Fara í efni

RÉTT ER EKKI ALLTAF RÉTT...

Einhverstaðar hef ég ritað að það sé svo auðvelt að misskilja. En það er vegna þess að yfirleitt er einungis til ein rétt leið til að skilja en endalaus fjöldi leiða til að misskilja.

Það er svo einfalt að snúa útúr orðum manna og svo auðvelt að koma í samninga setningum sem skilja má þeim í vil sem á því þarf að halda að réttu máli sé hallað.

Þegar viðtöl eru tekin við stjórnmálamann og síðan gerð samsuða úr því sem stjórnmálamaðurinn vill láta eftir sér hafa, þá getur sá er viðtalið tekur ráðið því hver verður niðurstaða samtalsins. Það merkilega er að stjórnmálamenn taka oft þátt í því að draga sannleikann út á ystu nöf og gera samninga við ríki og bæ, samninga sem jafnvel tryggja þeim laun í formi starfslokasamninga eða eftirlauna.

 Alltaf hlýtur þessi stígur milli þess sem rétt getur talist og hins sem má telja rangt að vera vandrataður og krafa almennings verður að vera sú að hægt sé að treysta á sanngirni og heiðarleika þeirra sem í hlut eiga.

Stjórnmálamaður fer í framboð til sveitastjórnarkosninga, hann er svo óheppinn að vera spurður að því rétt fyrir kosningar hvort hann ætli að sitja út kjörtímabilið í bæjarstjórn. Og hann svarar og segist ætla að vera í því embætti sem fólkið setur hann í.

Þessi ólánsami maður verður svo fyrir því að ná kjöri og skömmu eftir að hann kemst í embætti, ákveður hann að söðla um og fara á þing. Hann hlýtur stuðning flokksins og er á leið inn á þing. Þá gerist það að hann hættir sjálfviljugur í því embætti sem hann bað um að fá að gegna út kjörtímabilið og vegna þess að þess er getið í samningi hans við sveitarfélagið, að hann megi þiggja biðlaun í sex mánuði, þá ætlar hann að þiggja þau laun.

Ef hér væri spurt um rangt og rétt þá myndum við velta því fyrir okkur að biðlaun mannsins samsvara því sem leikskólakennari fær í útborguð laun á sex árum. Og við myndum spyrja okkur að því hvort stjórnmálamönnum eigi að líðast það að ganga á bak orða sinna og þiggja auk þess tvöföld laun fyrir það að segja ósatt.

Þingmenn verða að reyna að finna leiðir til að hindra það að sannleikur og réttlæti fái að vera hugtök sem endalaust má misskilja, teygja og toga.

 Af græðgi fæstir gengju langt
með girnd og brotsvilja
ef spurningar um rétt og rangt
hér reyndum við að skilja.

 Kristján Hreinsson, skáld