið til. Einn úr hópnum var ritstjóri hjá New York Times, sem marga fjöruna hefur sopið. Hann sagði við mig: „Þið megið ekki láta þetta gerast, þið verðið að upplýsa fólk um hvað er í húfi. Takist það mun aldrei verða af slíkum áformum“. Orð hans voru góð brýning og uppörvun í þeirri baráttu sem hvergi nærri er lokið.
Enn meira forviða urðu þeir að heyra að heimamenn, forystumenn stjórnmálaflokka heima í Skagafirði - Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og  Samfylkingar, - hefðu sent frá sér ákall, bænarskjal til erlenda álrisans Alcoa um að svipta Skagfirðinga Jökulsánum undir stórvirkjanir fyrir álver. Sú bæn þeirra hefur ekki verið afturkölluð. Staðreyndin er sú að það eina sem ennþá hindrar framkvæmdir er formleg heimild sveitarstjórn Skagafjarðar.fyrir Villinganesvirkjun. Öll önnur leyfi eru fengin.

Vinstri græn stóðu ein vaktina

Allt síðasta kjörtímabil stóð slagur innan sveitarstjórnar Skagafjarðar um verndun Jökulsánna.
En eins og alþjóð er kunnugt sóttu stóriðjusinnar og handhafar virkjanaleyfis mjög hart að sveitarstjórn um að fá heimild til að hefja framkvæmdir.
 Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði, sem  áttum þá aðild að meirihluta sveitarstjórnar lögðust ein gegn því að veita þá heimild, og stóðum þéttan vörð um Jökulsárnar og unnum sigur, a.m.k. tímabundinn. Mikill stuðningur var að starfi og áræði frumkvöðlanna í fljótasiglingum sem þú minnist á, þeirra Sigurðar Friðrikssonar á Bakkaflöt og Magnúsar Sigmundssonar á Vindheimum, sem  hvor um sig á mikla þökk og heiður skilið fyrir baráttuna til verndar Jökulsánum.

Framtíð Jökulsánna í óvissu

Virkjanaleyfið er enn  í höndum Kaupfélags Skagfirðinga og RARIK. Reyndar er hægt að fénýta það og selja öðrum með samþykki ráðherra. Ef forystumenn  þessara fyrirtækja þekktu sinn vitjunartíma mundu þeir nú þegar skila inn virkjanaleyfinu og biðja okkur Skagfirðinga afsökunar á að hafa farið af stað með þennan hernað gegn dýrustu náttúruperlum okkar.
Því  miður fara virkjanaflokkarnir Framsókn og Samfylking nú með meirihluta í sveitarstjórn Skagafjarðar en þeir stóðu ásamt Sjálfstæðisflokknum að bænarskjalinu um að fórna Jökulsánum fyrir álver í Skagafjörð. Við  búum því enn við þá ógn að stóriðjuflokkarnir í sveitarstjórn  ákveði að leyfa virkjanir í Jökulsánum með óafturkræfum fórnum náttúruperla og lífríkis Héraðsvatna.

„Meðan Vötnin ólgandi að ósum sínum renna“

Ég læt fylgja hér með samþykkt frá 8. júní 2005 sem dregur skýrt fram stefnu og sýn VG í Skagafirði: 
„Héraðsvötnin og Jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að nýta þau óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska, er einnig ómetanleg. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki einhæfum álbræðslum  sem skaða möguleika annarra atvinnugreina eins og skýrt hefur komið i ljós að undanförnu. Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“
Við Vinstri græn í Skagafirði megum svo sannarlega vera stolt yfir þeim árangri að hafa stöðvað áform virkjunarsinna um að fórna Jöklusánum. Megi Vötnin okkar renna frjáls og ólgandi að ósum sínum um ókomna tíð.

Bjarni Jónsson, Hólum í Hjaltadal, fulltrúi VG í sveitarstjórn Skagafjarðar