Fara í efni

VARNARLIÐ VERKALÝÐSINS

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í sjónvarpi á dögunum að nauðsynlegt væri að upplýsa allt er varðaði þær persónunjósnir sem fóru fram um áratuga skeið með mikilli leynd. Hann vildi upplýsa um tengsl sósíalista við Sovétríkin, meðal annars þær peiningagreiðslur sem áttu að hafa runnið til Sósíalistaflokksins. Ekki vék ráðherrann að því að leyniþjónusta þessi hafi verið ólögleg starfsemi og enn síður skýrði hann hvers vegna enginn hafi nokkru sinni verið handtekinn og ákærður fyrir skuggaleg áform gegn ríkinu. Þaðan af síður að ekki hefur verið sýnt fram á að Rússagull hafi flætt inní landið.

Viðbrögð sjálfstæðismanna við uppljóstrunum um leynilegar hleranir og njósnir um grunsamlega einstaklinga eru með endemum. Upp til hópa hafa þeir ekkert merkilegt að segja og alls ekki neitt um þær almennu grunsemdir að leyniþjónustan hefði einungis njósnað um þá sem grunaðir voru um vinstri mennsku – hafi verið einskonar ólöglegt einkafyrirtæki Sjálfstæðisflokksins. Upplýst er að virðulegur embættismaður, sem bar ábyrgð á hlerunum og njósnum um fólk, hafi efnt til leynilegrar öskutunnubrennu, þar sem heimulegum gögnum um persónunjósnirnar var eytt. Fyrsta ályktunin sem draga má af þessu er auðvitað sú að í gögnunum hafi ekki verið nokkur skapaður hlutur, sem benti til sektar þeirra sem njósnað var um. Hafi menn fundið eitthvað merkilegt, hvers vegna kom það ekki upp á yfirborðið með ákærum á þeim tíma?

Það er nokkuð kaldhæðnislegt fyrir forsætisráðherrann að um það leyti sem hann lætur orð sín falla var Thorbjörn Jakland, forseti norska Stórþingsins, staddur hér á landi og upplýsti hvernig menn þar í landi hefðu höndlað samskonar mál. Þeir létu rannsaka þau opinskátt ofan í kjölinn, báðu þá afsökunar sem orðið höfðu fyrir persónunjósnum og greiddu skaðabætur þar sem það átti við (t.d. þegar menn fengu ekki störf vegna pólitískra skoðana sinna) og má því segja: Ólíkt höfumst vér að.

Illugi Jökulsson upplýsir í Blaðinu 14. október að þegar hann var að skrifa sitt mikla rit um Ísland í aldanna rás hafi honum borist upplýsingar um að í kringum 1960 hefði verið til „skipuleg sveit ungra manna sem leit á sig sem varalið lögreglunnar... sem ætlað hefði verið að „takast á við kommúnista. Og í einhverskonar samvinnu við dularfull yfirvöld í landinu.”

Undirritaður gekk í Æskulýðsfylkinguna – ungliðasamtök Sósíalistaflokksins 1959 eða '60. Þá var það regla fremur en undantekning að Heimdellingar reyndu að hleypa upp útifundum og kröfugöngum, sem ýmist voru farnar til að mótmæla hernum og Nato eða til stuðnings kröfum verkalýðssamtakanna. Tímanlega fyrir lok hverrar samkomu höfðum við það verkefni, allstór hópur ungs fólks, að fara í Tjarnargötu 20 (þar sem Sósíalistaflokkurinn og Fylkingin höfðu þá aðsetur) og fylla húsið af fólki. Heimdellingar þustu nefnilega í fundarlok að húsinu og gerðu sig líklega til að ryðjast inní það eða brjóta allt sem hægt var utan húss.

Við vissum heilmikið um Varnarlið verkalýðsins og hvers vegna til þess var stofnað, löngu fyrir kalda stríðið. Að reyna að hleypa upp kröfugöngum verkalýðssamtakanna, með einhverjum hætti var eins konar skylduverkefni einhvers hóps í borginni og segir mjög víða frá slíkum tilraunum. Oft voru þetta að sönnu meinlitlir krakkar, en göngumenn máttu einatt þola frýjunarorð og háð, fyrir utan moldarköggla og annað sem til féll, frá fólki sem hélt að það væri að berjast gegn heimskommúnismanum, þegar göngumenn áttu ekki annað erindi út á göturnar en að krefjast skárri kjara fyrir verkalýðinn. (Þór Whitehead, sagnfræðingur og prófessor, lætur að vísu að því liggja í Þjóðmálum nýlega að verkalýðsbarátta kreppuráranna hafi verið stórvarasöm starfsemi og runnin undan rifjum Stalíns! Sjá http://blog.central.is/hage ) Varnarlið verkamanna hafði það hlutverk að verja göngumenn fyrir aðkasti.

Árin um og fyrir 1960 (ég var fyrst á verkfallsvöktum vorið 1961) rifjuðust upp þegar ég las grein Illuga. Það skyldi þó aldrei vera að „vararliðið” hafi ekki bara átt að vera til taks ef illa liti út fyrir valdhafana. Kannski það hafi líka fengið þjálfun í því að koma af stað róstum, sem gæfu yfirvöldunum tilefni til handtöku og málaferla, yfir fáum eða mörgum eftir atvikum. Þessi „stjórnlist” er þekkt um allan heim og hafa leyniþjónustur stórveldanna löngum haft flugumenn og „sérfræðinga” á sínum snærum til þess arna. Ég man ekki hvort við sem höfðum þetta hlutverk, að verja Tjarnargötu 20, vorum kölluð varnarlið verkalýðsins, en við vorum áreiðanlega síðustu leifarnar af því, og þustum stundum út úr húsinu til að gefa umsátursmönnum ótvírætt til kynna að þeir ættu við ofureflu að etja.
hágé.