Fara í efni

ÞÖGNIN ÆPIR

Eins og við var að búast sögðu fulltrúar Landsvirkjunar iðnaðarnefnd Alþingis að þá því aðeins fengi nefndin upplýsingar um orkuverð frá Kárahnjúkavirkjun að nefndin undirgengist trúnað – sem þýðir á mannamáli að segja ekki nokkrum manni frá verðinu sem ALCOA borgar fyrir orkuna. Viðskiptaleyndarmál - ALCOA er sagt hafa krafist þess að verðinu yrði haldið stranglega leyndu.

Aðeins einn nefndarmaður, Ögmundur Jónasson, hafnaði því að taka þátt í leynimakkinu og gekk á dyr.
Ekki þarf mikla skarpskyggni til að átta sig á að burðarásinn í tekjum Landsvirkjunnar kemur frá eldri virkjunum, sem annað hvort hafa verið afskrifaðar að fullu eða að mestu. Framleiðslukostnaðurinn í þeim er einungis fáeinir aurar á kílówattstund, þannig að jafnvel sala til eldri stóriðjufyrirtækjanna er orðinn þokkalegur bisniss, að ekki sé nú minnst á söluna til almennings eða innlendra fyrirtækkja.

Með leyndinni myndast grunur um að verðið sem samið var um sé of lágt, jafnvel allt of lágt. Forstjóri ALCOA lét hafa eftir sér á heimasíðu fyrirtækisins í Brasilíu að verðið hér á landi væri miklu lægra en þar í landi. „Upplýsingafulltrúi” ALCOA hér á landi (sem vel að merkja var í eina tíð ein af virtustu fréttamönnum RUV) sagði þjóðinni að ekki væri nú alveg víst að forstjórinn hefði lesið alla þá samninga sem fyrirtækið hefur gert! Þessi staðhæfing „upplýsingafulltrúans” vakti satt að segja ótrúlega litla athygli. Raforkuverð er einn áhrifaríkasti þátturinn í framleiðslukostnaði áls – forstjóri sem ekki veit hvað fyrirtæki hans þarf að borga fyrir orkuna í nýrri verksmiðju ætti að líkindum að snúa sér að öðru.

En hundurinn liggur einmitt grafinn í því að orkuverðið kann að vera allt of lágt, miklu lægra en í Brasilíu, upplýsingar um það eru ekki mjög þægilegar á Íslandi og alveg makalaust að meirihluti iðnaðarnefndar skuli sætta sig við að mega ekki tala um svo þýðingamikið efni. Þeir eiga að gæta almannahagsmuna og á endanum verður þess vart í orkuverðinu til almennings ef of illa hefur verið samið við ALCOA, svo stór orkukaupandi sem fyrirtækið verður.

Það er kostulegt að hlusta á unga þingmenn, sem ættu að hafa áhuga á opinni umræðu og gagnsæju þjóðfélagi, fullyrða að þeir verði að þegja til að gæta viðskiptahagsmuna – ekki almennings heldur LV og ALCOA.

Hér skal ekkert fullyrt um hvert verðið er, en hvers vegna má ekki upplýsa þjóðina – sem á auðlindina og orkufyrirtækið – um það? Bygging virkjunar og verksmiðju er á lokastigi. Hverju breytir þó að þjóðin fái þessar upplýsingar úr því sem komið er? Dettur einhverjum í hug að hætt verði við allt saman ef upp kemst um orkuverðið? Nei, auðvitað ekki. Hins vegar getur farið svo að þjóðinni ofbjóði, og það sem enn áhugaverðara er – evrópsk samkeppnisyfirvöld kunna að líta á verðið sem ólögmætan og samkeppnishamlandi styrk.

Þögnin um orkuverðið æpir á kjósendur nokkrum mánuðum fyrir Alþingiskosningar. Að þessu sinni verður varla rifist mikið um kvótakerfið í kosningabaráttunni líkt og síðast. Hvaða mál vinstri flokkarnir hugsa sér að gera að baráttumálum í aðdraganda kosninganna er enn ekki ljóst en eitt af því sem blasir við er valdstjórnarhroki meirihlutaflokkanna – honum verður að linna. Þögnin um orkuverðið til ALCOA er sláandi dæmi um þetta – við höfum vit á hlutunum og þjóðinni er fyrir bestu að hlýða og una því sem að henni er rétt. 
hágé.