Fara í efni

LÆKKUM KOSNINGAALDUR Í 16 ÁR

Það er fyrir löngu kominn tími til að auka réttindi og áhrif ungs fólks í samfélaginu. Einn þáttur í því er að allir 16 ára og eldri fái að kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórnir og á Alþingi, það er aukið lýðræði.

Með þessu yrði ábyrgð ungs fólks aukin og sjálfsagður réttur þeirra til að taka þátt í mótun þjóðfélagsins gerður raunverulegur. 16 ára einstaklingur í íslensku samfélagi er orðinn virkur þátttakandi í þjóðfélaginu, hefur lokið grunnskóla og ætti að vera tilbúinn til að taka á sig á þá ábyrgð sem felst í því að kjósa sér fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir. Það ætti einnig að vera sjálfsagður réttur þessa unga fólks.
Í nágrannalöndum okkur er verið að kanna þessi mál og það væri óskandi að Íslendingar tækju frumkvæði í því að auka lýðræði og þátttöku ungs fólks í þjóðfélaginu. Það er eftirtektarvert að margir Vinstrigrænir flokkar hafa tekið þetta baráttumál upp í stefnuskrá sinni. Dugir þar að nefna Green Party of England and Wales, GreenLeft í Hollandi, Austurríska græningjaflokkinn, Græninga í Ástralíu og einnig Sósíalistaflokkinn þar í landi. Í Svíþjóð hefur Umhverfisflokkurinn haft það á stefnuskrá sinni að lækka kosningaaldur niður í 16 ár til þess að freista þess að auka þátttöku ungmenna í pólitískri umræðu.
Nú þegar hafa 16 ára ungmenni kosningarétt í nokkrum löndum eins og í Brasilíu, Níkaragúa, á Mön og á Kúbu. Í Króatíu, Serbíu og  Svartfjallalandi hafa þau sem eru á vinnumarkaði og eru orðin 16 ára einnig kosningarétt.

Helstu rökin fyrir því að 16 ára hjóti kosningarétt eru þau að það muni smám saman leiða til breyttra áhersla í landsmálunum þar sem kjörnir fulltrúar landsins myndu leitast við að verja hagsmuni stærri hluta þjóðarinnar. Kosningaréttur hefði þroskandi áhrif á ungt fólk og þau verða ábyrgir þátttakendur í samfélaginu.
Rök gegn því að ungt fólk fái kosningarétt eru til dæmis þau að börn og unglingar búi ekki yfir vitsmunaþroska til að taka afstöðu í þjóðmálum eða sveitastjórnarmálum, að þau láti tilfinningar ráða fremur en dómgreindina og að þau séu líklegri til að verða fórnarlömb áróðursmeistara. Öll þessi rök lýsa vantrausti á ungt fólk og hafa reyndar einnig verið notuð á liðnum tímum til að koma í veg fyrir að konur, eignalausir, undirokaðir kynþættir og jafnvel almenningur hljóti kosningarétt!

Krafa okkar hlýtur að vera sú að allir 16 ára og eldri fá kosningarétt.

Hlynur Hallsson