Kristján Hreinsson skrifar: HIN HÁLFA ÞJÓÐ

Þótt ég skammist mín ekki neitt sérstaklega fyrir það að þjóð mín sé yfirleitt hálf, þá skammast ég mín svo sannarlega fyrir þann helming hennar sem styður helmingaskiptaveldið.
Ég sagðist í sjónvarpsviðtali um daginn, ekki vilja þurfa að skammast mín fyrir að vera Íslendingur, sagði að ég væri búinn að fá nóg af spillingunni og ætlaði af þeim sökum að stökkva í stjórnmálin og bjarga því sem ég get hugsanlega bjargað.
Ég hef þurft að hugleiða skömmina oft og mörgum sinnum í þeirri stjórnartíð sem brátt er á enda. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég las um það í blöðunum að íslenska þjóðin væri komin í stríð við Írak. Og ég hef margoft komist ansi nálægt því að blygðast mín fyrir þjóð mína þegar ég hef horft á það hvernig áformum um virkjanaframkvæmdir og stóriðju hefur verið þvingað gegnum þingið og þjóðin hefur, nánast án mótmæla, sporðrennt áróðri kerfiskarlanna.
Yfirleitt hálfskammast ég mín fyrir að tilheyra þeirri sinnulausu þjóð sem lætur bjóða sér svindl og svínarí í nafni góðæris og hagsældar, þar sem bitlingapólitík, einkavinavæðing, einkennilegar stöðuveitingar, opinberar árásir á menn sem óhlýðnast flokksaganum og önnur spilling eru ótrúlega áberandi.

En ég sé að betri tíð er í nánd.

Nú hefur ríkisstjórn helmingaskipta setið lengi í landi voru og verið svo lengi á pólitísku fylleríi að það er kominn tími til að senda liðið heim og láta renna af því. Hálfkák þeirra sem stjórna er slíkt að vart verður lengur við það unað.
Það er slæmt til þess að hugsa að rúmlega helmingur þjóðarinnar skuli hafa tekið þátt í sukkinu með því einu að kjósa yfir sig þá bullukolla sem hér hafa skipt með sér verkum síðustu árin.
Og það er kannski ennþá verra, að þjóðin er farin að hugsa hálfar hugsanir. Hálfkák er orðið aðalsmerki. Og hálfur sannleikur ræður ríkjum. Menn komast upp með að vera hálfsiðblindir, hálfsaklausir, hálfbrjálaðir og þeir fá jafnvel sektir á hálfvirði af hálfu hins opinbera ef þeir aka hálfir.
Það þykir fínt í dag að fara í allskonar fullorðinsfræðslu og ná sér í ýmiskonar hálfgildings próf, sem leyfa þeim manni sem borgar fyrir einkunnir sínar að kalla sig viðskiptafræðing, stjórnmálafræðing eða öðru því stafsheiti sem ekki er verndað. Þetta er hálfhallærislegt og er reyndar lýsandi fyrir þá firringu sem þjóðin lofar, því þegar sannleikurinn er einungis sagður að hálfu, fer fólk á námskeið í mannauðsstjórnun en þegar um þann auðinn er fjallað af hálfu hins opinbera, þá er hann sagður hálfu verri en stóriðjuauðurinn.
Ég veit að hér má gera betur í öllum málum.

Það dugir engin hálfvelgja til að skipta um stjórn í landinu.

Ég hef orðið var við það að mikil ákveðni býr meðal þeirra sem virkilega vilja breyta til, enda heyri ég marga af þeim sem kjósa VG tala um það, að fólk trúi því að eftir kosningarnar í vor verði mynduð hér vinstristjórn. Ég heyri margan manninn segja að rúmlega helmingur þjóðarinnar sé að vakna til vitundar um það að hér megi gera betur. Og ég sjálfur svo ákafur í framgöngu að ég segi fólki hiklaust, að ef það ætli ekki að kjósa Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, þá skuli það kjósa þann flokkinn sem stendur Vinstri grænum næst - Samfylkinguna. Staðreyndin er nefnilega sú að ef þessir tveir flokkar fá meira en helming atkvæða þá verður lífvænlegra í landi voru.
Ég er alveg skelfilega hreinskilinn og þarf stundum að bíta í tunguna áðuren ég tala. Ég er ekki einn af þeim sem lofa öllu fögru fyrir kosningar en byrja svo að svíkja í skjóli flokksaga og bitlinga, um leið og uppúr kössum hefur verið talið. Mín sannfæring ræður mínum gjörðum - ekki flokkshollusta, stöðuveitingar eða tískustraumar. Fái ég fylgi og traust, mun ég ekki láta draga þjóðina útí Íraksstríð eða skuldasúpu vegna óarðbærra framkvæmda.
Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að samninga og sveigjanleika þarf til ef árangur á að nást í samstarfi manna, jafnvel þótt ég hafi alltaf kunnað vel að meta kaldhæðnina í frómri setningu í leikriti Henriks Ibsen, leikritinu um þjóðníðinginn, þar sem segir: ,,Meirihlutinn hefur alltaf rangt fyrir sér."

Í daglegu starfi er þjóðin mín þreytt
þá þambar hún öl og vín,
yfirleitt skilur hún ekki neitt
en ofmetur verkin sín.

 Um helgar er þjóð mín frekar full
þá fær hún úr víni kraft,
hún æðir um strætin með allt sitt bull
og elskar að rífa kjaft.

Hér þykjumst við vera þæg og góð
þótt þjóðin sé oftast hálf.
Og hver á að skilja skrýtna þjóð
sem skilur sig ekki sjálf?

Kristján Hreinsson, skáld

Fréttabréf