Margrét Guðmundsdóttir skrifar: HAFNFIRÐINGAR, FÖGNUM ÞVÍ AÐ FÁ AÐ KJÓSA
Sú lýðræðislega ákvörðun bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði 2002, að Hafnfirðingar skyldu fá að kjósa um allar stórar ákvarðanatökur bæjarins eru þakkarverðar og ómetanlegar. Því þurfum við að kynna okkur málið frá öllum hliðum og spyrja spurninga. Er hagkvæmt fyrir okkur Hafnfirðinga að samþykkja stækkun verksmiðjunnar í Straumi? Er það hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga að virkja meira, sökkva stærra landi, bora í fleiri eldstöðvar, eingöngu til þess að geta annað sífellt viðbótar kröfum útlendra auðhringa, til að fá ódýra orku á okkar fagra landi. Er ekki búið að virkja nóg í bili? Er ekki gott að staldra aðeins við?
Ég nem við Háskóla Íslands. Þar flutti Bjarni
Bjarnason, framkvæmdastjóri orkusviðs Landsvirkjunar, erindi og
lofaði framkvæmdagleði og framsýni fyrirtækisins og virtist mikið
framundan. Eftir klukkustundar langa tölu, mátti salurinn koma með
fyrirspurnir. Ég spurði: Þurfum við Íslendingar að búa til alla
þessa orku? Svarið sem ég fékk var: Þurfum við Íslendingar allan
þennan fisk sem við veiðum?
Já þetta þótti mér nokkuð einkennilegt svar og fór því að velta
fyrir mér ýmsum öðrum svörum, sem hinn almenni borgari fær. Eins og
til dæmis Guðrún S. Gísladóttir fékk frá umhverfisráðherra vegna
mótmæla Hrafntinnuriddaranna, þar sem gefið var leyfi til að taka
fleiri tonn af friðlýstri Hrafntinnu. Svör ráðherra voru, að við
Íslendingar værum ekki fullgildir aðilar að Árósasáttmálanum. Ég er
búin að kynna mér hvaða sáttmáli það er. Árósarsáttmálinn er
frá 1998 og á að gefa almenningi auðveldara aðgengi að upplýsingum
um hin ýmsu málefni sem hið opinbera tekur ákvarðanir um og gefur
starfsleyfi fyrir.
Annar sáttmáli er til sem heitir Evrópu landslagssáttmálinn 2000, þar sem Íslendingar einir, allra Evrópubúa, hafa ekki skrifað undir en hann fjallar um "Landslag í víðustu merkingu, þar sem náttúran hefur eigið gildi". Hversvegna hafa íslensk stjórnvöld ekki skrifað undir þessa sáttmála?
Einnig er einkennilegt að embætti Skipulagsstjóra ríkisins hefur
verið lagt niður og allt skipulagsvald framselt til
sveitafélaganna. En við Hafnfirðingar, fáum að kjósa um
stækkun álversins , þökk sé bæjarstjórn
Hafnarfjarðar. Hinsvegar heimilaði bæjarstjórn
Garðabæjar að affriða friðað hraun og framselja til erlends
auðhrings, sem reysti Íkeaverslunina ásamt 2.200 bílastæðum, einnig
á að koma þar Byko verslun og stór leikfangabúð, allt á friðuðu
hrauni. Garðbæingar fengu ekki að kjósa um þá ákvörðun.
En ef við kjósum að álverið stækki í Hafnarfirði, þá erum við um
leið að stuðla að því að jörðum bændanna við neðri Þjórsá
verði sökkt að stórum hluta, það er á teikniborðinu.
Vegna þess að æðsta vald þjóðarinnar í umhverfismálum hefur verið lagt niður, þá er hverju sveitarfélagi afhent valdið og í stað sameiginlegra hagsmuna landsins í heild er þeim raunar att saman, til að berjast um skammtíma gróða sjónarmið. Nú er t.d. Þorlákshöfn komin í biðröð eftir álveri og Norsk Hydro vill einnig komast að hér.
Ég spyr, því nú: Þurfum við Íslendingar öll þessi álver? Er ekki kominn tími til að staldra við og hugsa málið upp á nýtt? Hlúa að hugvitinu, því það gefur margfalt meira í aðra hönd heldur en álbræðsla og tekur ekki stóran toll af óafturkræfu landslagi.
Aðeins tvö dæmi um hvað góð hugmynd hefur áorkað, nú þegar, á okkar litla Íslandi. Latabæjar verkefnið, sem fer sigurför um heiminn og CCP þar sem tölvuleikurinn Eve fæddist í höfðum tveggja rúmlega tvítugra drengja. Utan Kína eru 145.000 spilarar á sama vefþjónsklasa hjá CCP, sem er algjört met í heiminum. CCP er með sínar höfuðstöðvar í Reykjavík og útibú í Bandaríkjunum, einnig er CCP komið með skrifstofu í Sjanghæ og í Kína eru komnir 80.000 spilarar nú þegar, þar af 60.000 á reynslutíma. Já það er hugvits-stóriðja, sem við þurfum. Efla menntun unga fólksins, gera stórátak í að útrýma fallprósentu á grunnskólaprófi þar sem nú er um 30% fall.
Auka úrræði í Fjölgreinanámi.
Efla Ísland til þess að verða: Náttúrulandið, Matvælalandið,
Heilsulandið, Menntalandið, Ferðamannalandið og ekki sýst
FRUMKVÖÐLALANDIÐ.
Margrét Guðmundsdóttir,
Innanhúss arkitekt, framhaldsskólakennari og
myndlistarmaður